Léttum greiðslubyrði í 2,4-3,4% af árstekjum
Háskólamenntaðir á vinnumarkaði greiða núna 3,4-4,4% af árstekjum sínum í endurgreiðslu námslána. Það jafngildir allt að þremur vikum af launaðri vinnu á ári, sem fara í að greiða af námslánum. Þessi staða er sérstaklega sársaukafull fyrir háskólamenntað fólk á opinbera markaðnum, fólk sem hefur langt nám að baki og fær greidd lág laun í miðað við ríkjandi markaðslaun fyrir sambærilegt nám á almennum vinnumarkaði. Þegar samningar losna í apríl 2024 munu sérfræðingar BHM hjá ríkinu og sérfræðingar Kennarasambandsins hjá ríkinu t.a.m. standa frammi fyrir kaupmáttarstöðnun í launum allt frá 2019. Á sama tíma og aðrir hópar á vinnumarkaði hlutu allt að 40% kaupmáttaraukningu. Í ljósi þess að kjaraviðræður háskólamenntaðra eru framundan leggur BHM til að endurgreiðsluhlutfall G- lána lækki í 2,4% af árstekjum og í 3,4% á R-lánum. Aðgerðin mun helst gagnast þeim sem hafa langt nám að baki og fá greidd lægri laun en aðrar háskólamenntaðar stéttir. Þar er ekki síst um að ræða fjölmennar kvennastéttir innan heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Fellum niður eftir hverja önn eins og í Noregi
Með nýjum lögum um menntasjóð námsmanna frá árinu 2020 var stuðningskerfi ríkisins við háskólamenntaða breytt í veigamiklum atriðum. Mikilvægasta breytingin fólst í 30% niðurfellingu höfuðstóls við lok prófgráðu, fyrir þau sem ljúka námi á réttum tíma. Á móti var alfarið hætt að niðurgreiða vexti fyrir lántaka. Námslánakerfinu var umturnað í markaðstengt styrkjakerfi, eins konar samfélagsbanka sem rukkar markaðsvexti! Með þessu var verulega dregið úr stuðningi ríkisins við þann hóp háskólamenntaðra sem ekki getur nýtt sér hin meintu gæði kerfisins, vegna þess að líf fólks er alls konar og aldrei á vísan að róa. Ekki bætir úr skák að ekki er að sjá að innleiðing styrkjakerfis hafi hraðað námsframvindu eða skapað raunhæfa hvata eins og ætlunin var. Mun færri námsmenn nýta sér námsstyrki en áætlanir gerðu ráð fyrir. Yfirlýst markmið námslánakerfisins á Íslandi eru einfaldlega í hættu. Í ljósi þessa leggur BHM til að niðurfelling höfuðstóls námslána verði heimiluð eftir hverja önn líkt og í Noregi. Í lok hverrar annar í Noregi fæst niðurfelling á allt að 25% höfuðstóls þess láns sem tekið var þá önnina, auk niðurfellingar á allt að 15% af öllum höfuðstól hvers námsláns við námslok. Það væri sanngjarnara kerfi en það sem við nú búum við.
Hugsum markmið námslánakerfisins upp á nýtt og til lengri tíma
Samkvæmt lögum um menntasjóð námsmanna er markmið námslána að tryggja fólki jöfn tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Í huga stjórnvalda virðist námslánakerfið því fyrst og fremst vera efnahagslegt jöfnunartæki fyrir ungt fólk. Námslánakerfið gegnir þó mun göfugra og mikilvægara hlutverki í hagkerfinu. Hlutverki sem hvergi er nefnt í opinberri stefnumótun; að skapa hvata fyrir fólk til að skapa aukin verðmæti fyrir samfélagið, öllum til heilla. Það er markmið sem stjórnvöldum ber að standa vörð um. Það verður best gert með því að hugsa námslánakerfið upp á nýtt. Taka ætti upp blandað kerfi námsstyrkja og vaxtaniðurgreiðslu, sem hefði það að markmiði að þjóna til jafns samfélagslegu hlutverki og metnaði þeirra sem sækja sér háskólamenntun. Í því sambandi er t.a.m. tímabært að horfa til aukinnar vaxtaniðurgreiðslu og styrkja til þjóðhagslega mikilvægra hópa, t.d. þar sem glímt er við tilfinnanlega manneklu í menntakerfi, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Er ekki rétt að við tökum höndum saman um að skapa nýtt og betra námslánakerfi?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2024