Í tilefni dagsins - 24.10.2024

Þó margt hafi áunnist frá því konur lögðu niður störf á kvennafrídaginn árið 1975 og sýndu í verki hversu mikilvæg störf þeirra, launuð sem ólaunuð, voru fyrir samfélagið, búa konur enn við misrétti. Enn eru konur og kvár í meirihluta þolenda ofbeldis, enn hefur ekki náðst að jafna laun kynjanna þrátt fyrir lagaskyldu og enn hvílir ábyrgð heimilis og umönnunar frekar á herðum kvenna en karla með tilheyrandi skerðingu á ævitekjum, lífeyrisréttindum og tækifærum. Með markvissri baráttu hefur þó orðið breyting til batnaðar hvað alla þessa þætti varðar, en betur má ef duga skal.

Heildarsamtök launafólks ásamt fjölda kraftmikilla félagasamtaka kvenna og hinsegin fólks hafa verið óþreytandi í baráttunni og eru enn. Nægir að nefna kvennaverkfallið 24. október 2023 til marks um að sífellt bætist í hóp þeirra sem taka virkan þátt og sýna sig á vettvangi baráttunnar. Nú er hafinn undirbúningur afmælisárs kvennafrídagsins 2025 þegar liðin verða 50 ár frá þessum merkisdegi. Stéttarfélög háskólamenntaðra sem tilheyra BHM hafa lagt hönd á plóg í baráttunni. Bandalagið á aðild að hópnum sem stóð að kvennaverkfallinu 2023 og sem undirbýr nú aðgerðir afmælisársins.

Dagurinn sem Ísland stöðvaðist

Já, íslenskar konur brugðust eftirminnilega við kalli Sameinuðu þjóðanna 24. október 1975, viðburður sem enn vekur athygli og aðdáun, m.a. fyrir tilstilli baráttukvenna í hópi listamanna. Í tilefni dagsins, og til að hita upp fyrir baráttu afmælisársins, er blásið til sameiginlegs viðburðar í kvöld í Bíó Paradís. Þar verður frumsýnd heimildamynd Hrafnhildar Gunnarsdóttur og Pamelu Hogan Dagurinn sem Ísland stöðvaðist um kvennafrídaginn á Íslandi fyrir 49 árum, þegar 90% kvenna lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi framlags kvenna til atvinnulífs og umönnunar af öllu tagi. Myndin hefur þegar vakið athygli víða um heim, en er nú frumsýnd hér á landi í endanlegri gerð. Það á vel við að slíkur viðburður sé haldinn á kvennafrídeginum sjálfum og marki um leið upphaf 50 ára afmælisársins. Baráttan framundan er jafn mikilvæg og oft áður. Í því sambandi er viðeigandi að vitna til orða Vilborgar Harðardóttur, blaðamanns og rauðsokku, þegar hún hélt ávarp á 25 ára afmæli kvennadagsins og sagði:

Það er erfitt að skyggnast til framtíðar og ég vil ekki trúa öðru en að jafnrétti og jöfn staða kynjanna náist að lokum. En ef ekki á að verða bakslag [ ... ] verður að standa á verðinum, alltaf!

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt