Háskólafélög funda með frambjóðendum stjórnmálaflokka
Málþingið fer fram í stofu N-132 í Ösku að Sturlugötu 7 og hefst kl. 16:00 en verður einnig í boði á Teams.
Málþingið fer fram í stofu N-132 í Ösku að Sturlugötu 7 og hefst kl. 16:00 en verður einnig í boði á Teams.
Á málþinginu verður rædd sú alvarlega staða sem opinberir háskólar á Íslandi standa frammi fyrir, sem meðal annars tengist undirfjármögnun þeirra, síauknu álagi á starfsfólk háskólanna og raunverulegu jafnrétti til náms á Íslandi. Í fréttatilkynningu félaganna er kjararýrnun háskólafólks sérstaklega nefnd, há tíðni starfsfólks með alvarleg kulnunareinkenni, þær staðreyndir að Ísland sé enn langt undir meðaltali Norðurlandanna þegar kemur að fjármögnun háskólakerfisins þrátt fyrir loforð og að þær breytingar sem gerðar voru á námslánum í gegnum Menntasjóð virðast ekki vera að virka fyrir stóran hluta nemenda.
Málþingið hefst með stuttri kynningu á aðstæðum í opinberu háskólunum og í kjölfarið fær fulltrúi hvers flokks nokkrar mínútur til að ræða stefnu flokksins um háskólamál á Íslandi. Að því loknu verður boðið upp á almennar umræður og spurningar úr sal. Málþinginu lýkur kl. 18:00.
Níu flokkar hafa staðfest þátttöku í málþinginu, Flokkur fólksins, Framsókn, Lýðræðisflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Sósíalistaflokkurinn, VG og Viðreisn.