Áherslu­mál BHM í að­drag­anda al­þing­is­kosn­inga 2024

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir?

BHM sendi spurningar til allra stjórnmálaflokka, sem bjóða fram á landsvísu, í aðdraganda alþingiskosninga 30. nóvember 2024. Svör bárust frá átta flokkum af tíu. Í framhaldi bauð bandalagið fulltrúum flokkanna til samtals þar sem áherslur BHM í málefnum háskólafólks voru rædd með hverjum og einum flokki.

Hér að neðan eru innsend svör flokkanna átta samankomin, raðað í starfrófsröð eftir heiti flokks, en hér til hliðar má smella á nafn hvers flokks og lesa svör hans.

Flokkur fólksins

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Það er dapurt að launin séu það lág að við séum að missa úr landi sérmenntað fólk sem telur sig eiga betri möguleika annarsstaðar.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Flokkur fólksins berst gegn óréttlæti og launamunur kynjanna er ekkert annað en mismunun og það er algjörlega ólíðandi ef einstaklingar eru ekki að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Það á að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu. Við munum sannarlega berjast fyrir því að allir fái í rauninni sömu laun fyrir sömu vinnu.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Það sem þarf að gera er að tryggja betri vinnuaðstæður og laun sem endurspegla það vinnuálag sem nú ríkir – Þá er eina leiðin til að draga úr flótta menntafólks úr landinu að tryggja að hér sé hægt að kaupa húsnæði á viðráðanlegu verði og sanngjörnum föstum vöxtum til langs tíma.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Við erum fylgjandi því að endurskoða núverandi lánakerfi þar sem vextir námslána eru allt of háir – Við erum einnig fylgjandi því að endurskoða greiðslufyrirkomulag lána úr gamla kerfinu. Þá viljum við ekki að vinna námsmanna skerði framfærslulán til þeirra. Og við viljum afnema verðtryggingu námslána, eins og annarra neytendalána.

Framsókn

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Framsókn leggur áherslu á mikilvægi háskólamenntunar og telur að menntun eigi að vera metin til launa. Flokkurinn er meðvitaður um að kaupmáttaraukning háskólamenntaðra hefur verið takmörkuð og að það sé mikilvægt að finna leiðir til að bæta fjárhagslegan ávinning af menntun. Slíkar leiðir verður að móta í samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda því að árangur næst ekki nema með samvinnu þeirra sem koma að því. Til að styrkja stöðu háskólamenntaðra í atvinnulífinu, mætti meðal annars gera með því að hvetja til samninga um laun og kjör sem endurspegli betur menntun og sérfræðiþekkingu. Aðgengi að háskólamenntun þarf að vera gott bjóða fólki upp á sem fjölþættust tækifæri til að þroska hæfileika sína.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Framsókn telur að vinna þurfi stöðugt gegn launamun milli kynja og telur að allir eigi að fá jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Við viljum vinna að útrýma kynbundum launamun í íslensku samfélagi Ekki má gleyma því að talsverður árangur hefur náðst á síðustu árum þó enn vanti nokkuð upp á, sérstaklega í ákveðnum atvinnugreinum. Jafnlaunavottun er mikilvægt verkfæri til að ná fullu jafnrétti Að ljúka verkinu krefst líka samstarfs aðila vinnumarkaðarins, bæði á opinberum og almennum markaði við að styrkja framkvæmd jafnlaunareglna, auka fræðslu um jafnréttismál og hvetja fyrirtæki og stofnanir til að rýna þessi mál í eigin ranni.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Framsókn er meðvituð um skort á fagmenntuðu fólki í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu og telur mikilvægt að bregðast við þessari stöðu. Við leggjum meðal annars áherslu á eftirfarandi.
  • Aukið framboð á námsleiðum: Framsókn vill hvetja ungt fólk til að velja nám í greinum þar sem skortur er á fagfólki, með því að bjóða upp á styrki eða aðra hvata fyrir þá sem velja að stunda nám í þessum greinum.
  • Bætt starfsumhverfi: Við viljum vinna að því að draga úr vinnuálagi í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, til að auka starfsánægju og halda fagfólki í starfi. Þetta felur í sér að skoða hvernig hægt er að auka stuðning við starfsfólk og bæta aðstæður þeirra.
  • Samstarf við háskóla: Við viljum efla samstarf milli háskóla og atvinnulífs til að tryggja að námsframboð sé í sem bestum takti við þarfir samfélagsins og atvinnulífsins. Það hjálpar einnig nýútskrifuðum að komast inn á vinnumarkaðinn að námi loknu.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Framsókn hefur í gegnum tíðina komið að margvíslegum endurbótum á námslánakerfinu. Við erum þekkjum áhyggjur námsmanna og nýútskrifaðra varðandi greiðslubyrði námslána. Við teljum mikilvægt að halda því endurbótastarfi áfram. Kerfinu má til dæmis beita til að vinna að framgangi markmiða sbr. svar við spurningu 3.
  • Við viljum nefna í upphafi að það skiptir höfuðmáli fyrir ungt fólk og samfélagið allt að ná niður verðbólgu. Það er stærsta einstaka aðgerðir til að bæta lífskjör fólks, hjálpa því að komast í gegnum nám og koma sér upp húsnæði. Að því höfum við verið að vinna og munum gera áfram ef kjósendur veita okkur umboð til þess. Það skiptir gríðarlega miklu máli að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka til að létta byrðum af þeim sem eru að greiða af lánum. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta hefur ekki verið auðvelt undanfarin ár, en við erum á réttri leið og þurfum að halda áfram með verkefnið.
  • Frekari áherslur á þessu sviði eru m.a. þessar:
  1. Lækkun vaxta: Við viljum skoða möguleika á að lækka vexti á námslánum til að draga úr greiðslubyrði.
  2. Fleiri styrkir: Við viljum leita leiða til að auka framboð á námsstyrkjum, sérstaklega fyrir námsmenn í viðkvæmum aðstæðum, til að draga úr þörf fyrir lán.
  3. Sveigjanlegar greiðslur: Við viljum skoða möguleika á sveigjanlegri endurgreiðslum námslán, þar sem lántakar geti aðlagað greiðslur að tekjum sínum, sérstaklega í upphafi starfsferils. Jafnframt fjölþættari úrræði vegna greiðsluerfiðleika svo sem skilgreindum leiðum til frestunar á greiðslum eða afskrifta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Miðflokkurinn

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

Svar Miðflokksins kom ónúmerað svo ætla má að það eigi við allar spurningarnar fjórar:

  • Það hefur sýnt sig að háskólamenntaðar stéttir eru fyrst og fremst að semja við opinbera aðila, ríki og sveitarfélög. Það hlýtur að móta stöðu þeirra á launamarkaði öðru fremur. Freistandi gæti verið að benda á að ef háskólamenntað fólk hefði fleiri tækifæri til að semja við fjölbreyttari hóp viðsemjenda sem hefði skýran fjárhagslegan ábata af menntun og þekkingu viðsemjenda sinna væri auðveldara að ná fram kjarabótum. Stórt samflot getur haft bæði kosti og galla.
  • Miðflokkurinn horfir á heilbrigðisþjónustuna með hagsmuni sjúklinga í huga. Lykilþáttur þess er að reka skilvirka og örugga þjónustu sem gagnast öllum landsmönnum. Það sama á við um mennta- og velferðarkerfið. Þar skipta hagsmunir skjólstæðinga kerfisins mestu máli.
  • Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þeirra starfsstétta sem sinna þessum mikilvægu málaflokkum og störfum með það að markmiði að veita þá þjónustu sem landsmenn eiga skilið. Því leggur Miðflokkurinn áherslu á að starfa í sem mestri samvinnu og samráði við allar starfsstéttir og telur mikilvægt að hlusta á þarfir þeirra og óskir.
  • Miðflokkurinn leggur áherslu á að bæta starfsumhverfi og launakjör heilbrigðisstarfsmanna og stuðla að eðlilegri endurnýjun og starfsánægju þessarar mikilvægu heilbrigðisstéttar. Mikilvægt er að halda þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga úr brottfalli, fá þá til starfa sem þegar hafa hætt og skapa hvata til að fá menntað fólk heim erlendis frá.
  • Nánast allar rannsóknir sýna að staða jafnréttismála hér á landi er eins og best verður á kosið í alþjóðlegum samanburði. Það þýðir alls ekki að ekki sé unnt að gera betur.
  • Mikilvægt er að tryggja öllum námsmönnum jafnrétti til náms, óháð búsetu, kyni eða efnahag. Miðflokkurinn hefur stutt ýmsar hvetjandi aðgerðir og þannig hefur flokkurinn talað fyrir því að heilbrigðisstarfsmenn njóti þess í lækkun námslána kjósi þeir að vinna úti á landi. Kjör og fyrirkomulag námslána hljóta að vera til sífelldrar endurskoðunar og Miðflokkurinn styður aðgerðir sem stuðla að jafnrétti til náms, óháð búsetu, kyni eða efnahag eins og áður sagði.

Píratar

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Píratar leggja áherslu á réttlátt og gegnsætt samfélag þar sem menntun og færni eru metin að verðleikum. Kaupmáttarrýrnun háskólamenntaðra, sérstaklega þeirra með meistaragráðu, er óásættanleg og dregur úr hvata til menntunar. Við viljum bæta launastefnur opinbera og einkageirans, draga úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa, og tryggja kaupmáttaraukningu með sértækum aðgerðum. Mikilvægt er að auka stöðugleika í efnahagslífi, styðja stéttarfélög og efla samstarf á vinnumarkaði. Ísland á að vera fyrirmynd í að verðlauna menntun, með lausnum sem byggja á sanngirni og langtímasýn.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Við viljum sjá aukna fjárfestingu í menntun, þjálfun og vitundarvakningu um mikilvægi launajafnréttis, bæði hjá vinnuveitendum og starfsfólki. Með þessum aðgerðum stefnum við að því að tryggja að störf séu metin á grundvelli raunverulegs verðmætis þeirra, óháð hefðbundinni kynjaskiptingu. Markmiðið er að launajafnrétti verði ekki aðeins lögbundið markmið heldur staðreynd í daglegu lífi allra á vinnumarkaði.
    Launamunur kynjanna er enn til staðar, atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla á Íslandi. Í stefnu Pírata um jafnréttismál kemur fram að helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Píratar vilja leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði. Einnig telja Píratar mikilvægt að settar verði reglur um launagagnsæi byggðar á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Um er að ræða margþætt vandamál. Háskóla umhverfið á Íslandi er mögulega ekki nógu hvetjandi þar sem nemendur sjá fram á að þurfa að taka mjög íþyngjandi námslán til að getað sinnt námi sínu hérlendis og vera jafnvel á leigumarkaði á sama tíma. Störf í heilbrigðis,- velferðar- og menntakerfinu okkar er lífsnauðsynleg undirstaða í samfélaginu en því miður hafa þessar starfsstéttir verið fjársveltar í of langan tíma. Launin eru of lág og aðilar innan heilbrigðisog velferðarkerfisins þurfa að taka ótal margar auka vaktir til að betri laun. Gera þarf námið aðgengilegra, í stað námslána geta aðilar fengið námsstyrki til að sækja námið en á sama tíma þarf að huga að launakjörum þessara starfsstétta.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Námslán eru gífurlega íþyngjandi á lánþega. Menntun á ekki að leiða til þess að fólk sé skuldsett til æviloka. Huga þarf að breytingum í nýja kerfinu en einnig þarf að koma til móts við aðila með eldri lán. Það er óásættanlegt að þrátt fyrir þunga greiðslubyrði eru margir sem sjá aldrei lánið sitt lækka. Píratar telja að menntun sé máttur og þarf því að leggja meiri áherslu á styrkjakerfi frekar en lánakerfi.
  • Píratar telja mikilvægt að tryggja aðgengi að menntun án þess að þung fjárhagsleg byrði fylgi í kjölfarið. Við leggjum áherslu á endurskoðun á fyrirkomulagi námslána með það að markmiði að létta greiðslubyrði bæði fyrir núverandi og fyrrverandi námsmenn.
  • Við styðjum sanngjarnt vaxtastig og sveigjanlegri endurgreiðsluskilmála sem taka mið af tekjum og lífsskilyrðum lántakenda. Kerfin eiga að vinna með fólkinu og það er mikilvægt að tryggja að svo sé. Dæmi um hvernig kerfið vinnur gegn fólki er þegar einstaklingur með nokkuð há laun verður fyrir skyndilegu tekjutapi. Þá gerist það að afborganir miðast áfram við laun samkvæmt skattaskýrslu síðasta árs. Í svona tilvikum ætti að vera hægt að sýna fram á tekjutap og óska eftir endurútreikningi á afborgunarsamningi.
  • Að auki viljum við kanna leiðir til að auka vægi námsstyrkja, sérstaklega fyrir lágtekjuhópa, til að tryggja að menntun sé raunverulegur ávinningur án þess að draga úr lífsgæðum.
  • Menntun er ein mikilvægasta fjárfesting samfélagsins og grundvöllur framfara. Þess vegna er nauðsynlegt að námslánakerfið sé réttlátt og sjálfbært, þar sem hagsmunir námsmanna eru í forgrunni.

Samfylkingin

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Samfylkingin tekur undir nauðsyn þess að fólk njóti almennt ávinnings af því að afla sér háskólamenntunar. Með áherslu aðila vinnumarkaðarins á hækkun lægstu launa í kjarasamningum hefur dregist saman með lægstu og meðallaunum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Langstærsti hluti háskólamenntaðra er á meðallaunum. Ljóst er að líta þarf til virðismats þeirra starfa sem krefjast háskólamenntunar (starfsleyfis), ekki síst til þeirra stétta sem skipaðar eru konum af stærstum hluta. Þar eru heilbrigðisstéttir og kennarastéttin nærtækt dæmi.
    Það er hlutverk ríkisvaldsins að jafna stöðu og kjör fólks og fjölskyldna. Til þess beitum við skattkerfinu og félagslegum tilfærslum. Aukinn fjárhagslegur stuðningur við barnafjölskyldur, húsnæðisöryggi sem endurspeglast í nægu framboði húsnæðis á viðráðanlegu verði og lágt verðlag á nauðsynjavöru eru einnig mikilvægir þættir sem stuðla að auknum kaupmætti launafólks.
    Varla þarf að taka fram hátt vaxtastig og há verðbólga skerða kjör og kaupmátt launafólks á Íslandi. Stærsta efnahagsaðgerðin er að ná niður vöxtum og verðbólgu með góðri hagstjórn og aðgerðum til að vinna hraðar á ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Samfylkingin hefur kynnt Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum sem miðar að þessu. Þá höfum við kallað eftir því, í stefnuplagginu Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum, að mótuð verði atvinnustefna fyrir Ísland með áherslu á sjálfbæran vöxt atvinnugreina, háa framleiðni og vel launuð störf.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Samfylkingin styður launajafnrétti milli kynja. Rannsóknir sýna að enn er á brattann að sækja fyrir háskólamenntaðar konur. Samvinna hins opinber og hreyfinga launafólks um nýtt virðismat svokallaðra kvennastarfa vísar í rétta átt en gengur hægt. Stjórnvöld þurfa að greiða götu virðismatsins og einnig að beita sér af fullum þunga fyrir því að laun og kjör háskólamenntaðra kvenna verði bætt sérstaklega. Það er best gert í kjarasamningum og allsherjarsátt um slíka aðgerða á vinnumarkaði. Lögleiðing jafnlaunavottunarinnar hefur ekki reynst rétta svarið við þessu mikilvæga verkefni.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Launakjör og starfsaðstæður ráða miklu um það hvernig tekst að manna mikilvæg störf í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu. En það gera líka aðrar aðstæður í samfélaginu, til dæmis á húsnæðismarkaði og þjónusta við fjölskyldur. Þær hafa einnig mikil áhrif á það hvort fólk snýr heim eftir langt háskólanám í útlöndum. Samfylkingin vill beita ívilnunum í meiri mæli en nú er gert til þess að fjölga fólki sem sækir sér háskólamenntun í starfsgreinum sem mikil þörf er fyrir í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu. Fullnægjandi mönnun, gott starfsumhverfi og styttri vinnuvika eiga að minnka álag á starfsfólki í þessum mikilvægu störfum. Í þessu samhengi er rétt að benda á áætlun okkar, Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Samfylkingin telur ýmsa ágalla á námslánakerfinu. Þar er fyrst að telja háir breytilegir vextir og þung greiðslubyrði. Á þetta var bent frá upphafi og það þarfnast endurskoðunar. Fyrir liggur gömlu LÍNlánin eru einu verðtryggðu lánin sem ekki hafa notið leiðréttingar og greiðslubyrði margra er íþyngjandi. Samfylkingin vill að námslánakerfið gegni félagslegu framfærsluhlutverki sínu með fullnægjandi hætti og stuðli að aukinni menntun í landinu.

Sjálfstæðisflokkurinn

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Sjálfstæðisflokkurinn vill að fólk njóti ávinnings af sínu erfiði og uppskeri eins og það sáir. Samhliða þarf að tryggja afkomu og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu. Enginn komist á vonarvöl hvort sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar.
  • Sjálfsagt og eðlilegt er að menntun sé metin til launa varði menntunin viðkomandi starf eða efli sannarlega einstaklinginn í sínu starfi, geri hann að verðmætari starfskraft en ella.
  • Kjarasamningar undanfarin ár hafa einkennst af krónutöluhækkunum, þær hafa það óhjákvæmilega í för með sér að launastigar þjappast, munur á milli þeirra hæst launuðu og þeirra lægst launuðu minnkar. Sagan segir okkur þó að slík þjöppun varir oftast ekki lengi, nema breið sátt hafi myndast um launahlutföll í samfélaginu. Ella er ekki óeðlilegt að þau sem fjárfest hafa í menntun og reynslu sækist eftir viðeigandi umbun fyrir það, sem aftur þrýstur launastiganum í sundur. Minni miðstýring í kjarasamningum og meira frjálsræði í launasetningu, undir skýrum ramma hefur gengið vel á Norðurlöndum. Þaðan getum við lært margt.
  • Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að auka verðmætasköpun og bæta starfsumhverfi háskólamenntaðra stétta með markvissum aðgerðum. Flokkurinn styður fjölgun starfa í sérfræði- og þekkingargreinum, sem hefur verið helmingur af aukningu starfa á áratugnum 2013–2023. Áhersla hefur verið lögð á aukna framleiðni og nýsköpun með því að skapa verðmæti í nýjum atvinnugreinum, sem byggja á hugverkum, rannsóknum og þróun. Þetta er gert til að tryggja háskólamenntuðu fólki aukinn fjárhagslegan ávinning af menntun sinni.
  • Sjálfstæðisflokkurinn telur að frekari umbætur á skattkerfi og lækkun opinberra gjalda séu leiðir til að efla kaupmátt háskólamenntaðra. Með því að einfalda regluverk og hvetja til nýsköpunar má auka alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands, sem skilar sér í betri launakjörum og auknum tækifærum fyrir menntað fólk.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á jafnan rétt allra á vinnumarkaði, óháð kyni, og telur nauðsynlegt að tryggja jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Hvort og hvenær hallar á kyn við setningu launa er þó vandmetið. Sjálfstæðisflokkurinn telur ríkið ekki best til þess fallið að meta slíka þætti og telur mikilvægt að vinnan sé unnin í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Kafa þarf ofan í hin ýmsu störf, karlæg og kvenlæg.
  • Það er sjálfsagt að skoða þætti sem sannarlega eru mismunandi milli kynjaðra starfa (iðnaðarmenn fá t.d. margir hverjir álag vegna mikils hávaða við störf, en t.d. ekkileikskólakennarar). Þá þætti þarf að leiðrétta í kjarasamningum. Aðrir þættir eru oft illmælanlegir, persónubundnir ofl.
  • Ekki er í öllum tilvikum rétt að tala um að leiðrétta laun kvennastétta. Heldur að tryggja þurfi samræmi milli starfa sem á hvíla svipaðar skyldur, svipuð ábyrgð og svipað álag (hávaði, útivera, ...) óháð kyni.
  • Til þess að breytingar sem þessar geti gengið eftir þarf að ríkja breið sátt um þær á vinnumarkaði. Tryggja þarf að aðrar stéttir komi ekki í humátt á eftir og óski eftir svipaðri leiðréttingu, og það sem eftir stendur er óbreytt staða en hærri launakostnaður. Sagan er lituð af slíkum dæmum (sbr. kjarasamningar lækna 2014).
  • Jafnlaunavottun hefur sýnt okkur hversu auðvelt það er að lögbinda ákveðnar kvaðir sem ekki skila árangri og valda miklum tilkostnaði. Flokkurinn telur best að lausn sé fundinn í kjarasamningum þar sem ráðist er í heildstæða skoðun á hverju starfi fyrir sig, í breiðri sátt.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram fjölþættar lausnir til að mæta skorti á fagmenntuðu fólki í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu.
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill bæta menntun í heilbrigðisgreinum og fjölga nemendum. Við leggjum til að þróa einfaldara sjúkraliða- og hjúkrunarfræðinám til að bregðast við starfsmannaskorti.
  • Sjálfstæðisflokkurinn vill bjóða heilbrigðismenntuðu fólki, sem snýr aftur heim úr námi erlendis frá skattaívilnanir. Þannig má leitast við að tryggja að fólk sjái hag af því að flytja aftur heim að námi loknu. Skattalegar ívilnanir munu koma til með að skila sér til baka til samfélagsins.
  • Lögð verði áhersla á að bæta starfsumhverfi til að draga úr álagi á viðkvæmar starfsstéttir og laða að nýtt fólk. Ekki er því síður mikilvægt að klára byggingu nýja Landspítalans. Með aukinni nýsköpun og fjölbreyttum rekstrarformum, bæði í mennta og heilbrigðiskerfi, hyggst flokkurinn skapa betra umhverfi fyrir fagfólk.
  • Við trúum á að markvissar aðgerðir í menntun og starfsskilyrðum leiði til betra jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði, sérstaklega í greinum sem nú glíma við mikinn skort.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Ekkert svar barst við þessari spurningu.

Viðreisn

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Stefna Viðreisnar er að menntun eigi að meta til launa. Fjárhagslegur ávinningur á fyrst og fremst að felast í því að launakjör séu þannig að menntun borgi sig. Í því felast hagsmunir þjóðarinnar allrar. Á undanförnum tveimur áratugum hefur kaupmáttur launa sveiflast þrisvar sinnum meira á Íslandi en á hinum norrænu löndunum. Fyrir þetta efnahagslega ójafnvægi borgar almenningur hátt verð.
  • Viðreisn vill atvinnustefnu sem miðar að því að auka framleiðni sem endurspeglast mun í auknum kaupmætti launa og meira jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
  • Til þess að Ísland geti verið samkeppnishæft um þjónustu við fólkið í landinu þarf atvinnuumhverfi að vera með þeim hætti að fólk sem fer utan í háskólanám velji að koma aftur heim að námi loknu.
  • Gögn frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sýna að laun háskólamenntaðra hafa staðið í stað frá aldamótum. Það er áhyggjuefni. Þetta er vísbending um að við séum að veðja á aðrar greinar en þær sem krefjast háskólamenntunar.
  • Þetta er áhyggjuefni í samhengi við hagvöxt og í samhengi við framleiðni. Þegar við tölum um og stærum okkur af því að jöfnuður tekna á Íslandi sé mikill þá viljum við öll búa í samfélagi þar sem jöfnuður er mikill og tækifæri fólks eru jöfn. En þegar við blasir að það er stöðnun á lífskjörum, t.d. hjá háskólamenntuðum, þá þarf að staldra við því það er vond framtíðarmynd fyrir þjóðina alla.
  • Þessar kosningar snúast fyrst og fremst um að skapa meira jafnvægi og betri kjör fyrir vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki. Til að ná þessu markmiði mun Viðreisn beita sér gegn skattahækkunum á þessa hópa. Markmiðið til lengri tíma á að vera að leita leiða til að lækka skatta án þess að slegið sé af kröfum um aukna velferð á Íslandi.
  • Eitt af því sem Viðreisn hefur lagt áherslu á er að beita námsstyrkjum í auknum mæli og að námslán verði á hagstæðum kjörum. Verðbólguumhverfi á Íslandi, með tilheyrandi háum vöxtum og óstöðugleika, gerir að verkum að óeðlileg áhætta fylgir því að fjárfesta í eigin námi. Þessu verður að breyta.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Viðreisn hefur mjög skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum. Launajafnrétti er algjört kjarnaatriði í þeim efnum . Viðreisn beitti sér fyrir upptöku jafnlaunavottunar sem hefur skilað vissum árangri og stuðlað að viðhorfsbreytingu hvað varðar launajafnrétti.
    Þá lagði Viðreisn fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta (https://www.althingi.is/altext/148/s/0050.html. Því miður var efni hennar þynnt mjög út í meðförum þeirra flokka sem nú sitja saman í ríkisstjórn, en þrátt fyrir það hefur lítið sem ekkert verið gert með efni hennar í tíð fráfarandi ríkisstjórnar.
    Viðreisn telur brýnt að taka upp þráðinn og ná raunverulegri þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Víða er mikið álag í opinbera kerfinu og áskorun að fá fólk til starfa og koma í veg fyrir að fólk hverfi af vettvangi til annarra starfa. Horfa þarf til skipulags og álags, mönnunar og launa. Það eru breytingar í lýðfræði landsins, fjölda ferðamanna o.fl. Verkefni verða fleiri og flóknari og á sama tíma vill fólk meiri frítíma til að sinna fjölskyldu og áhugamálum. Viðreisn vill að vandinn verði greindur og sett tímasett markmið til úrbóta og þau fjármögnuð með fullnægjandi hætti.
  • Við vitum að mörg þessara starfa eru þess eðlis að keppst er um að fá það til vinnu víða um heim. Stór hluti heilbrigðisstarfsfólks og kennara er konur og lagði Viðreisn m.a. fram breytingartillögu við síðustu fjárlög um 6 milljarða viðbótarframlag til heilbrigðiskerfisins, ekki síst með það að markmiði að bæta kjör kvennastétta. Hún var felld.
  • Viðreisn telur jákvætt að stjórnvöld hvetji ungt fólk sérstaklega til að náms í þeim greinum þar sem skortur er, enda eykur það atvinnutækifæri fólks og er samfélagslega jákvætt.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Stefna Viðreisnar er að námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána.
  • Viðreisn hefur margsinnis rætt stöðu háskólastúdenta og námslánakerfið á Alþingi. Eitt stærsta atriðið þar eru grunnframfærslan og greiðslukjörin. Við höfum sömuleiðis lagt fram tillögur um raunverulegt styrkjakerfi sem er þá ekki bara styrkjakerfi í formi endurgreiðslu heldur styrkur meðan á námi stendur.
  • Þá viljum við að stjórnvöld axli sína ábyrgð á því að ná niður verðbólgu og um leið vöxtum. Við þurfum ríkisstjórn sem setur í forgang að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir ríkissjóðs og gera þannig sitt til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Raunverulegur sparnaður næst ekki með því að skera flatt niður um 2% eða 10% heldur þegar mótuð er skýr sýn á það sem skiptir mestu máli.

Vinstri græn

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Menntun á að sjálfsögðu að vera metin til launa, þó eru fleiri þættir sem spila inn í sem vert er að nefna eins og námslánakerfið sem þarf að taka til endurskoðunar. Námslánakerfið hefur verið markaðsvætt og því þarf að breyta strax. Ef fólk kemur úr námi minna skuldsett og með meira á milli handanna eykst kaupmáttur þeirra, sem er allra hagur. Sama á við varðandi húsnæðismarkaðinn en ef hann er í lagi fær fólk tækifæri til að stjórna málum þannig að minni hluti ráðstöfunarfjár fari í kostnað vegna húsnæðis, það á við um fólk innan allra tekjutíunda. Íbúðarhúsnæði á að vera fyrir fyrir fólk, ekki fjárfesta. Skattaafslætti af sölu aukaíbúða þarf að takmarka, slíkir afslættir eiga að vera fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Nauðsynlegt er að setja frekari takmarkanir á skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis (Airbnb).
    Kjarasamningar síðustu ára hafa fyrst og síðast beinst að því að hækka lægstu laun. Hlutfallslega hafa lægstu laun því hækkað meira en önnur laun. Hvað kaupmátt annarra tekjutíunda varðar þá er auðvitað mikil verðbólga og hátt vaxtastig eitthvað sem gert hefur okkur erfitt fyrir. VG telur nauðsynlegt að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu sem bitnar á almenningi, það verður að okkar mati best gert með þrennum hætti; sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum og með leigubremsu.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Fullt jafnrétti krefst þess að ráðist sé að rótum kynjakerfisins og einkennum þess. Breytingar til lengri tíma krefjast úrbóta á ýmsum sviðum sem ekki eru allar á valdi stjórnvalda, t.d. á sviði uppeldis- og menntamála, en á sama tíma verður að grípa til beinna og tafarlausra aðgerða á öðrum sviðum samfélagsins. Það kallar á heildstæða nálgun og átak allra þátta stjórnkerfisins. Það þarf t.d. að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra. Þannig sköpum við betra samfélag óháð kynjum. VG vill draga úr kynskiptingu vinnumarkaðarins og auka jafnræði meðal foreldra í umönnun barna, t.d. með því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
    Uppbygging vinnumarkaðar og valdastofnana er karllæg sem gerir það að verkum að lítill og einsleitur hópur hefur of mikil völd. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða og tryggja að fjölbreyttar raddir heyrist og að á þær sé hlustað. Kynskiptur vinnumarkaður á sinn þátt í að viðhalda stöðluðum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Brýnt er að útrýma kynbundum launamun, brjóta upp staðalímyndir, stuðla að fjölbreyttari fyrirmyndum og meta fólk að verðleikum óháð kyni þess. Mikilvægt er að endurmeta virði kvennastarfa, með tilliti til ábyrgðar og mikilvægis fyrir samfélagið, í þeirri vinnu eiga ríki og sveitarfélög að vera leiðandi. Vanmat á kvennastörfum er ein helsta ástæða kynbundins launamunar, því þarf að breyta.
    Vegna kynbundins launamunar, vanmati á virði kvennastarfa og ólaunuðum störfum kvenna eru þær með lægri tekjur yfir ævina og sömuleiðis skert lífeyrisréttindi samanborið við karla. Þetta þarf að leiðrétta. Huga þarf einkum að störfum kvenna og kvára sem eru utan hins hefðbundna vinnumarkaðar, hafa ekki aðgang að stéttarfélögum og er berskjölduð fyrir hvers kyns misnotkun. Nauðsynlegt er að vinnuvikan verði stytt á hinum almenna vinnumarkaði í samræmi við opinbera markaðinn. Tryggja þarf að starfsfólk ríkis og sveitarfélaga fái viðunandi fræðslu um jafnréttismál og þær lagalegu skyldur sem þeim ber að uppfylla í störfum sínum.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Stóraukið álag í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er vel þekkt. Þess vegna leggjum við í VG áherslu á hvað menntakerfið varðar að meta störf kennara að verðleikum. Við viljum auka stuðning við kennara og efla þar með nám á öllum skólastigum. VG vill tryggja viðunandi íslenskunám innflytjendabarna, og tryggja þeim mannsæmandi vinnuaðstæður ásamt því að tryggja jöfnun launa kennaramenntaðra til jafns við almennan markað. Lykilþættir almannaþjónustunnar eru öflug félags-, velferðar-, geð- og heilbrigðisþjónusta á samfélagslegum grunni, aðgengi að öruggu húsnæði, jafnrétti til náms og að framfærsla fólks dugi til að lifa heilbrigðu og öruggu lífi. Bætt vinnuaðstaða og kjör heilbrigðisstarfsfólks getur orðið til þess að fleiri sæki menntun á heilbrigðissviði. Eins þarf að bregðast við brotthvarfi heilbrigðisstarfsfólks úr starfi og leita leiða til að fá nýútskrifað fólk til starfa. Því er mikilvægt að skilgreina umfang og eðli verkefna í mönnunarlíkani og tryggja með því aukin gæði og öryggi allra. Heilbrigðisþjónusta skal vera fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í heilbrigðisþjónustu.
    Hvað fólk sem skilar sér ekki heim að loknu námi varðar má nefna að Svandís Svavarsdóttir, þingkona og fyrrv. innviðaráðherra, hefur nú skilað til þingsins þingsályktunartillögu þess efnis að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem fari kerfisbundið yfir þær hindranir sem standa í vegi fyrir heimkomu námsmanna erlendis og geri tillögur að lausnum.
    Gert er ráð fyrir að Samtök íslenskra stúdenta erlendis (SÍNE) tilnefnI fulltrúa í hópinn en einnig fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra. Hópnum er ætlað að skila skýrslu með tillögum til ráðherra fyrir 1. maí 2025.
    Um þessar mundir eru þúsundir íslenskra námsmanna víða um Evrópu og Ameríku í námi, ekki síst á sviði heilbrigðisvísinda. Þessir námsmenn vilja margir hverjir koma heim að loknu námi en kerfið þvælist of oft fyrir þeim og gerir þeim erfiðara fyrir að taka ákvörðun um að koma heim. Það er bæði réttlætismál en ekki síður þjóðhagslega mikilvægt að námsmenn erlendis eigi greiða leið aftur heim. Íslenskt samfélag þarf fleiri vinnandi hendur á næstu árum og mikilvægt er að ný þekking og ný tækni eigi greiða leið inn í samfélagið. Það er til mikils að vinna fyrir íslenskt samfélag að fá sem flesta íslenska námsmenn erlendis heim með þá mikilvægu þekkingu sem þeir hafa aflað sér.
    Skipta má verkefnum væntanlegt starfshóps í tvo aðskilda þætti, annars vegar að losa um hindranir sem eru til staðar í kerfunum, svo sem hjá fæðingarorlofssjóði og í tengslum við sjúkratryggingar, og hins vegar að búa til hvata fyrir fólk til að koma heim. Í þeim efnum mætti horfa til námslánakerfisins eða skattkerfisins, sem gætu skapað jákvæða hvata fyrir námsmenn til að koma heim að loknu námi. Sérstaklega er þetta mikilvægt í tilfellum heilbrigðisstarfsfólks sem í miklum mæli sækir sérfræðinám erlendis.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • VG telur að skoða þurfi frekari breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Lánþegum hefur fækkað undanfarin ár og mun færri námsmenn nýta sér námsstyrki en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rannsóknir hafa bent til þess að íslenskir stúdentar vinni mun meira með námi en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og fer það gegn markmiðum laganna um að auðvelda námsmönnum að einbeita sér að námi sínu. Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum enn frekar en gert hefur verið, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok að uppfylltum eðlilegum skilyrðum um að námi ljúki fyrir tiltekinn aldur. Fólk á ekki að þurfa að greiða af námslánum sínum í ellinni eða ef fólk fer á örorkulífeyri og getur ekki aflað sér tekna með launaðri vinnu. Er hér um stórt kjaramál að ræða fyrir stóran hóp fólks.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt