Fullvinnandi sérfræðingar verulega undirverðlagðir hjá sveitarfélögum
Á árinu 2020 voru regluleg heildarlaun fullvinnandi sérfræðinga* á almennum markaði 956 þús. kr. á mánaðargrundvelli samanborið við 824 þús. kr. hjá ríkinu og 620 þús. kr. meðal sveitarfélaga. Sé horft til reglulegra heildarlauna á greidda vinnustund** má sjá að 25% launamunur er milli almenns markaðar og ríkisins í sérfræðistörfum og 40% milli almenns markaðar og sveitarfélaganna. Sterk fylgni virðist vera milli lágs launastigs og hlutdeildar kvenna í störfum en samkvæmt úrtaksramma launarannsóknar Hagstofunnar eru 83% starfandi sérfræðinga hjá sveitarfélögum konur***. Margir þessara sérfræðinga eiga langt háskólanám að baki og sinna þjóðhagslega mikilvægum störfum á við þroskaþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og kennslu í grunnskólum, svo fátt eitt sé nefnt.