Samkvæmt 3. kafla kjarasamnings aðildarfélaga BHM á starfsfólk í dagvinnu rétt á 30 mínútna matarhléi á tímabilinu kl. 11:30-13:30 og telst hann ekki til vinnutíma. Þá er kveðið á um tvo kaffitíma, 15 mínútur og 20 mínútur, sem teljast til vinnutíma og því launaðir. Styðst sú útfærsla við 4. og 5. gr. laga um 40 stunda vinnuviku.
Samkomulag á vinnustað um styttingu vinnuvikunnar í allt að 36 virkar vinnustundir á viku hefur áhrif á fyrirkomulag neysluhléa.
Náist samkomulag á stofnun um hámarks styttingu vinnutíma, þ.e. um 4 klst. á viku, verður gr. 3.1 kjarasamnings um matar- og kaffitíma óvirk. Starfsfólk hefur engu að síður heimild til taka sér hlé til að ná sér í kaffibolla eða borða hádegismat. Um formlegt hlé í skilningi kjarasamnings er hins vegar ekki að ræða. Það þýðir að starfsmaðurinn getur ekki ráðstafað þeim tíma að vild, farið úr húsi eða gert það sem honum sýnist á þeim tíma.
Við lágmarks styttingu (13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku) haldast matar- og kaffitímar óbreyttir samkvæmt kjarasamningi.
Ákvæði um fæði og mötuneyti verða óbreytt sem þýðir að starfsfólk á eftir sem áður að hafa aðgang að matstofu eftir því sem við verður komið eða fá greidda fæðispeninga.
Um neysluhlé í yfirvinnu gildir eftirfarandi:
Matartími er 1 klst. kl. 19:00-20:00 að kvöldi, kl. 03:00-04:00 að nóttu og á tímabilinu kl. 11:30-13:30 á frídögum skv. gr. 2.1.4.
Matartímar á yfirvinnutímabili teljast til vinnutímans og því greiddur tími.
Kaffitímar: kl. 21:00-21:20, kl. 00:00-00:20, kl. 05:40-06:00 og kl. 07:45-08:00.
Matar- og kaffitímar á yfirvinnutímabili sem unnir eru, greiðast sem viðbót við yfirvinnutíma og auk þess kaffitímar í yfirvinnu, sé unnið að fremri mörkum þeirra.
Í kjarasamningi SA og aðildarfélaga BHM segir í grein 2.1.1 að samkomulag ráði lengd og fyrirkomulagi neysluhléa og eftir atvikum annarra hléa frá vinnu.
Tekið er fram að hádegishlé, umfram greidd neysluhlé, teljist ekki til greidds vinnutíma.