Sam­fylk­ing­in

BHM leggur eftirfarandi spurningar fyrir þá flokka og þau framboð sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 30. nóvember 2024.

1. Kaupmáttaraukning háskólamenntaðra stétta hefur verið hverfandi það sem af er öldinni og í tilfelli fólks með meistaragráðu hefur orðið kaupmáttarrýrnun. Hver er afstaða þíns flokks til þessarar stöðu mála og til kröfu háskólamenntaðra um að menntun þeirra verði metin til launa? Sjáið þið fram á einhverjar lausnir sem fært gætu fólki með háskólamenntun fjárhagslegan ávinning af menntun sinni í samræmi við það sem þekkist í samanburðarlöndum okkar?

  • Samfylkingin tekur undir nauðsyn þess að fólk njóti almennt ávinnings af því að afla sér háskólamenntunar. Með áherslu aðila vinnumarkaðarins á hækkun lægstu launa í kjarasamningum hefur dregist saman með lægstu og meðallaunum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Langstærsti hluti háskólamenntaðra er á meðallaunum. Ljóst er að líta þarf til virðismats þeirra starfa sem krefjast háskólamenntunar (starfsleyfis), ekki síst til þeirra stétta sem skipaðar eru konum af stærstum hluta. Þar eru heilbrigðisstéttir og kennarastéttin nærtækt dæmi.
    Það er hlutverk ríkisvaldsins að jafna stöðu og kjör fólks og fjölskyldna. Til þess beitum við skattkerfinu og félagslegum tilfærslum. Aukinn fjárhagslegur stuðningur við barnafjölskyldur, húsnæðisöryggi sem endurspeglast í nægu framboði húsnæðis á viðráðanlegu verði og lágt verðlag á nauðsynjavöru eru einnig mikilvægir þættir sem stuðla að auknum kaupmætti launafólks.
    Varla þarf að taka fram hátt vaxtastig og há verðbólga skerða kjör og kaupmátt launafólks á Íslandi. Stærsta efnahagsaðgerðin er að ná niður vöxtum og verðbólgu með góðri hagstjórn og aðgerðum til að vinna hraðar á ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Samfylkingin hefur kynnt Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum sem miðar að þessu. Þá höfum við kallað eftir því, í stefnuplagginu Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum, að mótuð verði atvinnustefna fyrir Ísland með áherslu á sjálfbæran vöxt atvinnugreina, háa framleiðni og vel launuð störf.

2. Enn er glímt við launamun milli kynja, þrátt fyrir jafnlaunareglu laga. Nýleg rannsókn frá Svíþjóð sýnir að háskólamenntaðar konur með sænskan bakgrunn hafi svipuð laun og ófaglærðir karlmenn með sænskan bakgrunn. Vísbendingar eru um að staðan sé svipuð hjá okkur. Hver er afstaða þíns flokks til kröfunnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, og hvernig hyggist þið að bregðast við ákalli um launajafnrétti?

  • Samfylkingin styður launajafnrétti milli kynja. Rannsóknir sýna að enn er á brattann að sækja fyrir háskólamenntaðar konur. Samvinna hins opinber og hreyfinga launafólks um nýtt virðismat svokallaðra kvennastarfa vísar í rétta átt en gengur hægt. Stjórnvöld þurfa að greiða götu virðismatsins og einnig að beita sér af fullum þunga fyrir því að laun og kjör háskólamenntaðra kvenna verði bætt sérstaklega. Það er best gert í kjarasamningum og allsherjarsátt um slíka aðgerða á vinnumarkaði. Lögleiðing jafnlaunavottunarinnar hefur ekki reynst rétta svarið við þessu mikilvæga verkefni.

3. Í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi okkar er orðinn áberandi skortur á fagmenntuðu fólki í tilteknar greinar. Ástæðurnar eru m.a. þær að fólk gefst upp á að sinna störfum á þessum vettvangi vegna stóraukins álags og hverfur því til annarra starfa. Einnig eru dæmi um að fólk skili sér ekki heim að loknu háskólanámi erlendis. Yfirvöld háskólamála hafa ekki farið þá leið að stýra námsvali eða hvetja ungt fólk til náms í þeim greinum þar sem skortur er og ekki hefur tekist að draga úr vinnuálagi á þær stéttir sem eru undir mestu álagi. Hvað hyggst þinn flokkur gera til að bregðast við þessari stöðu?

  • Launakjör og starfsaðstæður ráða miklu um það hvernig tekst að manna mikilvæg störf í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu. En það gera líka aðrar aðstæður í samfélaginu, til dæmis á húsnæðismarkaði og þjónusta við fjölskyldur. Þær hafa einnig mikil áhrif á það hvort fólk snýr heim eftir langt háskólanám í útlöndum. Samfylkingin vill beita ívilnunum í meiri mæli en nú er gert til þess að fjölga fólki sem sækir sér háskólamenntun í starfsgreinum sem mikil þörf er fyrir í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu. Fullnægjandi mönnun, gott starfsumhverfi og styttri vinnuvika eiga að minnka álag á starfsfólki í þessum mikilvægu störfum. Í þessu samhengi er rétt að benda á áætlun okkar, Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum.

4. Nýleg lög um Menntasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og hafa námsmenn og nýútskrifaðir bent á ýmsa alvarlega ágalla á hinu nýja kerfi, sérstaklega er þung greiðslubyrði og hátt vaxtastig gagnrýnt. Að sama skapi eru háskólamenntaðir, sem tóku lán í gamla LÍN-kerfinu, að glíma við þunga greiðslubyrði. Algengt er að árlega greiði lántaki sem nemur einum mánaðarlaunum í afborganir auk þess sem greitt er af lánunum langt fram á eftirlaunaaldur. Hvaða sýn hefur þinn flokkur varðandi námslán og námsstyrki? Hvernig hyggist þið koma til móts við kröfur um léttari greiðslubyrði námslána, bæði hjá stúdentum framtíðarinnar og þeim sem nú þegar glíma við að greiða niður námslánaskuldir?

  • Samfylkingin telur ýmsa ágalla á námslánakerfinu. Þar er fyrst að telja háir breytilegir vextir og þung greiðslubyrði. Á þetta var bent frá upphafi og það þarfnast endurskoðunar. Fyrir liggur gömlu LÍNlánin eru einu verðtryggðu lánin sem ekki hafa notið leiðréttingar og greiðslubyrði margra er íþyngjandi. Samfylkingin vill að námslánakerfið gegni félagslegu framfærsluhlutverki sínu með fullnægjandi hætti og stuðli að aukinni menntun í landinu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt