Áherslu­mál BHM í að­drag­anda al­þing­is­kosn­inga 2024

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir og hverjar er áherslur í stjórnarsáttmála Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins?

BHM sendi spurningar til allra stjórnmálaflokka, sem bjóða fram á landsvísu, í aðdraganda alþingiskosninga 30. nóvember 2024. Svör bárust frá átta flokkum af tíu. Í framhaldi bauð bandalagið fulltrúum flokkanna til samtals þar sem áherslur BHM í málefnum háskólafólks voru rædd með hverjum og einum flokki.

Í vinstri hliðarstiku eru svör þeirra flokka sem fóru í ríkisstjórnarsamstarf eftir kosningar en hér að neðan má lesa hvernig áherslumál BHM birtast í stefnuyfirlýsingu Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Spurningar BHM og áherslupunktar úr stjórnarsáttmála

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Með atvinnustefnu sem stuðlar að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði. Ný ríkisstjórn hyggst taka fast á félagslegum undirboðum, m.a. með því að herða eftirlit með starfsmannaleigum, innleiða keðjuábyrgð í stærri verklegum framkvæmdum, efla heimildir til vinnustaðaeftirlits og lögfesta skýrari refsiákvæði vegna vinnumansals (liður 5).
  • Með því að vinna að fjölbreytni í atvinnulífi, sterku samkeppniseftirliti, öflugri neytendavernd og hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Ríkisstjórnin hyggst auka skilvirkni í samskiptum fyrirtækja og hins opinbera. Áfram verður stutt við vöxt hugverkaiðnaðar, nýsköpunar og tækni. Unnið verður að skýrri lagaumgjörð um gervigreind (liður 10).

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Með því að leggja áherslu á jafna stöðu og jöfn réttindi allra, standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu, m.a. með jafnréttis- og hinseginfræðslu. Áfram verður unnið að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa. Ríkisstjórnin einsetur sér að vinna gegn sundrung og tortryggni og byggja undir traust og samheldni í íslensku samfélagi (liður 16).

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Með fjárfestingu sem styrkir stoðir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu um land allt. Ríkisstjórnin mun leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, m.a. fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn. Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. Skipulega verður dregið úr skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu með hagnýtingu tækni og nýsköpunar. Áfram verður stuðst við fjölbreytt rekstrarform þó að þungamiðja þjónustunnar verði í opinberum rekstri (liður 14).
  • Með því að hefja sókn í menntamálum og bæta umhverfi nemenda og kennara. Lögð verður áhersla á íslenskukennslu, læsi og aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum. Styðja þarf skólakerfið til að mæta áskorunum, tryggja inngildingu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og snemmtæka íhlutun fyrir börn með fjölþættan vanda. Framhaldsskólar og háskólar fá stuðning til að efla menntun, nýsköpun og aðgengi um allt land, auk þess sem hugað verður sérstaklega að iðn- og verknámi, sí- og endurmenntun og raunfærnimati. Ríkisstjórnin hyggst móta ungmennastefnu og beita sér fyrir jöfnu aðgengi allra barna að íþróttum, listum og frístundastarfi. Skoðað verður hvort setja eigi samræmdar reglur um notkun snjalltækja og samfélagsmiðla í skólum (liður 15).

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Með því að ná stjórn á fjármálum ríkisins og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta, m.a. með stöðugleikareglu og stöðvun hallareksturs. Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar verður að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Á sama tíma hyggst ríkisstjórnin bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu (liður 1).
  • Með breytingum á fæðingarorlofskerfinu til að styrkja afkomuöryggi fjölskyldna. Tryggt verður að tekjulægri foreldrar haldi óskertum tekjum í fæðingarorlofi. Ríkisstjórnin mun hækka fæðingarstyrki námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar og bæta hag fjölburaforeldra og þeirra sem veikjast í kjölfar fæðingar eða á meðgöngu. Þróun barnabóta verður komið í fastar skorður svo að fjárhæðir fylgi launaþróun og stuðningur haldist stöðugur (liður 20).

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt