1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?
- Það er dapurt að launin séu það lág að við séum að missa úr landi sérmenntað fólk sem telur sig eiga betri möguleika annarsstaðar.
2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?
- Flokkur fólksins berst gegn óréttlæti og launamunur kynjanna er ekkert annað en mismunun og það er algjörlega ólíðandi ef einstaklingar eru ekki að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Það á að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu. Við munum sannarlega berjast fyrir því að allir fái í rauninni sömu laun fyrir sömu vinnu.
3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?
- Það sem þarf að gera er að tryggja betri vinnuaðstæður og laun sem endurspegla það vinnuálag sem nú ríkir – Þá er eina leiðin til að draga úr flótta menntafólks úr landinu að tryggja að hér sé hægt að kaupa húsnæði á viðráðanlegu verði og sanngjörnum föstum vöxtum til langs tíma.
4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?
- Við erum fylgjandi því að endurskoða núverandi lánakerfi þar sem vextir námslána eru allt of háir – Við erum einnig fylgjandi því að endurskoða greiðslufyrirkomulag lána úr gamla kerfinu. Þá viljum við ekki að vinna námsmanna skerði framfærslulán til þeirra. Og við viljum afnema verðtryggingu námslána, eins og annarra neytendalána.