Jafn­rétti á vinnu­mark­aði

Óheimilt er að mismuna starfsfólki á grundvelli kynferðis, þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar og annarra þátta.

Stjórnarskrá Íslands kveður á um þá grundvallarreglu að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Á vinnumarkaði eru þessi grundvallarréttindi nánar útfærð í

Ákvæði EES-samningsins um bann við mismunun launafólks á grundvelli þjóðernis hafa jafnframt mikla þýðingu.

Innlend löggjöf um jafnrétti kynjanna byggir að töluverðu leyti á tilskipun 2006/54/EB um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna að því er varðar atvinnu og störf. Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði sækja efnivið sinn í tilskipun 2000/43/ESB um jafna meðferð án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og tilskipun 2000/78/EB um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi.

Opinberar stofnanir

Opinberar stofnanir gegna ákveðnu eftirlitshlutverki á vinnumarkaði, þ.m.t. Jafnréttisstofa, Vinnueftirlit ríkisins og Vinnumálastofnun.

Einnig er minnt á rétt einstaklinga og félagasamtaka til að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála vegna meintra brota á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Frjáls félagasamtök

Réttindabarátta frjálsra félagasamtaka hefur í gegnum tíðina verið aflvaki mikilla breytinga og oft skilað mestum árangri við að færa viðhorf fólks til betri vegar.

Barátta kvennahreyfinga; Rauðsokka, Kvennréttindafélags Íslands og Kvennalistans, hafa lyft grettistaki við að vekja athygli á misrétti í garð kvenna á öllum sviðum samfélagsins, þ.m.t. vinnumarkaði og í stjórnmálum.

Samtökin ´78 hafa um árabil staðið vörð um baráttumál hinsegin fólks. Upplýsingagjöf og ráðgjöf til almennings, fyrirtækja og launafólks er stór þáttur í starfsemi samtakanna. Á vefsíðunni otila.is má finna fræðslu um málefni hinsegin fólks, reynslusögur, skýringar á hugtökum o.m.fl.

Ekki má gleyma þeim fjölmörgu einstaklingum sem á eigin skini hafa mætt fordómum og mismunun vegna kynhneigðar eða annarra þátta en snúið vörn í sókn og rætt opinskátt um áföll og vegferð til betra lífs.

Mannréttindaskrifstofa Íslands vinnur að framgangi mannréttinda með því að stuðla að rannsóknum og fræðslu og efla umræðu um mannréttindi á Íslandi. Samkvæmt samningi við Velferðarráðuneytið sér skrifstofan um lögfræðiráðgjöf fyrir innflytjendur.

Öryrkjabandalagið berst fyrir bættum lífskjörum og útrýmingu fátæktar fatlaðs fólks. Mismunun og vanmat á getu fatlaðra einstaklinga til vinnu er og hefur verið vandamál sem vinna þarf bug á. Meðal baráttumála samtakanna er lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

BHM, BSRB og ASÍ

BHM, BSRB og ASÍ eru í samstarfi um greiningar á stöðu jafnréttis á íslenskum vinnumarkaði. Fyrsti liðurinn í því starfi var sameiginleg skýrsla sem unnin var í samstarfi við Samtökin ´78 um stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði sem kom út á haustdögum 2022.

Að mati samtakanna er mikilvægt að treysta þekkingargrundvöll í jafnréttismálefnum á Íslandi með áherslu á fjölbreytileika og stuðla þannig að umbótum í upplýsingagjöf og samfélagsumræðu. Þrátt fyrir lagasetningu og baráttu bæði femínísku hreyfingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar hefur kerfisbundið vanmat á störfum kvenna og kvennastétta tíðkast um áratugaskeið. Eru konur enn með 21,9% lægri atvinnutekjur en karlar að meðaltali.

Stéttarfélög hafa einnig látið sig málefni erlends launafólks miklu varða. Fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar hafa breytingar verið gerðar á löggjöf og eftirlit aukið á vinnustöðum, einkum í byggingariðnaði og veitingageiranum. Upplýsingar á erlendum tungumálum hafa einnig skilað árangri í baráttunni gegn launaþjófnaði og undirboðum.

BHM birtir á heimasíðu sinni upplýsingar á ensku um réttindi háskólafólks á vinnumarkaði.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt