Ert þú aftengdur?

Jóhann Gunnar Þórarinsson, formaður BHM, skrifar um bakvaktina endalausu.

Samskiptamynstur á vinnumarkaði hefur tekið stakkaskiptum á 21. öldinni með tilkomu stafrænna lausna og snjalltækja en flestir háskólamenntaðir búa nú við það að vera stöðugt tengdir við vinnu sína gegnum tæki sem vinnuveitendur þeirra útvega. „Endalausa bakvaktin“ eins og sumir myndu kalla það en það er ljóst að rétturinn til að aftengjast (RTA) verður sífellt meira aðkallandi réttindamál á vinnumarkaði og baráttan fyrir RTA verður samofin kjarabaráttunni á næstu árum.

60% aðspurðra truflaðir minnst einu sinni í viku

Í nýlegri könnun BHM á málefnum fjarvinnu sagðist um helmingur 4.000 svarenda vinna lengri vinnudaga þegar unnið væri heima en þegar unnið væri á vinnustaðnum. Enn fremur vakti athygli að 60% aðspurðra sögðu yfirmann sinn hafa samband við sig minnst einu sinni í viku vegna vinnutengdra mála utan hefðbundins vinnutíma. Að auki er vert að nefna að meirihluti aðspurðra taldi mikilvægt að í næstu kjarasamningum yrði lögð áhersla á rétt launafólks til að aftengja tölvupóst og/eða síma utan vinnutíma.

Evrópulönd slá upp varnarmúr um frítímann

Á undanförnum árum hefur verið töluvert fjallað um réttinn til að aftengjast (RTA) í nágrannalöndunum. Sem dæmi má nefna að svo snemma sem árið 2001 komst Hæstiréttur Frakklands að þeirri niðurstöðu að launþega væri hvorki skylt að samþykkja að vinna heima né taka heim með sér vinnuskjöl eða vinnutengd tæki. Nokkrum árum síðar komst rétturinn svo að þeirri niðurstöðu að launþegi væri ekki að bregðast starfsskyldum sínum þótt hann væri ekki ínáanlegur í síma utan vinnutíma. Í kjölfarið settu Frakkar ákvæði í vinnumarkaðslöggjöf sína um RTA og málsmeðferðarreglur sem vinnuveitendum ber að fylgja.

Nú nýlega hefur meirihluti þingmanna á Evrópuþinginu kallað eftir því að ESB setji reglur um RTA og í síðasta mánuði krafðist Evrópusamband stéttarfélaga (ETUC) þess að framkvæmdastjórn ESB hefði án tafar frumkvæði að löggjöf í formi evrópskrar tilskipunar um beitingu og fullnustu RTA m.a. á þeim forsendum að heilsa fólks og vellíðan væri í húfi.

„Endalausa bakvaktin“

Alkunna er að Íslendingum hefur löngum þótt dyggð að vinna fram eftir. Að því leyti er Ísland frábrugðið öðrum löndum sem búa við sama velferðarstig en mikið er lagt upp úr jafnvægi frítíma og vinnutíma á Norðurlöndum svo dæmi séu tekin. Á síðustu árum hafa augu margra opnast fyrir mikilvægi hóflegs vinnutíma á Íslandi og fórnarskiptum vinnu og lífsgæða m.a. með styttingu vinnuvikunnar. Minna hefur farið fyrir umræðu um mörk frítíma og vinnutíma s.s. áhrif sítengingar og ínáanleikans á lífsgæði og kjör.

BHM hefur margsinnis lýst áhyggjum af áhrifum sítengingar starfsmanna á lengd vinnutíma og álags í starfi. Móta þarf skýrari reglur um vinnutengd samskipti utan hefðbundins vinnutíma og afmarka þann tíma sem starfsmaður á rétt á að vera aftengdur. Þá þurfa starfskjörin að taka mið af heildarvinnuframlagi m.t.t. þess tíma sem sítengingin útheimtir. Leiða þarf skýr ákvæði í lög á Íslandi sem tryggja réttinn til að aftengjast.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt