Mikilvægt að framlengja heimild til ráðstöfunar séreignasparnaðar inn á húsnæðislán

BHM telur mikilvægt að gripið verði strax til aðgerða svo draga megi úr vaxandi útgjöldum heimilanna sem leitt hafa til þess að lífskjör landsmanna fara versnandi. Bandalagið leggur til að heimild almennings til ráðstöfunar séreignar inn á höfuðstól íbúðalána verði framlengd. Þetta er meðal áhersluþátta BHM í umsögn um frumvarp til fjárlaga 2025.

Að mati BHM þarf að forgangsraða aðgerðum til að koma á stöðugleika í ríkisfjármálum en um leið að vernda árangur kjarasamninga og tryggja stöðu efnahagsmála, þannig að ekki komi til uppsagna sökum forsendubrests. Jafnframt bendir bandalagið á að vaxtagjöld skv. frumvarpinu séu vanáætluð líkt og raunin virðist ætla að verða 2024 þar sem útlit er fyrir að þau aukist um 11% frá samþykktum fjárlögum 2024.

Í umsögninni er lagt til að gripið verði til ýmissa aðgerða til að ná fyrr jafnvægi í ríkisfjármálum, s.s. að hækka bankaskatt, hækka tryggingargjald, lækka frítekjumark fjármagnstekna og skattleggja söluhagnað íbúðarhúsnæðis. BHM bendir á að óeðlilegur hvati sé í skattkerfinu þar sem hagnaður af íbúðarsölu er skattfrjáls.

Hin þráláta verðbólga og háir vextir eru mjög íþyngjandi fyrir heimilin í landinu. Vaxtabyrði yngra fólks hefur aukist hratt m.a. með þeim afleiðingum að ungt fólk leitar í auknum mæli aðstoðar annars staðar en hjá hinu opinbera við fyrstu húsnæðiskaup. Vísbendingar eru um að leitað sé til foreldra eða skyldmenna en fyrirframgreiddur arfur hefur aukist um 20% frá 2021 og enn er gert ráð fyrir aukningu.

Skattbyrði millitekjufólks er há og er hlutfall launa sem varið er í skatta og lífeyrisgreiðslur hærra á Íslandi en í samanburðarlöndum og telur BHM ótækt að hækka hana enn frekar. Til viðbótar við skattbyrði er þessi hópur með greiðslubyrði námslána sem Lífskjararannsókn BHM sýnir að leggst þungt á háskólamenntaðra á vinnumarkaði. Þá hefur kaupmáttur meðaltals ráðstöfunartekna hjá fólki með meistaragráðu lækkað um 6% á tuttugu ára tímabili, 2002-2022 á meðan kaupmáttur fólks með grunnskólamenntun hefur aukist um 29% á sama tíma. Ástæðuna má m.a. rekja til áhersla um krónutöluhækkanir í kjarasamningum.

Þá mótmælir bandalagið skerðingu á framlagi ríkisins til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og skertu framlagi til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Einnig er niðurskurður til sjóða á sviði lista og menningar áhyggjuefni að mati BHM.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt