Vakta­vinna

Vaktavinna

Í flestum kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir 2019-2020 er samkomulag um breytingar á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu. Breytingarnar tóku gildi 1. maí 2021. Mat á framgangi breytinga verður gert við lok samningstímans sem er 31. mars 2023.

Samkomulagið felur í sér að vinnuvika vaktavinnufólks styttist úr 40 stundum í 36 virkar stundir, fyrir fullt starf. Frekari stytting í allt að 32 stundir er möguleg og grundvallast á vægi vinnustunda. Launamyndun vaktavinnufólks breytist og tekur meira mið af vaktabyrði en áður.

Meginmarkmið breytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta vinnu og einkalíf, þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari. Breytingunum er einnig ætlað auka stöðugleika í mönnun hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og vinnustöðum Reykjavíkurborgar, að draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning.

Vaktaálagsflokkum fjölgar og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölda og fjölbreytileika vakta. Stór hluti vaktavinnufólks vinnur hlutastarf og eru breytingarnar til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall. Hefur það í för með sér hærri laun og ævitekjur.

Vaktaálag er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma með eftirfarandi hætti:

· 33,33% kl. 17:00 – 24:00 mánudaga til fimmtudaga

· 55,00% kl. 17:00 – 24:00 föstudaga

· 65,00% kl. 00:00 – 08:00 þriðjudaga til föstudaga

· 55,00% kl. 08:00 – 24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga

· 75,00% kl. 00:00 – 08:00 laugardaga, sunnudaga, mánudaga og sérstaka frídaga

· 90,00% kl. 00:00 – 24:00 stórhátíðardaga, þó þannig að á frá kl. 16:00 til 24:00 á aðfangadag og gamlársdag og kl. 00:00 til 08:00 á jóladag og nýársdag er 120% álag.

Brot úr klukkustund greiðist hlutfallslega.

Nánari upplysingar um breytingar á vaktavinnu eru á betrivinnutími.is

Stýrihópur skipaður fulltrúum samningsaðila ber ábyrgð á innleiðingu og eftirfylgni samkomulags um útfærslu vinnutíma vaktavinnufólks.

Við skipulag vaktavinnu og gerð vaktskrár er mikilvægt að hafa í huga meginreglur hvíldartímalöggjafar um 11 tíma hvíld á sólarhring, vikulegan frídag og 48 klst. hámarksvinnuskyldu á viku. Æskilegt er að vaktir séu skipulagðar réttsælis eftir sólarhringnum og líkamsklukkunni, þannig að fyrst komi morgunvakt, svo kvöldvakt, svo næturvakt og svo hvíld.

Í leiðbeiningum stýrihóps um vaktavinnu er lögð áhersla á að framangreind hvíldartímaákvæði séu höfð í huga við ákvörðun um lengd vakta.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur einnig birt kynningarefni á vef sínum sem helgað er breytingum á vaktavinnu.

Bakvaktir

Til viðbótar venjulegum vinnutíma geta komið bakvaktir sem ákveðnar eru af yfirmanni.  Með bakvakt er átt við að starfsmaður sé ekki við störf en er reiðubúinn að sinna útkalli. Það telst ekki bakvakt ef starfsmaður dvelst á vinnustað að beiðni yfirmanns.

Bakvaktagreiðsla eða bakvaktarálag er vaktaálag sem reiknast sem hlutfall af dagvinnukaupi. Hlutfallið er mismunandi eftir tíma sólahrings og hvaða vikudag er um að ræða. Nánari ákvæði um það efni eru í þeim kjarasamningi sem hlutaðeigandi starfsmaður vinnur eftir.

Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM við hið opinbera eru ákvæði um frí fyrir reglubundna bakvakt, sem skipulögð er allt árið. Frí þetta svarar 1 klst. fyrir hverja 15 klst. á bakvakt en getur að hámarki orðið 80 stundir. Taka bakvaktarfrís fer fram árið eftir ávinnsluna og er oftast miðað við almanaksárið, 1. janúar til 31. desember ár hvert. Þess eru líka dæmi að notað sé orlofsárið, þ.e. 1. maí til 30. apríl. Leyfið má veita hvenær árs sem er, en ekki er heimilt að flytja það á milli ára.

Í kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði er að finna heimildarákæði um annað fyrirkomulag greiðslna fyrir bakvaktir. Þá er t.d. heimilt að semja um ákveðin fjölda klukkustunda fyrir bakvaktir án tillits til tímalengdar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt