Fjórir af hverjum tíu félögum aðildarfélaga BHM segja erfitt, nokkuð erfitt eða mjög erfitt að ná endum saman með þeim tekjum sem eru til ráðstöfunar. Athygli vekur að þegar svörin eru skoðuð eftir vinnuveitanda er algengara að þau sem starfa hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum eigi erfitt með að ná endum saman en hjá ríki eða á almennum markaði. Innan BHM starfa sjö af hverjum tíu félagsmönnum hjá hinu opinbera, svo sem í heilbrigðis- eða félagsþjónustu, fræðslustarfsemi eða opinberri stjórnsýslu.
Um það bil helmingi þeirra sem starfa innan félagsþjónustunnar gengur erfiðlega að fá tekjur til að duga fyrir útgjöldum. Það er hærra hlutfall en í öðrum greinum, þar sem 39-44% eru í slíkum vanda. Hér er rétt að geta þess að félagsþjónustan er eini geiri hins opinbera vinnumarkaðar sem er nánast alfarið á höndum Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna. Vægi annarra greina er meira hjá ríkinu.
Barnafólki gengur verr að ná endum saman en barnlausum, þar er hlutfallið helmingur á móti þriðjungi. Miklu munar á stöðu þeirra heimila þar sem báðir foreldrar afla tekna, þrír af hverjum fjórum einstæðum foreldrum eiga erfitt með að láta tekjur duga fyrir útgjöldum á móti 46% foreldra í sambúð. Staða á fasteignamarkaði skiptir líka máli, þar munar mestu um húsnæðiskostnað.
Mikill meirihluti félagsfólks aðildarfélaga BHM býr í eigin húsnæði eða níu af hverjum tíu. Einn af tíu býr í leiguhúsnæði. Af þeim sem eru í eigin húsnæði eru 87% með fasteignalán á meðan 13% búa í skuldlausu húsnæði. Síðastnefndi hópurinn er eðlilega í bestri stöðu, óháð öðru, enda segja aðeins 8% þess hóps erfiðlega ganga að ná endum saman. Hins vegar segja fjórir af hverjum tíu sem greiða af íbúðalánum eiga erfitt með að ná endum saman og meðal leigjenda er hlutfallið tæplega sex af hverjum tíu.
Önnur hefðbundin leið til að fá upplýsingar um fjárhagsstöðu fólks er að spyrja hvort það myndi ráða við 200.000 króna óvænt útgjöld með þeim leiðum sem það venjulega notar til að greiða reikninga. Þessi spurning er beinskeyttari en sú fyrri, þ.e. ekki jafn huglæg, en sýnir í grófum dráttum svipaða mynd. Þrír af hverjum tíu telja sig ekki geta mætt 200.000 kr. óvæntum útgjöldum.
Líkt og í fyrri spurningu er hærra hlutfall þeirra sem ekki ræður við þessi óvæntu útgjöld barnafólk eða 37% aðspurðra á móti 24% barnlausra. 65% einstæðra foreldra ræður ekki við óvænt útgjöld á móti 33% foreldra í sambúð. Greiðslubyrði af íbúðarhúsnæði (fasteignalán eða leiga) hefur hér einnig áhrif.
Þegar svör eru skoðuð út frá vinnuveitanda og atvinnugrein gefa svörin við spurningunni um óvænt útgjöld svipaða niðurstöðu og spurningin um hvernig fólki gangi að ná endum saman. Á meðan 71-72% svarenda sem starfa hjá ríki eða á almennum markaði kvaðst geta mætt þessum óvæntu útgjöldum er hlutfallið 63% meðal starfsfólks hjá sveitarfélögunum. Aftur sker félagsþjónustan sig úr þegar svörin eru skoðuð eftir atvinnugreinum, en þar gætu 42% svarenda ekki tekist á við þessi óvæntu útgjöld á móti 27-30% svarenda í öðrum greinum.
Lífskjararannsókn BHM var lögð fyrir félagsfólk í 22 aðildarfélögum BHM í upphafi ársins. Sendu aðildarfélögin könnunina út, hvert á sitt félagsfólk. Samtals var könnunin send á 16.563 einstaklinga og bárust 5.730 svör sem gefur 34% svarhlutfall. Niðurstöður eru vegnar eftir kyni og aðildarfélagi.