Árið 2023 voru samanlögð vaxtagjöld af fasteignalánum heimilanna 109 milljarðar króna og heildarupphæð fasteignalána nam 2.737 milljörðum. Það ár greiddu heimilin 22,7 milljarða króna af séreignarsparnaði inn á fasteignalán, sem er aðeins lítill hluti af heildarvaxtakostnaði. Það færir okkur heim sanninn um að heimildin hefur dregið úr vaxtakostnaði fyrir skuldsett heimili, en skiptir varla sköpum fyrir framtíðarskattekjur hins opinbera. Þar sem vaxtabætur og skattaleg úrræði fyrir lántakendur hafa minnkað allverulega, standa launþegar, og þá sérstaklega yngra fólk og þau sem keyptu fasteignir á síðustu árum, nú í harðri baráttu við að mæta mánaðarlegum útgjöldum. Við þessar aðstæður hlýtur að teljast óásættanlegt að fellt skuli niður svo mikilvægt úrræði, sem hefur gert íbúðakaupendum kleift að létta greiðslubyrði sína.