Bergið Headspace hlýtur jólastyrk BHM
Bergið Headspace er stuðnings- og ráðgjafarsetur fyrir ungt fólk á aldrinum 12 – 25 ára. Þangað geta ungmenni sótt einstaklingsmiðaða ráðgjöf og þjónustu, sem miðar að bættri líðan og aukinni virkni í lífi og starfi. Þjónustan er veitt af fagmenntaðu fólki félagsráðgjöfum og fjölskyldufræðingum og er ungmennunum að kostnaðarlausu. Starfsemin er að stærstum hluta fjármögnuð með frjálsum framlögum frá fyrirtækjum og almenningi en að hluta með styrk frá ríki. Á þessu ári hafa um 1000 ungmenni fengið stuðning frá Berginu en undanfarið hefur ásókn í þjónustuna aukist og því ljóst að eftirspurn er mikil eftir slíkri þjónustu.