Neyslu­hlé

Matar- og kaffihlé eru lögbundin en útfærslan nánar ákveðin með kjarasamningum líkt og gildir almennt um vinnutíma starfsfólks.

Kjarasamningar 2024

Eftirfarandi reglur gilda fyrir félagsfólk í aðildarfélögum BHM sem hafa endurnýjað samninga sína árið 2024.

Hlé frá vinnu

Starfsmönnum er heimilt að neyta matar og drykkja við vinnu sína þegar því verður við komið starfsins vegna og slík hlé eru hluti af virkum vinnutíma.

Heimilt er með samkomulagi stjórnenda stofnunar og einfalds meirihluta þeirra starfsmanna sem málið varðar að ákvarða dagleg hlé sem eru á forræði starfsmanna. Ákvörðuð lengd þeirra lengir daglega viðveru starfsmanna samsvarandi enda teljast slík hlé ekki til virks vinnutíma.

Á þeim stofnunum þar sem hlé eru ákvörðuð með slíku samkomulagi og unnið er í hléinu að beiðni yfirmanns er greitt fyrir það með yfirvinnukaupi.

Starfsmenn sem eru við störf á föstum vinnustað, skulu hafa aðgang að matstofu eftir því sem við verður komið. Matstofa telst sá staður í þessu tilviki þar sem hægt er að bera fram heitan og kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum. Húsakynni og aðstaða skulu vera í samræmi við kröfur viðkomandi heilbrigðisyfirvalda. Starfsmenn greiði efnisverð matarins en annar rekstrarkostnaður greiðist af viðkomandi stofnun.

Fæði og mötuneyti

Á þeim vinnustöðum þar sem ekki er starfrækt mötuneyti, skal reynt að tryggja starfsmönnum aðgang að nærliggjandi mötuneyti á vegum vinnuveitanda, eða látinn í té útbúnaður til að flytja matinn á matstofu vinnustaðar þannig að starfsmönnum sé flutningur matarins að kostnaðarlausu.

Aðildarfélög með opna samninga (31.12.2024).

Starfsfólk í dagvinnu á rétt á 30 mínútna matarhléi á tímabilinu kl. 11:30-13:30 og telst hann ekki til vinnutíma. Þá er kveðið á um tvo kaffitíma, 15 mínútur og 20 mínútur, sem teljast til vinnutíma og því launaðir. Styðst sú útfærsla við 4. og 5. gr. laga um 40 stunda vinnuviku.

Samkomulag á vinnustað um styttingu vinnuvikunnar í allt að 36 virkar vinnustundir á viku hefur áhrif á fyrirkomulag neysluhléa. Við fulla styttingu vinnuvikunnar verða ákvæði 3. kafla kjarasamnings um neysluhlé óvirk.

Almennur vinnumarkaður

Í kjarasamningi SA og aðildarfélaga BHM segir í grein 2.1.1 að samkomulag ráði lengd og fyrirkomulagi neysluhléa og eftir atvikum annarra hléa frá vinnu.

Tekið er fram að hádegishlé, umfram greidd neysluhlé, teljist ekki til greidds vinnutíma.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt