Út­hlut­un­ar­reglur

Sótt er um styrki til sjóðsins á Mínum síðum BHM. Meginregla í úthlutunarreglum sjóðsins er að að greitt hafi verið sjúkrasjóðsframlag vegna sjóðfélaga samtals í 6 mánuði og þar af 3 mánuði samfellt áður en atburður sem leiðir til styrkumsóknar, tekjutap eða útgjöld, sem veita rétt á til styrks úr sjóðnum, áttu sér stað. Á þessu geta þó verið undantekningar.

Helstu atriði í úthlutunarreglum

Eftirfarandi er útdráttur úr formlegum úthlutunarreglum sjóðsins. Þær má sækja sem PDF- skjal og ef misræmi reynist milli þessa útdráttar og reglnanna gildir það sem fram kemur í þeim.

Varðandi útfærslu á einstökum styrkjum og upphæðir þeim tengdum vísast í hinar formlegu úthlutunarreglur.

Umsóknir

Sótt er um styrki til sjóðsins í gegnum Mínar síður BHM.

Gögn skulu send inn rafrænt með umsókn. Nauðsynleg gögn verða að liggja fyrir til að sjóðfélagi geti fengið greitt úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um nauðsynleg gögn eftir styrkflokkum má finna á Mínum síðum eða í úthlutunarreglum sjóðsins.

Nauðsynleg gögn eru í flestum tilfellum sundurliðaðir reikningar með nafni umsækjanda sem sannanlega eru greiddir af sjóðfélaga sjálfum. Á reikningnum þurfa að vera upplýsingar um þann sem gefur reikninginn út, fjöldi skipta og dagsetningar meðferða eða kaupa á vöru eða þjónustu. Greiðslukvittun þarf einnig að fylgja umsókn ef ekki kemur fram á reikningi að hann sé greiddur. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að óska eftir frumriti reiknings áður en útborgun á sér stað.

Afgreiðsla umsókna

Umsóknir eru að jafnaði afgreiddar vikulega. Réttur til styrkveitinga úr sjóðnum fyrnist sé ekki sótt um þær innan 12 mánaða frá því að til útgjalda var stofnað. Réttur til styrkveitinga úr sjóðnum fyrnist 3 mánuðum frá því síðast var greitt iðgjald til sjóðsins.

Greiðsla sjúkradagpeninga fer að jafnaði fram í lok hvers mánaðar. Sjúkradagpeningar eru að hámarki greiddir í þrjá almanaksmánuði afturvirkt miðað við umsóknarmánuð.

Sjóðsaðild

Almennt gildir að réttur sjóðfélaga til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið sjúkrasjóðsframlag vegna sjóðfélaga samtals í 6 mánuði og þar af 3 mánuði samfellt áður en atburður sem leiðir til styrkumsóknar, tekjutap eða útgjöld, sem veita rétt til styrks úr sjóðnum, áttu sér stað.

Heildarlaun að upphæð 500.000 krónum eða hærri veita rétt á hámarksstyrk úr sjóðnum. Heildarlaun undir fyrrgreindri upphæð veita rétt á hálfum styrk.

  • Fæðingarorlof: Sjóðfélagar sem fara í fæðingarorlof og velja að greiða stéttarfélagsgjald meðan á því stendur halda áunnum réttindum.
  • Í veikindum: Sjóðfélagi sem hefur fullnýtt rétt sinn til sjúkradagpeninga nýtur áfram annarra réttinda í sjóðnum í allt að 1 ár stofni hann ekki til réttinda annars staðar. Félagsfólk sem fær endurhæfingarlífeyri hjá TR heldur réttindum sínum til annara styrkja en sjúkradagpeninga.
  • Atvinnulausir: Sjóðfélagi viðheldur réttindum sínum í sjóðnum við upphaf atvinnuleysis í allt að eitt ár enda sé greitt stéttarfélagsgjald. Stéttarfélögum er heimilt að lengja þetta tímabil svo lengi sem félagsmaður þiggur greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði (VMST) enda greiði þau iðgjöld til Sjúkrasjóðs BHM af atvinnuleysisbótum frá upphafi bótatímabils.
  • Launalaust leyfi: Sjóðfélagi viðheldur réttindum sínum í allt að 6 mánuði enda hafi sjóðfélagi hafið störf að nýju. Sjúkradagpeningar greiðast ekki vegna veikinda í launalausu leyfi.
  • Við starfslok: Sjóðfélagi viðheldur réttindum sínum í allt að 12 mánuði við upphaf lífeyristöku. Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir til lengri tíma en þriggja mánaða.

Félagi sem öðlast hefur rétt til greiðslu úr Styrktarsjóði BHM er hann verður sjóðfélagi í Sjúkrasjóði BHM öðlast strax rétt til greiðslu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt