Skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera

Ný ríkisstjórn hefur kynnt áform um einföldun stjórnsýslu og hagræðingu hjá hinu opinbera. Með þessu vill ríkisstjórnin bæta þjónustu og auka skilvirkni með aukinni notkun stafrænnar tækni. BHM styður framfarir í opinberri stjórnsýslu, en telur brýnt að breytingar séu unnar af fagmennsku, með vönduðum undirbúningi og í nánu samráði við starfsfólk.

Þegar ráðist er í skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera verður að tryggja að þær byggist á traustri greiningu á þörfum stofnana og samfélagsins. Þá er ekki síður mikilvægt að starfsfólki sé tryggð skýr og tímanleg upplýsingagjöf um fyrirhugaðar breytingar og áhrif þeirra á störf og starfsskilyrði. Reynslan sýnir að þegar breytingar eru gerðar án nægilegs samráðs leiðir það til óvissu, vantrausts og jafnvel skertrar þjónustu.

Sjálfvirknivæðing og aukin tækninotkun hafa þegar haft áhrif á störf og starfsumhverfi fyrirtækja og munu gera það í vaxandi mæli á komandi árum. Það er engin nýlunda að stjórnvöld sjá í slíkum breytingum tækifæri til hagræðingar, en BHM minnir á að þeim fylgir einnig samfélagsleg ábyrgð. Starfsfólk þarf stuðning við að aðlagast nýju starfsumhverfi og eiga kost á starfsþróun og endurmenntun til að mæta breyttum kröfum. Ef fækkun starfa verður afleiðingin, verður að tryggja viðeigandi úrræði fyrir þá sem fyrir því verða.

Innleiðing gervigreindar í opinberri þjónustu getur í sumum tilvikum skilað aukinni skilvirkni og dregið úr skrifræði. Hins vegar verður hin mannlegi þáttur að vera í forgrunni – sérfræðiþekking og dómgreind starfsfólks eru ómissandi í ákvarðanatöku sem varðar réttindi og skyldur almennings.

BHM leggur áherslu á að stjórnvöld skilgreini skýrt verklag og ábyrgð stjórnenda í skipulagsbreytingum opinberra stofnana. Nauðsynlegt er að virkja þekkingu og reynslu starfsfólks strax í undirbúningi breytinga til að tryggja farsæla innleiðingu þeirra. BHM hvetur stjórnvöld til að setja skýr viðmið um þessa þætti og leggja þannig grunn að skipulagsbreytingum sem stuðla að skilvirkni og fagmennsku í opinberri stjórnsýslu.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt