Undirbúningur að töku orlofs
Samkvæmt orlofslögum skal atvinnurekandi í samráði við starfsfólk ákveða hvenær orlof skuli veitt á sumarorlofstímabili (1. maí til 15. september). Hann skal verða við óskum starfsmanns um hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar.
Upplýsingar um stöðu þegar áunnins og ótekins orlofs skulu vera starfsmönnum aðgengilegar í tímaskráningarkerfi stofnunar.
Ákvörðun um sumarorlof skal liggja fyrir 31. mars og tilkynnt starfsmanni með sannanlegum hætti, svo sem í tímaskráningarkerfi stofnunar, nema sérstakar aðstæður hamli.
Yfirmanni ber að hafa eftirlit með því að starfsfólk taki sitt orlof á yfirstandandi orlofssári en fresti því ekki nema fyrir hendi séu réttmætar ástæður.
Sumarorlof
Tímabil sumarorlofs er frá 1. maí til 15. september.
Starfsmaður á rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga samfellda, á sumarorlofstímabilinu enda verði því við komið vegna starfa stofnunar.
Lenging orlofs
Sé orlof eða hluti orlofs tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, skal sá hluti orlofsins lengjast um 25%, sbr. grein 4.5.2. í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og ríkisins.
Flutningur orlofs milli orlofsára
Miklu skiptir að starfsfólk nýti á hverju ári orlofsrétt sinn til að hvíla sig og njóta frítíma síns með sínum nánustu. Uppsöfnun orlofs og flutningur milli ára samræmist ekki markmiðum orlofslaga, nema réttmætar ástæður séu fyrir hendi.
Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er því óheimilt, sbr. 13. gr. orlofslaga.
Starfsmaður skal því hafa lokið töku áunnins orlofs fyrir lok orlofsársins, þ.e. fyrir 1. maí.
Kjarasammningar heimila hins vegar frestun á töku orlofs vegna veikinda eða fæðingarorlofs. Frestun getur því eftir atvikum leitt til flutnings á orlofsrétti starfsmanns milli orlofsára.
Frestun orlofs
Veikindi
Veikist starfsmaður í orlofi, telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, enda sanni starfsmaður með læknisvottorði að hann geti ekki notið orlofs.
Er þá heimilt að fresta töku orlofs, og eftir atvikum að flytja ótekið orlof til næsta árs, sbr. 6. gr. orlofslaga.
Í kjarasamningi aðildarfélaganna og SA eru ákvæði um frestun orlofs vegna veikinda, tilkynningu veikinda o.fl. í grein 3.3.
Fæðingarorlof
Starfsmaður í fæðingarorlofi getur farið fram á frestun á töku orlofs. Skal orlofið ákveðið í samráði vinnuveitanda og starfsmanns, en þó eins fljótt og unnt er, eftir að fæðingarorlofi lýkur. Uppsafnað orlof getur aldrei orðið meira en 60 dagar, sbr. grein 4.6. í kjarasamningi aðildarfélaga BHM.
Sambærileg ákvæði eru í kjarasamningi aðildarfélaga BHM og sveitarfélaganna.
Að beiði yfirmanns
Ef starfsmaður tekur ekki orlof eða hluta af orlofi, að skriflegri beiðni yfirmanns, getur orlofið geymst til næsta orlofsárs, enda hafi starfsmaður ekki lokið orlofstöku á orlofsárinu. Í slíkum tilvikum getur uppsafnað orlof þó aldrei orðið meira en 60 dagar, sbr. grein 4.6.2. í kjarasamningi BHM og ríkisins.
Önnur störf
Tilgangur orlofslaga er að tryggja rétt launafólks til að taka sér frí á launum (orlofslaunum) sem það nýtir í hvíld og endurnæringu.
Í samræmi við það markmið er í orlofslögum kveðið á bann við því að fólk taki að sér launað starf í starfsgrein sinni eða skyldum starfsgreinum á meðan orlofi stendur.