Svigrúm til launahækkana og jafnréttissamningarnir

Friðrik Jónsson, formaður BHM, skrifar í Vísbendingu um svigrúm og staðreyndir.

Á árunum eftir hrunið náði svokallað launahlutfall (hlutdeild launa og tengdra gjalda af vergum þáttatekjum) sögulegu lágmarki. Um helmingur verðmætasköpunar (51%) rann þá til launafólks. Það er lægsta launahlutfall sem mælst hefur eða 10% undir meðaltali áranna 1981-2021. Samhliða dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann saman um fjórðung milli og raungengi á mælikvarða launa lækkaði um nær 50%. Vart þarf að fjölyrða um þá lífsgæðaskerðingu sem þessar hremmingar höfðu í för með sér fyrir almenning.

Fyrir tilstilli þessa og fleiri þátta tókst smám saman að rétta af samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuvega innan girðingar gjaldeyrishafta. Afleiðingarnar birtust m.a. í auknum ójöfnuði og tilfærslu auðs og tekna frá launafólki og smærri fyrirtækjum til útflutningsfyrirtækja. Átti þetta, ásamt öðru, eftir að leggja grunninn að þeirri ólgu sem einkenndi verkalýðsbaráttuna á áratugnum 2010-2019.

Nú þegar kjarasamningar eru á næsta leiti sér enn ekki fyrir endann á þessari ólgu. Blásið hefur verið í herlúðra og kunnuglegir frasar heyrast um átakavetur, svigrúm og ábyrgð. Fulltrúar launagreiðenda segja ekkert svigrúm vera til launahækkana og að kröfur launafólks beri vott um ábyrgðarleysi. En hvaða svigrúm er raunverulega til staðar? Er það rétt að launafólk sé óábyrgt?

Trúverðugleiki „svigrúmsins“

Á vordögum 2010, á botni efnahagslægðarinnar, sagði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra ekkert svigrúm vera til launahækkana næsta árið hið minnsta og félagsmálaráðherra taldi ráðlegt að frysta launahækkanir á opinbera markaðnum til 2013. Að teknu tilliti til óvissunnar í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, hagvaxtarhorfa, skuldastöðu ríkissjóðs og stöðu fyrirtækja innan krónuhagkerfisins á þeim tíma er þessi afstaða að mörgu leyti skiljanleg. Annað gildir um afstöðuna síðar á áratugnum.

Þegar rætt er um efnahagslegt svigrúm í skilningi atvinnulífsins er nærtækast að líta eingöngu til hagvaxtar og launahlutfalls á almenna markaðnum. Á tíma ferðamannauppsveiflunnar 2010-2019 var hagvöxtur á almennum markaði alls 44% og mestur um 8% á árinu 2016. Þrátt fyrir þennan mikla hagvöxt í sögulegu tilliti sögðu ráðamenn og forsvarsmenn atvinnulífsins nær undantekningarlaust ekki vera svigrúm til launahækkana. Ekkert, lítið eða nánast ekki neitt. Það voru forskeytin sem fylgdu orðinu svigrúm í málflutningi þeirra í fjölmiðlum um launahækkanir nær allt tímabilið, óháð hagvexti eða hagvaxtarhorfum. Það er áhugavert að ráðamenn endurómuðu sjónarmið atvinnulífsins í nær öllum tilvikum. Er það síst til þess fallið að skapa traust milli verkalýðshreyfingarinnar og viðsemjenda.

Hefðu ráðamenn fremur kosið meiri ójöfnuð eftir á að hyggja?

Árið 2010 var launahlutfall á almenna markaðnum um 47% en hækkaði í 56% fram til ársins 2019. Launakostnaður á föstu verðlagi hækkaði um 59% á tímabilinu eða um 15% umfram hagvöxt. Kaupmáttur jókst og laun hækkuðu umfram framleiðnivöxt. Það er mikil mildi. Ef laun hefðu aðeins hækkað sem nemur hagvexti hefði sögulega lágt launahlutfall haldist stöðugt og lítið verið unnið á ójöfnuði sem skapaðist eftir hrunið. Af orðum ráðamanna að dæma virðist það hafa verið óskastaða og í raun hefði launahlutfallið lækkað ef tekið hefði verið undir þeirra sjónarmið um lítið svigrúm og ójöfnuður aukist með tilheyrandi áhrifum á félagslegt réttlæti. Við getum varla ætlað ráðamönnum slíkan óheiðarleika. Líklegt er að takmarkaður skilningur hafi oft ríkt á samhengi efnahagsstærða og þá er óvissa um efnahagsframvindu á hverjum tíma. Eða hvað? Töldu þau litlar launahækkanir í samanburði við hagvöxt ákjósanlega stöðu?

Einfaldanir í nýrri skýrslu

Í nýútgefinni hagrannsókn dr. Ásgeirs Daníelssonar er leitast við að skýra áhrifaþætti verðbólgu m.a. fylgni hennar við launahækkanir og breytingu í innflutningsverðlagi á tímabilinu 2003-17. Ekki reyndust sterk tengsl milli launahækkana og verðbólgu á tímabilinu en áhrif innflutningsverðlags voru metin öllu meiri. Tekið er hins vegar fram að innflutningsverðlag og launakostnaður eru háðar stærðir yfir lengri tíma. Þegar hagfræðingar, ráðamenn eða atvinnurekendur eru beðnir um að skýra af hverju verðbólga á Íslandi er meiri og þrálátari en í öðrum löndum eru svörin hins vegar

iðulega á eina leið: „of miklar launahækkanir“. Í nýútgefinni skýrslu dr. Katrínar Ólafsdóttur er þetta sjónarmið endurómað. Samanburður er dreginn upp af kaupmáttaraukningu á Norðurlöndum á tímabilinu 2012-2021 (2-10% utan Íslands en 57% á Íslandi) og sagt eðlilegt að verðlag hafi hækkað meira á Íslandi en á hinum Norðurlöndum í því ljósi. Skýrslan var harðlega gagnrýnd af meðlimum Þjóðhagsráðs enda skýrast launahækkanir tímabilsins að miklu leyti af launaleiðréttingu eftir hrunið og kröftugum hagvexti í samanburði við Norðurlöndin. Hagvöxtur var 28% á tímabilinu á Íslandi samanborið við 9% í Finnlandi og 14% í Noregi svo dæmi séu tekin. Launahlutfallið á árinu 2012 var þá mjög lágt eins og áður hefur verið rakið og viðskiptakjarabati jók svigrúm hagkerfisins til launahækkana jafnframt til muna án þess að þær hefðu teljanleg áhrif á verðlag. Ekki er fjallað svo neinu nemur um eftirspurnardrifna verðbólgu í skýrslunni og einblínt er um of á meðaltalssvigrúm yfir allt hagkerfið en svigrúmið er afar mismunandi eftir atvinnugreinum gegnum hagsveifluna.

Misjafnt svigrúm til launahækkana

Á árinu 2021 var launahlutfallið á almenna markaðnum 4% lægra en það var fyrir gerð lífskjarasamningsins. Leiða má líkum að því að meðaltalsarðsemi á almenna markaðnum hafi verið meiri á því ári en fyrir gerð lífskjarasamninga og að framleiðni hafi hækkað meira en laun á tímabilinu, að meðaltali. En staðan var afar misjöfn eftir greinum árið 2021. Launahlutfall í greinum ferðaþjónustu var 116% sem bendir til að verulega hafi gengið á eigið fé greinarinnar í heimsfaraldri. Launahlutfall í framleiðslu málma, í sjávarútvegi og smásöluverslun var hins vegar 10% lægra á árinu 2021 en það var 2018. Framleiðni hefur því hækkað nokkuð umfram laun í þeim atvinnugreinum og svigrúm til launahækkana töluvert. Óvíst er hvernig almenna markaðnum reiðir af á þessu ári og hvar hann stendur gagnvart komandi kjarasamningum. Ýmislegt bendir til að launahlutfallið verði enn lægra í mörgum greinum almenna markaðsins á árinu 2022 en 2021. Á tímabilinu jan-apríl 2022 var velta í sjávarútvegi t.a.m. um 10% meiri en árinu áður og veltan í framleiðslu málma um 50% meiri, á verðlagi 2022. Áhrif Úkraínustríðsins eru líkleg til að skila sjávarútvegnum og áliðnaðinum sögulega góðri afkomu sem birtast mun að fullum krafti í sumar og haust. Á fiskmarkaðnum í Grimsby í Bretlandi var meðalkílóverð þorsks t.a.m. tæplega 1.200 krónur í byrjun ágúst 2022 en meðalverðið hefur verið um 500 krónur á þessum árstíma síðustu ár. Ljóst er að sumar atvinnugreinar hafa nokkra getu til að bera launahækkanir í komandi kjarasamningum án þess að velta þeim út í verðlag. Aðra sögu er að segja af litlum og meðalstórum fyrirtækjum í þeim atvinnugreinum sem enn eru að byggja upp þrótt eftir heimsfaraldur.

Jafnréttissamningarnir

Á sama tíma og nokkurt svigrúm er til launahækkana í mörgum atvinnugreinum ríkir töluverð óvissa um efnahagsþróun á heimsvísu. Það setur hagkerfinu mörk í launahækkunum til skamms- og meðallangs tíma. Það er gömul saga og ný á Íslandi en aðilar vinnumarkaðar þurfa þó að hafa það í huga við gerð kjarasamninga.

Ólíklegt er að varanleg sátt náist á vinnumarkaði fyrr en sátt næst um gjaldtöku af auðlindum. Mun það taka áratugi nema áherslubreyting verði á vettvangi stjórnmálanna en þangað til þarf að leitast við að skapa tímabundna sátt. Þeir kjarasamningar sem nú fara í hönd snúast um jafnrétti og jafnvægi. Rétta verður af hallann í skattlagningu fjármagns í samanburði við laun og skattleggja ofurhagnað. Lækka mætti tryggingagjald á lítil- og meðalstór fyrirtæki á sama tíma og skattur á auðlindir er aukinn. Forstjórar landsins gætu skuldbundið sig til þess að setja launahækkunum sínum mörk á kjarasamningstímabilinu. Stjórnvöld verða að koma með raunhæfa lausn fyrir fólk í vanda á húsnæðismarkaði. Móta þarf sýn og stefnu um leiðréttingu launa hjá kvenlægum stéttum hins opinbera til lengri tíma og standa þarf við gefin loforð tengd endurskipulagningu lífeyriskerfisins um jöfnun launa milli markaða. Það myndi hafa mjög jákvæð áhrif á virði kvennastarfa líkt og ríkisstjórnin segist leggja sérstaka áherslu á. Þá gæti verkalýðshreyfingin ef til vill íhugað hófstillta samninga sem samfélagssátt er um. Hægt væri t.a.m. að semja um launahækkanir sem miðast við langtímaleitni hagvaxtar að viðbættu verðbólgumarkmiði en einnig yrði tekið mið af mismunandi stöðu atvinnugreina. Hagvaxtarauki væri í öllum samningum. Með slíkri nálgun tækist að ná fram auknu jafnrétti og sanngirni og tímabundinni sátt hið minnsta.

Jafnréttissamningarnir – er eftir nokkru að bíða?

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu 19. ágúst 2022.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt