Við­reisn

BHM leggur eftirfarandi spurningar fyrir þá flokka og þau framboð sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 30. nóvember 2024.

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Stefna Viðreisnar er að menntun eigi að meta til launa. Fjárhagslegur ávinningur á fyrst og fremst að felast í því að launakjör séu þannig að menntun borgi sig. Í því felast hagsmunir þjóðarinnar allrar. Á undanförnum tveimur áratugum hefur kaupmáttur launa sveiflast þrisvar sinnum meira á Íslandi en á hinum norrænu löndunum. Fyrir þetta efnahagslega ójafnvægi borgar almenningur hátt verð.
  • Viðreisn vill atvinnustefnu sem miðar að því að auka framleiðni sem endurspeglast mun í auknum kaupmætti launa og meira jafnvægi í þjóðarbúskapnum.
  • Til þess að Ísland geti verið samkeppnishæft um þjónustu við fólkið í landinu þarf atvinnuumhverfi að vera með þeim hætti að fólk sem fer utan í háskólanám velji að koma aftur heim að námi loknu.
  • Gögn frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sýna að laun háskólamenntaðra hafa staðið í stað frá aldamótum. Það er áhyggjuefni. Þetta er vísbending um að við séum að veðja á aðrar greinar en þær sem krefjast háskólamenntunar.
  • Þetta er áhyggjuefni í samhengi við hagvöxt og í samhengi við framleiðni. Þegar við tölum um og stærum okkur af því að jöfnuður tekna á Íslandi sé mikill þá viljum við öll búa í samfélagi þar sem jöfnuður er mikill og tækifæri fólks eru jöfn. En þegar við blasir að það er stöðnun á lífskjörum, t.d. hjá háskólamenntuðum, þá þarf að staldra við því það er vond framtíðarmynd fyrir þjóðina alla.
  • Þessar kosningar snúast fyrst og fremst um að skapa meira jafnvægi og betri kjör fyrir vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki. Til að ná þessu markmiði mun Viðreisn beita sér gegn skattahækkunum á þessa hópa. Markmiðið til lengri tíma á að vera að leita leiða til að lækka skatta án þess að slegið sé af kröfum um aukna velferð á Íslandi.
  • Eitt af því sem Viðreisn hefur lagt áherslu á er að beita námsstyrkjum í auknum mæli og að námslán verði á hagstæðum kjörum. Verðbólguumhverfi á Íslandi, með tilheyrandi háum vöxtum og óstöðugleika, gerir að verkum að óeðlileg áhætta fylgir því að fjárfesta í eigin námi. Þessu verður að breyta.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Viðreisn hefur mjög skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum. Launajafnrétti er algjört kjarnaatriði í þeim efnum . Viðreisn beitti sér fyrir upptöku jafnlaunavottunar sem hefur skilað vissum árangri og stuðlað að viðhorfsbreytingu hvað varðar launajafnrétti.
    Þá lagði Viðreisn fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta (https://www.althingi.is/altext/148/s/0050.html. Því miður var efni hennar þynnt mjög út í meðförum þeirra flokka sem nú sitja saman í ríkisstjórn, en þrátt fyrir það hefur lítið sem ekkert verið gert með efni hennar í tíð fráfarandi ríkisstjórnar.
    Viðreisn telur brýnt að taka upp þráðinn og ná raunverulegri þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Víða er mikið álag í opinbera kerfinu og áskorun að fá fólk til starfa og koma í veg fyrir að fólk hverfi af vettvangi til annarra starfa. Horfa þarf til skipulags og álags, mönnunar og launa. Það eru breytingar í lýðfræði landsins, fjölda ferðamanna o.fl. Verkefni verða fleiri og flóknari og á sama tíma vill fólk meiri frítíma til að sinna fjölskyldu og áhugamálum. Viðreisn vill að vandinn verði greindur og sett tímasett markmið til úrbóta og þau fjármögnuð með fullnægjandi hætti.
  • Við vitum að mörg þessara starfa eru þess eðlis að keppst er um að fá það til vinnu víða um heim. Stór hluti heilbrigðisstarfsfólks og kennara er konur og lagði Viðreisn m.a. fram breytingartillögu við síðustu fjárlög um 6 milljarða viðbótarframlag til heilbrigðiskerfisins, ekki síst með það að markmiði að bæta kjör kvennastétta. Hún var felld.
  • Viðreisn telur jákvætt að stjórnvöld hvetji ungt fólk sérstaklega til að náms í þeim greinum þar sem skortur er, enda eykur það atvinnutækifæri fólks og er samfélagslega jákvætt.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Stefna Viðreisnar er að námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána.
  • Viðreisn hefur margsinnis rætt stöðu háskólastúdenta og námslánakerfið á Alþingi. Eitt stærsta atriðið þar eru grunnframfærslan og greiðslukjörin. Við höfum sömuleiðis lagt fram tillögur um raunverulegt styrkjakerfi sem er þá ekki bara styrkjakerfi í formi endurgreiðslu heldur styrkur meðan á námi stendur.
  • Þá viljum við að stjórnvöld axli sína ábyrgð á því að ná niður verðbólgu og um leið vöxtum. Við þurfum ríkisstjórn sem setur í forgang að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir ríkissjóðs og gera þannig sitt til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Raunverulegur sparnaður næst ekki með því að skera flatt niður um 2% eða 10% heldur þegar mótuð er skýr sýn á það sem skiptir mestu máli.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt