Verðbólga á alþjóðlegan mælikvarða jókst hlutfallslega um 50% milli 2022 og 2023 sem er einsdæmi meðal Evrópuþjóða. Heimili landsins vænta þá 8% verðbólgu næstu 12 mánuði sem er rúmlega þrefalt á við verðbólgumarkmiðið. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á hvern íbúa hefur dregist saman fjóra ársfjórðunga í röð og stýrivextir eru rúmlega tvöfaldir á við meðaltal þeirra landa sem hagfræðingar OECD telja „háþróuð hagkerfi“. Ljóst er að kjaraveturinn framundan verður afar krefjandi og lítið má út af bregða til að skapa aukinn verðbólguþrýsting, hvað sem svigrúmi hagkerfisins til launahækkana líður. En hvað er þá til ráða ef tryggja á kjarabætur fyrir almenning?
Þurfum stöðugleikaaðgerðir frá stjórnvöldum
Á sama tíma og almenningur kallar eftir kjarabótum heyrist ákall frá stjórnvöldum um verðstöðugleika og langtímasamninga. Ef leiða á þessi markmið saman þurfa stjórnvöld að tefla fram trúverðugum stöðugleikaaðgerðum og kjarapakka til að létta á kröfunni um miklar launahækkanir á árinu 2024. Í þeim efnum hefur BHM bent á tækifærin sem liggja í skynsamlegri beitingu tilfærslukerfa, hækkun á hámarki fæðingarorlofgreiðslna og frekari aðgerðum á framboðshlið húsnæðismarkaðar. Í fjárlagafrumvarpi 2024 skortir stöðugleikaaðgerðir í þessa veru. Ekki eru boðaðar aðgerðir til að efla tekjustofna ríkisins á breiðum grunni heldur fremur boðaðar verðbólguvaldandi skattahækkanir t.a.m. vegna kaupa á vistvænum bifreiðum. Þá virðast stjórnvöld ekki treysta sér til að tala með skýrum hætti um aukna skattheimtu í ferðaþjónustu, grein sem skapað hefur töluverðan verðbólguþrýsting og mikið álag á innviði. Hagvöxtur á hvern íbúa var enginn á Íslandi á árunum 2017-2022. Þörf greinarinnar fyrir vinnuafl var megindrifkraftur þess að íbúafjöldi landsins jókst tuttugu- og þrefalt á við meðaltal aukningar í Evrópu árin 2017-2023. Það er einstakt í alþjóðlegum samanburði.
Vinnumarkaður er meira en láglaunafólk
BHM styður allar skynsamlegar aðgerðir til að bæta félagslega- og efnahagslega stöðu láglaunahópa. En ef stuðla á að langtímasamningum á vinnumarkaði og auknum stöðugleika skiptir máli að undanskilja ekki þarfir millitekjuhópa þ.m.t. háskólamenntaðra. Hverfa þarf af þeirri braut að krefjast krónutöluhækkana hjá öllum hópum launafólks. Til dæmis má nefna að sérfræðingar hjá ríkinu hlutu enga kaupmáttaraukningu frá mars 2019 til janúar 2023 samkvæmt skýrslu KjaratölfræðinefndMar. Ef fram fer sem horfir mun þessi hópur þurfa að þola 5 ára stöðnun í kaupmætti launa þegar samningar losna á næsta ári. Hópnum hefur verið gert að gangast undir blöndu krónutölu- og prósentuhækkana um langa hríð, að kröfu almenna markaðarins og með stuðningi opinberra launagreiðenda. Almenna markaðnum hefur verið heimilað að móta „krónutölumerki“ fyrir alla kjarasamninga á vinnumarkaði fremur en „prósentumerki“, sem er ekki það sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum. BHM telur mikilvægt að benda á þessar brotalamir.
Mikilvægi breiðrar samstöðu
Stærsta áskorun stjórnvalda, atvinnulífs og verkalýðshreyfingar er að leiða fram breiða samstöðu um stöðugleikaaðgerðir, verðstöðugleika og kjarabætur á árinu 2024. Það þarf að gera tímanlega og í formlegu samtali við stéttarfélög og heildarsamtökin á almennum- og opinberum vinnumarkaði; ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. Varast ber að hunsa þarfir millistéttarinnar og þeirra sem bera þyngstu skattbyrðarnar. Nær önnur hver króna sem íslenska hagkerfið skapar er greidd í skatta eða í lífeyrissjóði. Þessi byrði er með því hæsta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði. Um 70% álagðra gjalda eru borin af þriðjungi þjóðarinnar en í þessum hópi er meginþorri háskólamenntaðra. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að áherslur þessara hópa heyrist meir í samtalinu um lausnir og efnahagslegan stöðugleika.
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 2. nóvember 2023