85% ljósmæðra segir öryggi mæðra í hættu
85% ljósmæðra segja öryggi mæðra hafa verið stofnað í hættu einhvern tímann á síðustu 6 mánuðum vegna manneklu og 48% segja þetta gerast oftar en áður, þar af 61% í vaktavinnu. Tæplega þriðjungur ljósmæðra hefur íhugað að hætta alfarið að starfa sem ljósmóðir á síðustu tveimur árum. Of mikið álag, mannekla og óánægja með styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu eru nefndar sem veigamiklar ástæður. Er þetta meðal þess sem kemur fram í könnun BHM sem framkvæmd var fyrir Ljósmæðrafélag Íslands í janúar 2024. Könnunin náði til um 300 ljósmæðra á landsvísu og var svarhlutfallið rúmlega 70%.