Stytting vinnuvikunnar
Í kjarasamningum aðildarfélaga BHM sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 var kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma dagvinnufólks og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Samið var um að styttingin skyldi taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021.
Meginmarkmið breytinganna var að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana, bæta vinnustaðamenningu og auka samræmingu vinnu og einkalífs án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu.
Unnið hefur verið að innleiðingu á þessum breytingum á undanförnum árum í samstarfi starfsfólks og stjórnenda.
Í kjarasamningum árið 2024 var staðfest að umræddu markmiði hefði verið náð og vinnuvika starfsmanna í fullu starfi formlega skilgreind sem 36 virkar vinnustundir.
Frekari upplýsingar og ráðgjöf
Félagsfólki er ráðlagt að hafa samband við sitt aðildarfélag innan BHM um þær reglur sem gilda varðandi vinnutíma og neysluhlé hjá vinnuveitanda þeirra.
Tekið skal fram að nokkur aðildarfélaga BHM eru enn með opna kjarasamninga (31.12.2024).