Trúnaðarmenn
Hlutverk trúnaðarmanns er í senn að vera tengiliður milli vinnuveitanda og samstarfsfólks í sama stéttarfélagi og tengiliður vinnuveitanda við stéttarfélag.
Trúnaðarmaður verður alltaf að skila til stéttarfélags þar til gerðu eyðublaði um tilnefningu sína eða kosningu til að hljóta staðfestingu sem trúnaðarmaður. Ef hann gerir það ekki nýtur hann ekki verndar sem trúnaðarmaður, en verndin felst til dæmis í að ekki er leyfilegt að segja trúnaðarmanni upp fyrir að sinna trúnaðarstörfum.
Stjórn og starfsmenn stéttarfélags eru stuðningsaðilar trúnaðarmanns og eru honum innan handar við að leysa úr erindum og álitamálum sem upp koma á vinnustað og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins.
Mjög misjafnt getur verið eftir stéttarfélögum hvaða skyldum og hlutverkum trúnaðarmönnum er ætlað að gegna og því mikilvægt fyrir trúnaðarmenn að vera í góðu sambandi við sitt stéttarfélag.