Starfs­fólk sveit­ar­fé­laga

Meginreglur stjórnsýsluréttar gilda um undirbúning ráðningar og val á umsækjanda.

Við ráðningar í störf ber sveitarstjórn að fylgja stjórnsýslu­lögum og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Þar á meðal er sú óskráða regla, sem m.a. hefur mótast af úrlausnum dómstóla, að ráða beri þann hæfasta úr hópi umsækjenda miðað við þær kröfur sem gerðar eru í lögum, ef við á, auglýsingu og þau sjónarmið sem sá sem ræður í starfið ákveður að byggja á, sbr. álit umboðsmanns Alþingis (mál nr. 10135/2019).

Veiting starfs

Sveitarstjórn er almennt falið ákvörðunarvald um ráðningu starfsmanna sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. sveitarstjórnarlaga. Ef um ráðningu annarra starfsmanna en framkvæmdastjóra eða starfsmanna í æðstu stjórnunarstöður er að ræða getur sveitarstjórn mælt fyrir um slíkt í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins eða með almennum fyrirmælum; að öðrum kosti er það framkvæmdastjóra, í tilviki Reykjavíkurborgar borgar­stjóra, að ráða í önnur störf hjá sveitarfélaginu.

Í stærri sveitarfélögum leiðir af umfangi í starfsemi þeirra og skiptingu á stjórnunarlegri ábyrgð í daglegri starfsemi að sveitarstjórn kann að telja heppilegt að fela öðrum en framkvæmdastjóra að taka ákvarðanir um ráðningu tiltekinna starfsmann, sbr. álit umboðsmanns Alþingis (mál nr. 9561/2018).

Ótímabundin ráðning

Starfsmenn Reykjavíkurborgar skulu almennt ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Reynslutími er þrír mánuðir. Heimilt er þó í undantekningartilvikum að semja í ráðningarsamningi um allt að 5 mánaða reynslutíma. Um þetta er kveðið í samkomulagi Reykjavíkurborgar annars vegar og aðildarfélaga BSRB og BHM og Félags íslenskra leikskólakennara hins vegar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Hjá sveitarfélögum gildir almennt sama reglan um ótímabundnar ráðningar og hjá Reykjavikurborg.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt