
Sumir hafa gengið svo langt að gefa í skyn að verðmætasköpun á sviði stjórnsýslu og almannatrygginga, heilbrigðisþjónustu og fræðslustarfsemi vera lítilvæga fyrir íslenska hagkerfið. Á sama tíma hefur umræðan annars staðar í Evrópu markast meira af þakklæti í garð opinberra starfmanna vegna þess fordæmalausa álags sem hefur verið í opinberum kerfum vegna baráttunnar við COVID-19.
Samantekt
- Umsvif hins opinbera hafa aukist í flestum löndum Evrópu vegna baráttunnar við COVID-19. Ísland var þar ekki undanskilið en hagvöxtur í opinberum greinum var 3% árið 2020.
- Aukin framleiðsluumsvif hjá hinu opinbera hér á landi, sem birtast m.a. í auknum fjölda vinnustunda, eru nauðsynlegt viðbragð til að tryggja velferð almennings á tímum heimsfaraldurs. Þannig voru unnar 3,5 milljónum fleiri vinnustundir í opinberum greinum árið 2020 en á árinu 2019 en mest var aukningin í umönnun á dvalarheimilum og í opinberri stjórnsýslu.
- Nær önnur hver kona á íslenskum vinnumarkaði vinnur hjá hinu opinbera meðan sambærilegt hlutfall hjá körlum er 16% Konur báru hitann og þungann af auknu álagi í opinberu kerfunum á árinu 2020 en konur eru 76% starfandi í heilbrigðis-og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi og 60% í opinberri stjórnsýslu.
- Meiri launahækkanir á opinberum markaði en á almennum á tímabilinu 2019–2021 eru jafnaðar- og jafnréttisaðgerð í takt við markmið Lífskjarasamningsins. Þetta sýna tölur Kjaratölfræðinefndar um þróun grunntímakaups í kjarasamningslotunni sem nú er að baki.
Hagvöxturinn í opinberum greinum var viðbragð við faraldri
Umsvif hins opinbera jukust í 19 af 34 löndum Evrópu á síðasta ári skv. samanburði Eurostat vegna vegna baráttunnar við COVID-19. Samdráttur í nokkrum löndum skýrðist aðallega af samdrætti í varnarmálum. Ísland var þar engin undantekning en helstu atvinnugreinar á opinberum markaði uxu um 3% meðan aðrar atvinnugreinar hagkerfisins drógust saman um 9% að meðaltali, aðallega vegna mikils samdráttar í ferðaþjónustu. Er hér horft til opinberrar stjórnsýslu og almannatrygginga, heilbrigðis- og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi.
Aukin umsvif hins opinbera má að mestu leyti rekja til fordæmalauss álags í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, stjórnsýslu og almannatryggingum og fræðslustarfsemi sem tengdist baráttunni við faraldurinn. Þannig bættust 3,5 milljónir vinnustunda við í opinberum greinum hér á landi á árinu 2020 frá árinu 2019, mest í umönnun á dvalarheimilum og opinberri stjórnsýslu. Þá þurftu fjölmargir starfsmenn hins opinbera að „hlaupa“ mun hraðar en áður og taka áhættu með eigin heilsu til að tryggja velferð almennings.
Aðeins 11 lönd í samanburði 45 landa OECD drógust meira saman að raunvirði milli áranna 2019 og 2020 en Ísland. Sé horft til þess vaxtar sem varð í opinberum greinum á síðasta ári og framlag opinberra greina til hagþróunar má ætla að samdrátturinn í íslenska hagkerfinu hefði verið 8-10% á síðasta ári hið minnsta ef ekki hefði verið fyrir efnd lífskjarasamningsins og þá aukningu í framleiðsluumsvifum sem fylgdi kófinu. Ísland hefði þar með raðað sér á topp „samdráttarlistans“ með Spáni og Argentínu ef hið opinbera hefði ekki verið tól sveiflujöfnunar á síðasta ári.
Konur í framlínu varna
Á síðasta ári lenti hið aukna álag í opinberu kerfunum að stærstum hluta á konum í nær öllum löndum Evrópu. Ísland er hér engin undantekning en nær önnur hver kona á íslenskum vinnumarkaði vinnur hjá hinu opinbera meðan sambærileg tala meðal karla er 16%. Konur eru jafnframt 76% þeirra sem starfa í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 76% í fræðslustarfsemi og 60% í opinberri stjórnsýslu og almannatryggingum. Konur búa jafnframt oft við meira vinnuálag heima fyrir en makar þeirra en ólaunuð vinna kvenna innan heimilisins var metin um helmingi meiri en karla í skýrslu velferðarráðuneytisins frá árinu 2015, eða um 14 klst. á viku.
Jafnaðar- og jafnréttisaðgerðin
Eitt meginmarkmið lífskjarasamningsins var að lægri laun hækkuðu meira en hin hærri. Endurspeglast þetta í hækkun grunntímakaups á tímabilinu mars 2019 til janúar 2021 en á því tímabili hækkaði grunntímakaup hjá BHM um 15-22% á opinberum markaði en 13-14% á almennum markaði þar sem laun voru hærri. Var grunnlaunamunur fullvinnandi háskólamenntaðra sérfræðinga milli almenns markaðar og opinbers markaðar enda um 33% á árinu 2019. Nokkur árangur náðist í að leiðrétta kynbundinn launamun. Launaþróun hjá öðrum heildarsamtökum segja sömu sögu eins og sést á myndum að neðan.