Samþykkt á Stefnumótunarþingi BHM 25. febrúar 2022 og á aðalfundi BHM 31. maí 2022.
Inngangur
Störf háskólamenntaðra grundvallast á fagmennsku þar sem áhersla er lögð á rannsóknir, nýsköpun, gagnreyndar aðferðir og viðurkennt verklag. Menntun og þekking eru ein helsta undirstaða hagsældar í nútímasamfélagi. Framtak og hæfni einstaklinga með háskólamenntun skilar sér í aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum. Mikilvægi vísinda og þekkingar hefur sannað gildi sitt og hvetur okkur til að byggja upp þekkingarsamfélag þar sem sjálfbærni er leiðarstefið.
Alþjóðleg samkeppni er um mörg störf fyrir háskólamenntaða og hefur það áhrif á nýliðun innan margra greina. Vegna tækniframfara, viðhorfsbreytinga og þróunar í samfélaginu er starfsumhverfi háskólamenntaðs fólks síbreytilegt. Tæknibreytingar hafa leitt af sér fækkun starfa á tilteknum sviðum og jafnframt er hægt að sinna störfum í fjarvinnu, jafnvel sérhæfðum þekkingarstörfum. BHM kallar því eftir auknu samstarfi við stjórnvöld, menntastofnanir og atvinnulíf um greiningu á framtíðarþörfum vinnumarkaðarins. Skoða þarf sérstaklega samspil fjórðu iðnbyltingarinnar* og starfsþróunar háskólafólks og tækifærin sem skapast á vinnumarkaði framtíðar.
Leiðarljós BHM er að standa vörð um réttindi félagsmanna aðildarfélaga sinna. Taka þarf tillit til margra þátta eins og jafnréttis, jafnræðis, aðgengis að menntun, húsnæðisöryggis, heilbrigðis- og félagsþjónustu og atvinnuþátttöku, auk tækifæra til að njóta menningar og lista.
BHM hefur meðal annars það hlutverk að móta stefnu í sameiginlegum málefnum aðildarfélaga og gæta hagsmuna félagsmanna þeirra gagnvart stjórnvöldum, Alþingi og öðrum heildarsamtökum á vinnumarkaði. Bandalagið beitir sér einnig í samfélagsumræðu um stöðu háskólamenntaðra og gildi háskólamenntunar.
*Fjórða iðnbyltingin er hugtak sem vísar til tækniframfara undanfarinn ára og þeirra sem eru í vændum.
Atvinnulíf og nýsköpun
Fjölbreytt atvinnulíf og nýsköpun eru ein forsenda hagsældar og velsældar til framtíðar.
Mikilvægt er að efla verðmætasköpun, minnka sóun og tryggja sjálfbærni með því að virkja mannauð, hugvit og þekkingu betur en nú er gert. Móta þarf atvinnu- og nýsköpunarstefnu og lýsir BHM sig reiðubúið til að taka þátt í þeirri vinnu með stjórnvöldum og öðrum haghöfum.
Mikilvægt er að nýsköpun stuðli að framþróun á öllum sviðum samfélagsins, bæði í ólíkum atvinnugreinum sem og efnislegum og félagslegum innviðum. Nýsköpun þarf að taka mið af margbreytileika fólks og búsetu þegar kemur að tækifærum til þátttöku í frumkvöðlastarfi og tryggja jafnan aðgang allra að styrkjum og úrræðum.
BHM hvetur stjórnvöld til að marka sér langtímastefnu og stórefla uppbyggingu nýsköpunar hér á landi m.t.t. innviðauppbyggingar, aðgengis að vinnuafli, fjármagns og samfélagslegrar framþróunar. Innleiða þarf frekari hvata til fjárfestingar í nýsköpun og skattaívilnanir sem styðja við hana s.s. með áherslu á sjálfbærni, kynjaða nálgun og velferð. Nauðsynlegt er að uppbygging nýsköpunarumhverfis á Íslandi sé samstarfs- og langtímaverkefni verkalýðshreyfingarinnar, hins opinbera, einkageirans og háskólasamfélagsins.
Húsnæðismál
Húsnæðisöryggi er mikilvæg forsenda þess að háskólamenntað fólk vilji búa og starfa á Íslandi. Ríki og sveitarfélög hafa mikilvægu hlutverki að gegna í að greiða fyrir og tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði á viðráðanlegu verði til kaups, leigu eða kaupleigu. Kanna þarf viðhorf og væntingar fólks til húsnæðiskerfisins og finna leiðir til lausna. Miklu skiptir að uppbygging á húsnæðismarkaði sé stöðug til lengri tíma og stuðli að félagslegum fjölbreytileika og blómlegri byggð um allt land.
Bæta þarf ferli skipulagsmála, einfalda regluverk og auka skilvirkni í stjórnsýslu þar sem því verður við komið. Leita þarf leiða til að lækka byggingarkostnað án þess að það komi niður á gæðum húsnæðis.
Aðilar verða að beita sér fyrir að húsnæðiskostnaður sé í eðlilegu hlutfalli af ráðstöfunartekjum. Hagstæð lánakjör, aðgengi að fjármagni og betri leiguvernd eru lyklar að húsnæðisöryggi án tillits til efnahagsstöðu fólks. Auðvelda þarf fyrstu kaup og tryggja tekjulágum húsnæðisbætur. Mikilvægt er að hækka tekjuviðmið innan almenna íbúðakerfisins til að auðvelda háskólafólki aðgengi að öruggu langtímaleiguhúsnæði.
Bæta þarf fræðslu og aðgengi að upplýsingagjöf til almennings um húsnæðismarkað.
Jafnréttismál og fjölskylduvænn vinnumarkaður
Jafnrétti og jafnræði eru sameiginlegur hagur allra. Í því felst meðal annars að öll hafi jöfn tækifæri til menntunar, atvinnuþátttöku og réttinda á vinnumarkaði, svo sem óháð kyni, stöðu og uppruna.
Ævitekjur og lífeyriskjör kvenna eru lakari en karla. Kynskiptur vinnumarkaður og rótgróin skekkja í verðmætamati starfa, þar sem hallar á hefðbundin kvennastörf, viðhalda þessari stöðu. BHM krefst þess að kynbundnum og öðrum ómálefnalegum mun á launum og lífeyriskjörum milli einstaklinga og hópa verði eytt.
Brýnt er að hækka greiðslur í fæðingarorlofi til að draga úr tekjutapi foreldra og tryggja að löggjöfin þjóni því tvíþætta markmiði að ungbarn njóti jafnra samvista við foreldra sína og jafni stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Réttur til launa í fæðingarorlofi er einstaklingsbundinn og hans verður aðeins aflað með þátttöku á vinnumarkaði en sérstaklega þarf að huga að réttindum þeirra sem eru í skertu starfshlutfalli eða utan vinnumarkaðar, svo sem námsmanna eða fólks á endurhæfingarlífeyri. Forgangsmál er að tryggja börnum aðgang að dagvistun eða leikskólaplássi þegar fæðingarorlofi lýkur, óháð fæðingardegi barns, búsetu fjölskyldunnar og efnahag.
Gera þarf íslenskan vinnumarkað fjölskylduvænan og gæta þess að jafnvægi sé milli atvinnu og einkalífs, óháð fjölskylduaðstæðum. Mikilvægt er að vinnutími í launuðu starfi sé hóflegur og að fólki sé gert kleift að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku með sveigjanleika í starfi.
Vakin hefur verið athygli á að hugræn byrði* á heimilum hefur mikil áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, meðal annars á atvinnuþátttöku og starfsval. Sameiginleg ábyrgð á verkaskiptingu og verkefnastjórnun á heimilum eru því mikilvægir þættir í baráttu fyrir jafnrétti.
Á undanförnum árum hefur starfsumhverfi háskólamenntaðra breyst mikið vegna tækniframfara og þar með geta skilin milli vinnu og einkalífs orðið óskýr. Rannsaka þarf áhrif fjarvinnu og sítengingar á vinnutíma, álag í starfi, stöðu kynjanna og gæði fjölskyldulífs. Niðurstöður verði nýttar við opinbera stefnumótun og við gerð kjarasamninga.
*Hugræn byrði (e. mental load) er skilgreind sem ólaunuð ábyrgð, verkstýring og umsjón á heimilis- og fjölskylduhaldi. Einnig kölluð þriðja vaktin (e. the third shift).
Launa- og kjaramál
Kaup og kjör háskólamenntaðra skulu endurspegla menntun þeirra, símenntun, fagþekkingu og hagrænt virði fyrir samfélagið. Nauðsynlegt er að koma til móts við þann tíma og tekjutap sem óhjákvæmilega hlýst af háskólamenntuninni. Launasetning skal ávallt byggja á málefnalegum grunni og jafnrétti.
Starfsaðstæður og starfsumhverfi háskólamenntaðra þarf að vera með þeim hætti að nauðsynleg nýliðun starfsstétta sé tryggð og unnt sé að laða menntað fólk til starfa á öllum sviðum atvinnulífsins. Að sama skapi er mikilvægt að búa starfsfólki þannig vinnuumhverfi að verkefnin rúmist innan skilgreinds vinnutíma.
BHM leggur mikla áherslu á að endurskoða lög frá 1971 um 40 stunda vinnuviku. Vinnuvikan verði 35 virkar stundir fyrir dagvinnufólk og 32 virkar stundir fyrir vaktavinnufólk. Tryggt verði að stytting vinnuvikunnar nái til allra starfsstétta.
Rýmka þarf rétt til launa í veikindum. Rétturinn þarf að ná til veikinda maka, barna að 18 ára aldri og annarra nákominna. Einnig þarf að tryggja rétt til fjarveru á launum vegna andláts barns, maka eða annarra nákominna.
Árangursríkt samstarf við stjórnvöld og aðra hagstjórnaraðila skiptir miklu fyrir stefnumótun í kjara- og réttindamálum að mati BHM. Styrkja þarf samhæfingu og samráð hagstjórnaraðila og aðila vinnumarkaðar á vettvangi Þjóðhagsráðs. Markmiðið á að vera stöðugra efnahagsástand og sjálfbær aukning kaupmáttar. Byggja þarf á langtímastefnu sem mörkuð er í sátt og samráði við alla aðila vinnumarkaðarins.
Stjórnvöld verða að sjá til þess að á hverjum tíma liggi fyrir heildstæð launatölfræði og hagtölur um íslenskan vinnumarkað. Hefja ætti heildartalningu launaupplýsinga frá launagreiðendum hið fyrsta líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Efla þarf kjaratölfræðinefnd með það markmið í huga. Skilvirk og vönduð tölfræðisöfnun er enda ein meginforsenda þess að hægt sé að byggja upp heildstætt samningalíkan í breiðri sátt allra aðila vinnumarkaðar.
Lífeyrismál
Öflugt lífeyriskerfi er einn af hornsteinum íslensks velferðarsamfélags. BHM telur mikilvægt að afkomuöryggi þeirra sem eldri eru og þeirra sem verða fyrir tekjumissi vegna örorku eða miska sé að fullu tryggt með sjálfbæru, þriggja stoða lífeyriskerfi.
Breytingar á lífeyriskerfi landsmanna, hvort heldur sem um er að ræða hækkun á lífeyristökualdri, jafnvægi milli sameignar og séreignar eða samræmingu réttinda milli markaða skulu unnar í samstarfi við alla aðila vinnumarkaðar. Ákvarðanir um kerfisbreytingar sem hafa áhrif á réttindi og framtíðarafkomu lífeyrisþega skulu gerðar í breiðri sátt með stöðugleika og fyrirsjáanleika að leiðarljósi.
Ríki og sveitarfélög skulu standa við markmið lífeyrissamkomulags frá 2016 um að lífeyrisréttindi skerðist ekki við samræmingu milli almenns og opinbers vinnumarkaðar. Standa þarf jafnframt við samkomulag um jöfnun launa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar eigi síðar en 2026. Endurskoða þarf örorkubyrði lífeyrissjóða og draga úr tekjutengingu milli greiðslna úr lífeyris- og almannatryggingakerfinu.
BHM telur séreignarþátt lífeyriskerfisins mikilvæga stoð sem skapi valfrelsi og sveigjanleika við töku lífeyris. Opinberir starfsmenn skulu hafa sömu möguleika til ráðstöfunar séreignar og tíðkast á almennum markaði og leita þarf leiða til að minnka flækjustig við ráðstöfun séreignar. Auka þarf upplýsingagjöf til félagsmanna um áhrif kerfisbreytinga og mismunandi samsetningar lífeyrissparnaðar á lífeyrisréttindi til framtíðar.
BHM telur að ávallt skuli leita leiða til hagræðingar í rekstri lífeyrissjóða þar sem því verður við komið. Gera þarf lífeyrissjóðum kleift að fjárfesta meira í erlendum eignum til að tryggja áhættudreifingu til framtíðar.
Menning og skapandi greinar
BHM styður grunngildi menningar, lista og skapandi greina; sjálfstæða hugsun, sköpunargleði og frelsi til að njóta þess sem menning hefur upp á að bjóða. Menning er hornsteinn sjálfsmyndar þjóðar og auðveldar okkur skilning, samkennd og víðsýni. Aðgengi allra að listum og menningu stuðlar að samfélagslegum jöfnuði. Huga þarf sérstaklega að barnamenningu og fjölmenningu.
Forgangsatriði er að styrkja stöðu íslenskrar tungu eigi hún að lifa af í alþjóðlegu umhverfi. Því er brýnt að tryggja menntun á sviði frumsköpunar og þýðinga og hlúa að starfsumhverfi þeirra sem vinna að framsetningu menningarefnis.
Fjölbreyttar atvinnugreinar menningar gegna vaxandi hlutverki í atvinnulífi þjóðarinnar og skapa töluverð bein og afleidd verðmæti. Verðmætasköpun byggð á hugviti og nýsköpun á breiðum grunni er forsenda framfara og árangurs til framtíðar.
BHM tekur þátt í að móta stefnu stjórnvalda á sviði menningar, lista og skapandi greina í samstarfi við fagfélög atvinnugreina menningar. Vönduð greining á hagrænum þáttum er grunnforsenda þess að auka skilning á hagrænu mikilvægi greinanna.
Öflug og víðtæk stuðningskerfi fyrir listamenn skipta miklu. Einfalda þarf styrkja- og stuðningskerfin og efla starfslaunasjóð listamanna. Sterk höfundaréttarlöggjöf er grunnforsenda þess að listsköpun og framleiðsla á menningarefni dafni á Íslandi.
Tryggja þarf listamönnum og öðrum höfundum menningarefnis betri vernd í kjarasamningum og auka réttindi þeirra sem búa við flókið starfsumhverfi og óreglulega tekjuöflun. Skoða þarf kosti þess að innleiða atvinnuskapandi launatryggingakerfi fyrir listamenn að norrænni fyrirmynd. Gera þarf úttekt á kjarasamningsumhverfi listamanna á Íslandi í samanburði við aðrar starfsstéttir.
Menntamál og háskólamenntun
Menntun og þekking er grundvöllur samfélagslegra framfara og velferðar. Mikilvægt er að meta menntun til launa, skapa jöfn tækifæri og standa vörð um frelsi fólks til að stunda fjölbreytt háskólanám, heima og erlendis. Tryggja þarf gæði og framþróun háskólamenntunar í samræmi við alþjóðleg viðmið.
BHM telur nauðsynlegt að stjórnvöld móti langtímastefnu í málefnum háskólastigsins með virkri þátttöku bandalagsins. Aukið fjármagn til háskóla, rannsókna og nýsköpunar er lykill að því að atvinnulífið þróist og störfum fjölgi. Framlög til þessara málaflokka eiga að vera sambærileg við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er unnt að bregðast við nýjum aðstæðum og breyttum atvinnuháttum.
Mikilvægt er að standa vörð um sterk tengsl háskólamenntunar og atvinnulífs. Háskólasamfélagið, stjórnvöld og samtök launafólks þurfa að taka höndum saman um að tryggja námsframboð sem taki mið af örum samfélagsbreytingum, svo sem vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Auðvelda þarf háskólamenntuðu fólki að auka við fagþekkingu sína með markvissri sí- og endurmenntun. Brýnt er tryggja fólki aðgang að háskólamenntun óháð aðstæðum, m.a. með sveigjanlegum kennsluháttum.
Efla þarf fjárhagslegan stuðning hins opinbera við háskólanema. Bandalagið styður kerfi sem byggir á blöndu af námsstyrkjum, lánum og hvötum svo fremi sem jafnrétti til náms og námsvals verði tryggt. Auka þarf sveigjanleika við endurgreiðslu námslána og að komið sé til móts við þarfir einstaklinga sem takast á við fjárhagslega erfiðar aðstæður. BHM hvetur til að öll námslán falli niður þegar lánþegi fer á eftirlaun eða hefur greitt af láni í 40 ár.
BHM styður hagsmunabaráttu háskólanema og vill eiga gott samstarf við Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) sem og önnur hagsmunasamtök háskólanema. Mikilvægt er að gjaldtaka í háskólum hindri ekki jafnt aðgengi ólíkra samfélagshópa að háskólamenntun.
BHM fagnar fjölbreytni og telur mikilvægt að háskólamenntun og réttindi sem fengin eru erlendis séu metin á íslenskum vinnumarkaði.
Skattamál
Íslenska skattkerfið þarf að vera sjálfbært til framtíðar og afla nægilegra tekna fyrir samneyslu og nauðsynlega grunnþjónustu. Skattkerfið skal vera réttlátt, einfalt, skilvirkt og gagnsætt og skapa rétta hvata fyrir fólk og fyrirtæki. Bandalagið er mótfallið því að sjálfbærni í opinberum fjármálum verði náð framvegis með hækkun skatta á launafólk heldur verði hún tryggð með öðrum hætti, til dæmis með auknum sköttum á fjármagn og eignir. Horfa beri til áskorana hvað varðar vaxandi eignaójöfnuð.
BHM telur brýnt að stjórnvöld efni loforð sín um heildarendurskoðun og eflingu barnabótakerfisins svo kerfið styðji við velferð allra barna og foreldra óháð hjúskaparstöðu og lögheimili. Hækka þarf tekjuviðmið vaxta- og barnabóta þannig slíkar bætur nýtist millitekjuhópum betur og setja þarf langtímaviðmið um þróun barnabóta með hliðsjón af launa- og verðlagsþróun. Afnema þarf aldurstengdar skerðingar í barnabótakerfinu.
Taka þarf tillit til námslánaskulda við útreikning vaxta- og barnabóta auk þess að gera afborganir námslána frádráttarbærar frá skatti.
Stjórnvöld eru hvött til að endurskoða skattalegt umhverfi sjálfstætt starfandi einstaklinga og réttindi þeirra á vinnumarkaði. Greiða þarf fyrir nýsköpun og styðja þannig við þá á fyrstu árum reksturs. Endurskoða þarf viðmiðunarfjárhæðir reiknaðs endurgjalds en þær gefa ranga mynd af starfshlutfalli þeirra sem eru sjálfstætt starfandi.
BHM skorar á stjórnvöld að styrkja tekjuöflunargetu sveitarfélaga á breiðum grunni með hliðsjón af aukinni þjónustuþyngd og samfélagslegu virði þeirrar grunnþjónustu sem sveitarfélögin veita á landsvísu.
Þess er krafist að stjórnvöld standi við fyrirheit sem gefið var árið 2009 um að styrkir úr sjóðum BHM verði undanþegnir sköttum.
Umhverfis- og loftslagsmál
Sjálfbær þróun er lykillinn að viðbragði við umhverfis- og loftslagsbreytingum. Sem samfélag þurfum við að geta svarað því hvernig við notum nýjungar og tæknilausnir á skilvirkan hátt til að mæta áskorunum.
BHM telur að stórefla þurfi rannsóknir og þróun á sviði sjálfbærni, ná fram breytingum á neyslumynstri og lífsháttum ásamt að endurbæta framleiðsluferla.
BHM beinir því til fyrirtækja og stofnana að hvetja starfsmenn og viðskiptavini til notkunar vistvænni samgöngumáta. Til þess þarf að skapa viðeigandi aðstöðu og ganga fram með góðu fordæmi.
BHM leggur áherslu á að loftslagsþol* og verndun líffræðilegrar fjölbreytni þurfi að taka til greina við alla ákvarðanatöku og þar bera allir ábyrgð; stjórnvöld, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar. Mikil ábyrgð hvílir á stjórnvöldum að skapa öflugan grundvöll rannsókna, fræðslu og frekari framþróunar til að bregðast við og draga úr umhverfis- og loftslagsbreytingum.
Viðbrögð við áskorunum í umhverfis- og loftslagsmálum hafa grundvallarbreytingar í för með sér á vinnumarkaði, til dæmis varðandi starfsframboð og hvernig þeim störfum er sinnt. Háskólafólk gegnir mikilvægu hlutverki við þessar breytingar og BHM þarf að vera þátttakandi í stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda sem snýr að þeim, meðal annars um réttlát umskipti. Enn fremur þarf bandalagið að eiga fulltrúa í loftslagsráði.
Háskólamenntun er nauðsynleg til að leiða okkur inn í nýja framtíð þar sem brugðist er við áskorunum í umhverfis- og loftslagsmálum. BHM mun nú sem fyrr standa vörð um virði menntunar og rannsókna og leggja þannig lóð á vogarskálarnar í baráttunni.
*Loftslagsþol er hugtak sem nær utan um aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga með það að leiðarljósi að lágmarka tjón vegna afleiðinga þeirra.
Velferðarmál
Forsendur velferðar eru öflugir innviðir sem fela í sér jöfn tækifæri og aðgengi fyrir öll að menntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu og réttarvörslu óháð kyni, uppruna, efnahag og stöðu. Hið opinbera skal bera ábyrgð á fjármögnun og rekstri velferðarþjónustu til að tryggja öryggi borgaranna og sem best aðgengi að þjónustunni. Mikilvægt er að fólk fái tímanlega þjónustu í samræmi við þarfir sínar. Stefnubreytingar er þörf innan velferðarkerfisins til að verjast löngum biðlistum. Til þess að svo megi verða verður að tryggja faglega umgjörð þjónustunnar, starfsumhverfi og launakjör fagstéttanna.
Menntun og atvinnuþátttaka leggur grunn að velferð og lífsgæðum. Tryggja þarf að öll hafi möguleika til náms og starfs við hæfi og út frá styrkleikum hvers og eins. Mikilvægt er að þau sem glíma við færniskerðingu njóti endurhæfingar og stuðnings með það að markmiði að bæta heilsu og líðan og auka þátttöku í samfélaginu.
Stoðir samfélagsins þurfa að grundvallast á sjálfbærni. BHM vill auka þátt rannsókna, þróunar og nýsköpunar í velferðarsamfélagi og þar gegna háskólamenntuð lykilhlutverki.
Þróa þarf leiðir til að auka gæði og skilvirkni í almannaþjónustu til hagsbóta fyrir einstaklinga og samfélag. Með velferðartækni má til dæmis auka heilsulæsi og aðgengi fólks að upplýsingum og þjónustu. Gæta þarf að því að tæknilausnir séu aðgengilegar og komi ekki í staðinn fyrir mannleg samskipti. Félagsleg tengsl eru lykilþáttur þess að viðhalda góðri heilsu og vellíðan.
BHM gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar velferð háskólamenntaðra og fjölskyldna þeirra, meðal annars með rekstri sjóða sem styðja við forvarnir og endurhæfingu auk þess að auðvelda sjóðfélögum að njóta orlofs. Sí- og endurmenntunarsjóðir veita háskólamenntuðum tækifæri til að þróa fagþekkingu og efla stöðu sína á vinnumarkaði.
Innan BHM starfa sérfræðingar á fjölmörgum sviðum heilbrigðis og velferðar. Bandalagið leggur áherslu á að vera stjórnvöldum til ráðgjafar á sviði velferðarmála.
Vinnuverndarmál
Atvinnurekendur verða að hlúa vel að þeim mannauði sem býr í starfsfólki með því að tryggja öfluga vinnuvernd og öruggar starfsaðstæður. Slíkt stuðlar að góðri heilsu og vellíðan, öllum til hagsbóta. Það dregur úr líkum á að starfsmaður þurfi að minnka atvinnuþátttöku vegna vinnutengdra aðstæðna með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir viðkomandi og samfélagið.
BHM leggur áherslu á mikilvægi forvarna í vinnuvernd og öruggra starfsaðstæðna þar sem sýnt hefur verið fram á að slíkt sé hagkvæmt til langs tíma. Stjórnvöld þurfa að fjölga úrræðum sem minnka líkur á skertri starfsgetu og efla snemmtæka íhlutun.
BHM hvetur stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins til að beita sér fyrir að gerðar séu reglulegar rannsóknir á sviði vinnuverndar, til dæmis varðandi álags- og umhverfisþætti er leitt geta til skertrar starfsgetu.
Mikilvægt er að þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólks séu í takt við færni þess og styrkleika. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að tryggja gott aðgengi að sí- og endurmenntun. Það skilar sér einnig í aukinni starfsánægju og jákvæðri starfsþróun.
Stjórnvöld þurfa að tryggja fjármagn til eftirlitsaðila svo þeir geti sinnt betur lögbundnu hlutverki sínu. Þau þurfa að sjá til þess að allir vinnustaðir séu með uppfært áhættumat og viðbragðsáætlanir sem taka jafnt til andlegra, líkamlegra og félagslegra þátta.
BHM fordæmir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Vinnustaðir eiga að vera með skýra verkferla þegar kemur að slíkum málum. Óboðleg hegðun á ekki að líðast.
BHM leggur til að farið verði í heildstæða endurskoðun á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum svo tryggt sé að þau endurspegli vinnuumhverfið hverju sinni.