Höfundar frumvarpsins tala um „að auka sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi" en það þýðir á mannamáli að auka sveigjanleika forstöðumanna til að segja upp starfsfólki. Frumvarpshöfundar nefna einnig að það verði almenn krafa að málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar starfslokum, en mergur málsins er sá að ef málefnaleg sjónarmið eru til staðar koma gildandi reglur ekki í veg fyrir uppsögn starfsfólks ríkisins.
Á starfsfólki ríkisins hvíla ríkari skyldur en hvíla á fólki starfandi á almennum vinnumarkaði. Enn eru til staðar hópar opinberra starfsmanna sem hafa ekki verkfallsrétt eða hafa takmarkaðan verkfallsrétt. Til viðbótar ber að nefna að starfsfólk ríkisins heyrir í mörgum tilvikum jafnframt undir ýmis sérlög og reglugerðir og eru jafnvel undir stífara og meira eftirliti en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.
Gildandi reglur gera hins vegar ráð fyrir því að ef uppsögn er í einhverju tengd frammistöðu í starfi fái viðkomandi tækifæri til að bæta ráð sitt sem er að mati BHM bæði eðlilegt og sanngjarnt. Það er mannlegt að gera mistök og meðalhófs er gætt þegar fólk fær tækifæri til að bæta ráð sitt. Eflaust væri nærtækara að stjórnvöld leggðu aukna áherslu á bætta stjórnendafærni og aukinn stuðning við stjórnendur stofnana ríkisins.