
Í dag fögnum við níutíu og fimm ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Af því tilefni sendir BHM henni heillaóskir og hjartans þakkir fyrir að hafa með störfum sínum verið okkur, samferðafólki hennar, mikilvæg fyrirmynd.
Áhrifa Vigdísar gætir á ótalmörgum sviðum í samfélagi okkar. Raunar má segja að hún hafi verið áhrifavaldur í samfélagsþróun sem náð hefur langt út fyrir Ísland. Hún sýndi fram á að brautin, sem baráttukonur fyrir kvenfrelsi höfðu lagt mikið á sig við að ryðja áratugum saman, var í raun fær. Það var sigur út af fyrir sig. En áhrifin af störfum hennar hafa verið margvísleg og varðað ólík svið menningar.
Í því umhverfi sem háskólamenntað fólk á vinnumarkaði lifir og hrærist eru Vigdísi þökkuð ómetanleg störf að varðveislu tungumála í heiminum og einnig framlag hennar til að efla siðferði í vísindum. Vigdís tók að sér verkefni fyrir Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, sem velgjörðarsendiherra tungumála ásamt því að sinna störfum fyrir Heimsráð um siðferði í vísinda- og tækniþekkingu, COMEST, og fljótlega bætti UNESCO kvenréttindum við sendiherraskyldur hennar. Um þennan þátt í störfum Vigdísar má lesa nánar í ævisögu Vigdísar – Kona verður forseti, sem Páll Valsson ritaði.
Í dásamlegri bók „Tungumál ljúka upp heimum“, sem gefin var út í tilefni af áttatíu ára afmæli Vigdísar, skrifar Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur um þátt Vigdísar í verkefni UNESCO „Tungumál til friðar“: Af því að tungumál fjalla um skilning þá er það friði í heiminum til framdráttar að við skiljum hvert annað – á sem flestum móðurmálum – ekki aðeins formlegum skilningi samkvæmt orðanna hljóðan, heldur einnig mannskilningi, menningarskilningi. Skilningi sem hefur í för með sér vinsemd og virðingu, þetta tvennt sem heiminn vanhagar mest um.
Sjálfri hefur mér auðnast að starfa fyrir Vigdísi og með henni að ótal verkefnum gegnum tíðina. Við kynntumst þegar hún var leikhússtjóri í Iðnó á áttunda áratug síðustu aldar og ég nemandi í Leiklistarskóla leikhúsanna, skóla sem Vigdís átti þátt í að stofna og stýra. Við komum báðar að starfi Leikminjasafns Íslands um árabil, ég sem stjórnarformaður og hún sem verndari safnsins. Eftirminnilegt verkefni er hátíðardagskrá og vígsluathöfn þegar Veröld – Hús Vigdísar var formlega opnað. Eins hefur komið í minn hlut að stýra merkisviðburðum tengdum lífi og starfi Vigdísar; hátíðarsamkomu við Arnarhól þegar þjóðin fagnaði því að 35 ár voru liðin frá kjöri hennar sem forseta og afmælishátíð í Háskólabíói í tilefni áttatíu ára afmælis hennar, undir yfirskriftinni „Við siglum alltaf til sama lands“. Áformað var að halda upp á níutíu ára afmælið með svipuðu sniði 2020, en þá skall á heimsfaraldur svo þeirri hátíð var snarlega breytt í afmælisdagskrá sem RÚV sá um að taka upp og sýna í sjónvarpinu að kvöldi afmælisdagsins. Síðast var ég kölluð til á afmæli Reykjavíkurborgar í fyrra og fengin til að segja „Vigdísarsögur“ á innihaldsríkri sýningu um ævi hennar og störf í Loftskeytastöðinni, sýningu sem hefur þá viðeigandi yfirskrift „Ljáðu mér vængi“.
Það má með sanni segja að Vigdís hafi gefið hugmyndum um stöðu kvenna í karllægu samfélagi vængi þegar hún hóf að gegna embætti forseta Íslands, án þess að það hafi verið hennar ætlan, sem sagðist ævinlega vera forseti beggja kynja. Hún var líka málsvari og talsmaður náttúru og lífríkis, lista og menningar, en ekki síst talsmaður varðveislu tungumála. Áhrifa hennar á öll þessi málefni mun gæta um langa framtíð, það vita þau sem starfa á þessum sviðum. Hafi fólk ekki áttað sig á mikilvægi framlags hennar í forsetatíð hennar, þá hefur meðvitundin um það vaknað svo um munar. Það sýna m.a. viðtökur sjónvarpsþáttanna um líf hennar og vinsældir ævisögunnar. En áhrifanna gætir víðar en við gætum haldið, til marks um það eru ný jafnréttisverðlaun Evrópuráðsþingsins og íslenskra stjórnvalda, sem veitt eru í nafni Vigdísar: Vigdís Prize for Women's Empowerment
Eins eigum við okkar eigin Vigdísarverðlaun, sem ríkisstjórn Íslands, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum efndu til fyrir fimm árum síðan. Það var afmælisgjöfin til hennar á níutíu ára afmælinu, sem gladdi hana mjög. Þau verðlaun eru veitt árlega einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar, einkum tungumála. Tilgangurinn er að heiðra og halda á lofti lofsverðu framlagi Vigdísar til tungumála og menningar: https://vigdis.hi.is/is/vigdisarverdlaun
Kæra Vigdís, fyrir hönd BHM óska ég þér til hamingju með merkisafmælið og takk fyrir að vera fyrirmynd!
Kolbrún Halldórsdóttir
formaður BHM