Þessi söngur heldur linnulaust áfram. Þó hefur reynsla okkar af heimsfaraldri síðustu tvö árin sýnt og sannað að verðmætasköpun, hvort heldur sem á almennum eða opinberum markaði, sé algjörlega háð því að fólk, aðallega konur, haldi áfram að mæta til vinnu. Mæti þrátt fyrir veirur, smittölur, stöðu á gjörgæsludeildum og dánartíðni. Án kvennanna sem starfa við menntun, heilbrigðisþjónustu, umönnun og stjórnsýslu hefði þjóðfélagið stöðvast og staðnað.
Á meðan faraldurinn geisaði hér á landi lifði samfélagið af tímabundið tap 20 þúsund starfa á almennum markaði. Þjóðin hefði hins vegar aldrei lifað af sambærilegt tap á opinberum markaði. Þar voru hreinlega mannslíf að veði, framtíð þjóðar og fullveldi.
Það er löngu tímabært að við upprætum kynjamisrétti úr íslensku samfélagi. Öll þurfa að taka þátt í þeirri baráttu; við í verkalýðshreyfingunni, fulltrúar launagreiðenda og stjórnvöld. Tökum höndum saman og leiðréttum skakkt verðmætamat og hættum að gefa afslátt af störfum kvenna. Við verðum að meta störf kvenna að verðleikum í eitt skipti fyrir öll.
Greinin birtist á Vísi í tilefni kvennafrídags.