Stjórnendur mega því ekki segja trúnaðarmanni upp fyrir að vekja athygli á óþægilegum málum fyrir hönd samstarfsfólks eða benda á kjarasamningsbrot fyrir hönd stéttarfélags. Brjóti trúnaðarmaður hins vegar af sér í daglegum störfum eða vanræki hann starf sitt, er hann í sömu stöðu gagnvart atvinnurekanda og aðrir á vinnustaðnum.
Félagsdómur hefur fjallað um vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.
Sjá nánar um uppsagnarvernd trúnaðarmanna.
Trúnaðarmenn hjá ríki og sveitarfélögum
- Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa.
- Ekki má flytja trúnaðarmann í lægri launflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
- Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu.
- Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma.
- Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
- Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans.
- Trúnaðarmönnum hjá ríkisstofnunum, Reykjavíkurborg og ýmsum sjálfseignastofnunum er einnig heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglulegum launum.
Samhljóða ákvæði er einnig í kjarasamningi við sveitarfélög frá 2011.
Trúnaðarmenn sem kjörnir eru í samninganefnd fá leyfi til að sinna því verkefni án skerðingar á reglulegum launum. Trúnaðarmanni ber þó að tilkynna yfirmanni um slíkar fjarvistir með eðlilegum fyrirvara.
Trúnaðarmenn á almennum vinnumarkaði
- Óheimilt er að segja trúnaðarmanni upp störfum vegna trúnaðarstarfa sem hann gegnir né að láta trúnaðarmann gjalda á nokkurn hátt fyrir að stéttarfélag hafi falið honum að gegna starfi trúnaðarmanns fyrir sína hönd.
- Þurfi atvinnurekandi að fækka starfsmönnum skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
Trúnaðarmönnum er heimilt að sinna á vinnutíma trúnaðarstörfum sem honum eru falin af stéttarfélagi eða samstarfsmanni án þess að laun þeirra skerðist, að því gefnu að trúnaðarmaður hafi samráð við vinnuveitanda um störf þessi.