Fulltrúar BHM, BSRB og ASÍ telja sjálfstæði loftlagsráðs skert í reglugerðardrögum
BHM, BSRB og ASÍ telja að vegið sé að sjálfstæði loftslagsráðs í reglugerðardrögum um loftslagsráð. Samtökin telja það svigrúm sem ráðherra er gefið í reglugerðinni til skipunar í ráðið hvorki til þess fallið að skapa sátt um starfsemi loftslagsráðs né að stuðla að sjálfstæði þess. Loftslagsráði er ætlað að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftlagsmálum, eins fram kemur í drögunum. Þetta kemur fram í umsögn heildarsamtakanna við reglugerðardrögin.
Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ráðherra skipi formann og varaformann ráðsins og hafi að auki heimild til að skipa aðra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í loftslagsráði. Mælst er til þess að ráðið sé þannig samsett að fullskipað búi það yfir þekkingu á þeim málaflokkum sem tilgreindir eru í 5. gr.
Fulltrúar BHM, BSRB og ASÍ telja brýnt að heildarsamtök launafólks eigi fulltrúa í loftslagsráði enda eru loftslagsbreytingar ein stærsta áskorun samtímans sem mun hafa víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf, lífskjör og afkomu almennings. Reglugerðin geri að auki ráð fyrir að innan ráðsins skuli vera þekking á réttlátum umskiptum og það sé einmitt vinnumarkaðstengt hugtak byggt á hugmyndafræði sem mótuð var af alþjóðlegu verkalýðshreyfingunni. Samtökunum þykir jafnframt brýnt að ungt fólk eigi fulltrúa í lofslagsráði sem það tilnefni sjálft.