Átta staðreyndir um opinbert starfsfólk

Störf og kjör opinbers starfsfólks eru gjarnan til umræðu í samfélaginu og er það eðlilegt, enda starfa opinberir starfsmenn í þágu almennings og samfélagsins. Í opinberri umræðu ber stundum  á rangfærslum og skökkum samanburði. BHM hefur tekið saman átta staðreyndir um málið.

1. Hlutfall vinnumarkaðarins í opinberum störfum er í takt við langtímameðaltal

Opinbert starfsfólk er nú 30% af heildarfjölda starfandi fólks á Íslandi, sem er í takt við langtímameðaltalið og það sem vænta má miðað við stöðu hagsveiflu. Hlutfallið hefur rokkað frá 27-33% síðustu þrjátíu árin og minnkar í uppsveiflu en eykst í niðursveiflu. Samanburður við Norðurlöndin sýnir að löndin eru með hlutfall sem er á svipuðum nótum eða ívið hærra en á Íslandi, eins og Noregur (31%), Danmörk (28%), en Ísland (25%) samkvæmt skýrslu OECD 2023.[1]

Ofangreind mynd notar mælikvarðann fjöldi starfandi, en ef mælikvarði er stöðugildi þá er hlutfallið lægra, sbr. tölfræði á síðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.[2]

2. Launakostnaður ríkisins er ekki óhóflegur í sögulegu samhengi

Þróun fjölda starfa helst í hendur við launakostnað, sem er eðlilegt að skoða og greina út frá öðrum hagstærðum. Samanburður hinsvegar á launakostnaði milli opinbers og almenns vinnumarkaðar er ómarktækur heilt yfir. Opinber störf krefjast almennt hærra menntunarstigs en á almennum markaði, auk þess sem hlutastörf eru mun algengari hjá hinu opinbera. Hlutfall launakostnaðar af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs hefur haldist svipað á bilinu 17-23% síðan 2006, þrátt fyrir að launakostnaður í krónum talið hafi hækkað í takt við aðrar útgjaldaaukningar ríkisins. Fyrir 2006 var hlutfallið hærra.

3. Fjölgun opinbers starfsfólks hefur verið í takt við þróun vinnu-markaðarins

Heimsfaraldurinn árin 2020 og 2021 setti mark sitt á þróun undanfarinna ára og hlutfallsleg fjölgun á opinbera vinnumarkaðnum á tíma heimsfaraldurs gekk að mestu til baka eftir 2022. Sé miðað við opinbert rekstrarform eingöngu og lokaárið 2024 kemur í ljós að fjöldi starfandi á almennum vinnumarkaði jókst um 33% á tímabilinu 2014-2024 en fjöldi starfandi hjá opinberum stofnunum jókst um 18%. Þar með jókst fjöldi starfandi á almennum vinnumarkaði 83% hraðar en hjá opinberum stofnunum á þessu 10 ára tímabili.

Ekkert bendir til að opinberu starfsfólki hafi fjölgað óhóflega á þessum tíma og fullyrðingar um meiri fjölgun á opinberum vinnumarkaði en almennum eru einfaldlega rangar.

4. Skýrar vísbendingar um að skortur er að myndast  í heilbrigðis- og umönnunarstörfum

Á árunum 2013-2023 jókst fjöldi starfandi í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu nokkurn veginn í takt við íbúafjölgun. Mannaflaskortur hefur hins vegar myndast í heilbrigðisþjónustu og umönnunargreinum. Fjöldi starfandi í heilbrigðisþjónustu jókst um 41% á tímabilinu og um 33% í umönnunargreinum. Á sama tíma hefur fjöldi íbúa á aldrinum 65 ára og eldri aukist um 40%. Hafa ber í huga að fjöldi erlendra ferðamanna hefur margfaldast á tímabilinu með aukinni þjónustuþörf og álagi á heilbrigðisþjónustu. Sterkar vísbendingar eru um að umönnunarkrísa sé í uppsiglingu á Íslandi en hingað til hefur henni verið afstýrt með yfirvinnu og auknu álagi á starfsfólk í vaktavinnu.

5. Epli og appelsínur, að bera saman opinbera og almenna vinnumarkaði

Vinnumarkaðurinn er afar fjölbreyttur og mörg atriði torvelda samanburð. Tæplega 72% starfandi á opinberum markaði eru konur en 38% á almenna markaðnum skv. skráargögnum Hagstofunnar. Tæplega 62% starfandi á opinberum markaði eru með háskólamenntun eða aðra sérhæfða menntun að baki en aðeins 30% á almennum markaði. Opinberi markaðurinn er því kvenlægur og með hátt menntunarstig. Nauðsynlegt er að hafa þennan eðlismun í huga við allan samanburð á kjörum milli markaða.

6. Laun eru almennt lægri hjá hinu opinbera fyrir sérfræðinga

Heilt yfir er launamunur hverfandi milli markaða ef horft er til meðaltals í heildarlaunum fullvinnandi fólks árið 2023. Meðaltal heildarlauna fullvinnandi er lægra fyrir alla starfsflokka á opinberum markaði en almennum nema í tilfelli ósérhæfðs starfsfólks og iðnaðarmanna. Þriðji mesti munurinn er hjá sérfræðingum en meðaltalið er þar tæplega 17% lægra á opinberum markaði. Lægst launuðu sérfræðingar landsins starfa hjá sveitarfélögunum með 40% lægri laun að meðaltali heildarlauna. Hér ber hins vegar að hafa í huga að markaðirnir eru með engu móti sambærilegir, til dæmis þegar kemur að menntunarstigi, og því er slíkur samanburður meðaltals ómarktækur.

Þær stéttir sérfræðinga sem eingöngu eru á opinberum vinnumarkaði, svokallaðar einkeypisstéttir, búa við meiri launamun en aðrar stéttir. Þroskaþjálfar eru til dæmis með lægri meðalheildarlaun en sérfræðingar á almennum markaði með rúmlega 30% lægri heildarlaun að meðaltali.

7. Opinber störf skapa sannarlega verðmæti

Enginn starfsmaður er í eðli sínu verðmætari en annar fyrir samfélagið, það fer eftir samhengi og þörfum. Það eina sem skiptir máli er að samfélagið beini kröftum hvers og eins þangað sem verðmætasköpun og framleiðni er hámörkuð. Í mörgum tilfellum henta opinberir aðilar frekar en einkaaðilar, sérstaklega á mörkuðum þar sem markaðsbrestur veldur skorti á framboði og/eða háu verðlagi. Það er allra hagur að opinberir aðilar séu ráðandi á þeim mörkuðum. Í sumum tilfellum getur líka verið hagfellt að opinberir aðilar úthýsi þjónustu til einkaaðila að því gefnu að nægt eftirlit sé með starfseminni.

8. Umræða um opinbert starfsfólk byggist oft á hugmyndafræði fremur en staðreyndum

Oft er erfitt að greina hvort um kreddur eða upplýsta hagsmunagæslu sé að ræða hjá hagsmunasamtökum eða stjórnmálafólki. Sumir halda því fram að einkamarkaður sé alltaf umkominn að tryggja jafnt eða aukið framboð á hagkvæmari hátt en opinberir aðilar. Aðrir tala gegn opinbera markaðnum af hræðslu við aukna skattheimtu til lengri tíma samhliða fjölgun opinbers starfsfólks. Enn aðrir stýrast fyrst og fremst af eiginhagsmunasemi t.d. vegna þess að tiltekin fyrirtæki í þeirra baklandi hafa hagsmuni af aukinni einkavæðingu þó að það séu ekki hagsmunir almennings.

Gagnrýni á opinbera markaðinn er skiljanleg og aðhald frá skattgreiðendum er nauðsynlegt. BHM fagnar upplýstri og uppbyggilegri umræðu um opinbera markaðinn og styður alla viðleitni til að auka skynsamlega hagkvæmni og framleiðni hjá hinu opinbera í samstarfi við stéttarfélögin. Bandalagið hvetur þó atvinnulífið og stjórnmálamenn til að byggja málflutning sinn á staðreyndum og meiri skilningi á hagrænu samhengi markaðanna.

Heimildir:

[1] OECD, Government at a glance 2023

[2] https://www.opinberumsvif.is/mannaudur/

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt