Aðgerðir stjórnvalda ríma við margar áherslur BHM

„Ákveðnir þættir aðgerða stjórnvalda falla ágætlega að stefnu BHM, má þar nefna barnabætur, fæðingarorlof, húsnæðisstuðning og námslán, en áherslur samninganna sjálfra falla misjafnlega að þörfum þeirra hópa sem aðildarfélög BHM semja fyrir. Félögin líta jákvæðum augum að ekki skuli sett krónutöluþak á launahækkanir en að öðru leyti eiga félögin eftir að meta áhrifin á samningana sem gerðir verða á opinbera markaðnum í kjölfarið,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM.

Aðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru í gær til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára ríma við margar þær áherslur sem finna má í stefnu BHM sem samþykkt var á aðalfundi 2022. Má þar nefna áherslu á húsnæðisöryggi og uppbyggingu á húsnæðismarkaði, breytingu á barnabótum og fæðingarorlofi auk lagfæringa á endurgreiðslubyrði námsmanna.

Í stefnu BHM um húsnæðismál kemur fram að húsnæðisöryggi sé mikilvæg forsenda þess að háskólamenntaðir vilji búa og starfa á Íslandi. Miklu máli skipti að uppbygging á húsnæðismarkaði sé stöðug til lengri tíma og stuðli að félagslegum fjölbreytileika. „Ríki og sveitarfélög hafa mikilvægu hlutverki að gegna í að greiða fyrir og tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði á viðráðanlegu verði til kaups, leigu eða kaupleigu.“

Varðandi fæðingarorlofsgreiðslur segir í stefnu BHM að brýnt sé að hækka greiðslur í fæðingarorlofi til að draga úr tekjutapi foreldra og tryggja að „löggjöfin þjóni því tvíþætta markmiði að ungbarn njóti jafnra samvista við foreldra sína og jafni stöðu kynjanna á vinnumarkaði.“

Í vetrarbyrjun vöktu BHM og Landssamband íslenskra stúdenta athygli á kjörum námsmanna og ágöllum námslánakerfisins með ákalli um umbætur á sýningunni Mennt var máttur sem vakti mikla athygli. Í stefnu BHM er sérstaklega tekið fram að auka þurfi sveigjanleika við endurgreiðslu námslána og að komið sé til móts við þarfir einstaklinga sem takast á við fjárhagslega erfiðar aðstæður.

Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar og íslenskra sveitarfélaga vissulega styðja sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaaðila við að ná verðbólgu og vaxtarstigi niður og að því leyti ættu samningarnir að geta virkað sem kjarabót fyrir allan vinnumarkaðinn. „En á hinn bóginn kunna að vera mismunandi hagsmunir að baki hjá ólíkum hópum launafólks hvað aðra þætti þessara samninga varðar. Ákveðnir þættir aðgerða stjórnvalda falla ágætlega að stefnu BHM, má þar nefna barnabætur, fæðingarorlof, húsnæðisstuðning og námslán. Aðildarfélög BHM líta það vissulega jákvæðum augum að ekki skuli vera sett krónutöluþak á launahækkanir, eins og gert var í skammtímasamningi síðasta árs, en að öðru leyti eiga félögin eftir að meta áhrifin á samningana sem gerðir verða á opinbera markaðnum í kjölfarið.“

Á vef Stjórnarráðsins eru frekari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt