Á aðalfundi BHM 2022, sem fór fram þriðjudaginn 31. maí, var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að leiðrétta skakkt verðmætamat á vinnumarkaði án tafar.
Kerfisbundið vanmat á störfum kvenna er óásættanlegt. Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar. Við krefjumst þess að tillögur starfshóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa frá 2021 komi til framkvæmda. Háskólamenntun kvenna er jafn mikils virði og karla og það á að endurspeglast í launasetningu. Leiðréttum skakkt verðmætamat á vinnumarkaði strax.
BHM krefst þess sérstaklega að yfirlýsing undirrituð af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra frá 2018 komi til framkvæmda. Íslenskt samfélag er statt í kreppu nýliðunar- og mönnunarvanda í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Leiðrétting á launasetningu hefðbundinna kvennastarfa er þannig nauðsynleg til að mæta skorti á fagmenntuðu fólki til starfa í velferðarkerfinu.