Ríki og sveit­ar­fé­lög

Orlofsréttur starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum, sem er í fullu starfi frá 1. maí til 30. apríl árið eftir, er 240 klst. eða að jafnaði 30 dagar. 

Orlofsréttur

Í samningnum er kveðið á um að starfsmaður í fullu starfi eigi rétt á 30 daga orlofi á ári. Þessir 30 dagar samsvara 216 vinnustundum ef miðað er við 36 virkar vinnustundir á viku.

Þetta þýðir að einn orlofsdagur miðað við fullt starf samsvarar: 216 stundir ÷ 30 dagar = 7,2 klst. á dag.

Starfsmaður sem vinnur minna en fullt starf fær orlof reiknað í samræmi við starfshlutfallið. Þannig vinnur starfsmaður í 50% starfi sér inn helming af orlofsrétti þess sem vinnur 100%.

Ef breytingar verða á starfshlutfalli á orlofsárinu þarf að taka tillit til þess í launaútreikningi við töku orlofsins.

Ávinnslutímabil

Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl. Á þessu tímabili ávinnur starfsmaðurinn sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári.

Það telst vinnutími þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi.

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum.

Orlofslaun

Orlofslaun taka mið af mánaðarlaunum starfsmanns fyrir dagvinnu og eru greidd með reglubundnum hætti meðan á orlofstöku stendur.

Föst yfirvinna - orlof

Starfsmaður skal fá 13,04% orlofsfé á yfirvinnu og álagsgreiðslur, t.d. fyrir vaktavinnu og bakvaktir.

Orlofsféð er lagt inn á bankareikning (orlofsreikning) viðkomandi starfsmanns og greitt út í maí ár hvert.

Dæmi er um að aðilar semji um að orlof teljist hluti af föstum yfirvinnugreiðslum. Slíkir samningar verða að efni til að byggja á því að fastar yfirvinnustundir séu greiddar alla mánuði ársins, einnig þann tíma sem starfsmaður er í orlofi. Þannig séu staðin full skil á orlofslaunum af föstu yfirvinnustundunum og því ekki greitt orlofsfé af þeim.

Í máli sem rekið var fyrir héraðsdómi Reykjavíkur (mál E-5141/2023) var tekist var á um hvort vinnuveitanda hafi borið að greiða orlof á fastar yfirvinnugreiðslur starfsmanns. Vinnuveitandinn hélt því fram að orlof væri ekki greitt á fasta yfirvinnu hjá starfsfólki Stjórnarráðsins. Starfsmenn sem væru á fastlaunasamningi fengju greidda yfirvinnu alla mánuði ársins, einnig þegar þeir væru í sumarfríi.

Í ráðningarsamningi starfsmanns var þetta fyrirkomulag ekki tiltekið sérstaklega og ekki fylgt leiðbeiningum um það efni í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins um orlof nr. 2/2006. Var vinnuveitandinn látinn bera hallann af þessu og dæmdur til að greiða orlofslaunakröfu starfsmanns til samræmis við ákvæði kjarasamnings.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt