Ákall um kjark
Þegar þetta er skrifað eru liðnir tæpir átta mánuðir frá því að skrifað var undir langtímasamninga á almennum markaði við nokkur stærstu stéttarfélög landsins. Í framhaldi af þeim samningum hefur stefna viðsemjenda okkar félaga verið afdráttarlaus; það sem um var samið í byrjun mars er það sem er í boði fyrir aðra, ekkert meira. Fyrir félög háskólamenntaðra þýðir það aðeins eitt; áframhaldandi kjararýrnun. Tölurnar tala sínu máli og þær eru sláandi. Frá aldamótum til ársins 2022 jókst kaupmáttur meðal-ráðstöfunartekna þeirra sem eru með grunnmenntun um 35% en engin kaupmáttaraukning, og í raun 1% samdráttur, varð á sama tímabili hjá fólki með meistaragráðu.