Stöðugleiki og kaupmáttur efst í huga launafólks

Könnun BHM á þekkingu og viðhorfum til samtaka á vinnumarkaði

Ímynd heildarsamtaka launafólks er almennt jákvæðari en ímynd Samtaka atvinnulífsins en verkalýðshreyfingin mætti sýna meiri ábyrgð þegar kemur að umfjöllun um efnahagsmál og efnahagssamhengi. Efnahagslegur stöðugleiki og kaupmáttaraukning virðist efst í huga fólks þegar kemur að næstu kjarasamningum. Athygli vekur hversu mörg lýsa sig hlutlaus í afstöðu sinni gagnvart samtökum á vettvangi vinnumarkaðar.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar Maskínu sem unnin var fyrir BHM og lögð var fyrir Þjóðgátt Maskínu dagana 29. apríl til 5 maí. Um 1.700 manns, 18 ára og eldri, voru valdir með tilviljun úr Þjóðskrá og voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar svo hópurinn endurspegli þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

„Niðurstöður þessarar könnunar sýna að við þurfum öll að líta í eigin barm þegar kemur að undirbúningi fyrir næstu kjarasamninga. Við berum enda mikla ábyrgð gagnvart þjóðinni þegar kemur að varðveislu efnahagslegra lífsgæða á þessum umrótatímum. Stöðugt efnahagsumhverfi til framtíðar og kaupmáttaraukning er okkar stærsta verkefni,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM

Ímynd ASÍ, BSRB og BHM almennt jákvæðari en ímynd SA

Um 41-46% aðspurðra segjast jákvæðir gagnvart heildarsamtökum launafólks en aðeins um 7-12% sögðust vera neikvæðir í afstöðu sinni. Samtök atvinnulífsins eru öllu umdeildari samkvæmt könnuninni en 31% sögðust vera jákvæð gagnvart samtökunum í könnuninni en 27% lýstu sig neikvæð. Athygli vekur hversu mörg lýsa sig hlutlaus í afstöðu sinni gagnvart samtökum á vettvangi vinnumarkaðar. Er það ákveðið áhyggjuefni sé horft til samfélagslegs mikilvægis samtakanna.

Stöðugleiki ofar í huga fólks en launahækkanir

Aðeins um fjórðungur aðspurðra á vinnumarkaði telja verkalýðshreyfinguna sýna mikla ábyrgð í umfjöllun um efnahagsmál og efnahagssamhengi samanborið við um 34% sem telja hreyfinguna sýna litla ábyrgð. Um 40% lýsa sig hlutlaus gagnvart spurningunni.

Stöðugt efnahagsumhverfi virðist ofar í huga fólks en launahækkanir í næstu kjarasamningum en um 40% svarenda segja hreyfinguna eiga leggja mesta áherslu á stöðugt efnahagsumhverfi í næstu kjarasamningum. Aftur á móti segja 22-25 prósent launahækkanir meginmarkmiðið.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt