Ísland þarf að staðfesta samþykkt ILO nr. 190 – aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum

Ofbeldi og áreitni í heimi vinnunnar, einkum gegn konum, er alvarlegt brot á mannréttindum, virðingu og grundvallarreglum um jafnrétti kynjanna. Umræður á nýafstöðnu þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York varpa ljósi á sívaxandi hnattræna ógn gegn öryggi og stöðu kvenna. Í því samhengi hvetur Bandalag háskólamanna (BHM) íslensk stjórnvöld eindregið til að staðfesta án tafar samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 190 frá árinu 2019 um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum.
Mynd: UN Women

Um hvað fjallar samþykkt nr. 190?

Samþykktin felur í sér viðurkenningu á því að ofbeldi og áreitni í tengslum við vinnu geti falið í sér mannréttindabrot og misnotkun. Hún leggur áherslu á að allir eigi rétt á öryggi, virðingu og mannsæmandi vinnuumhverfi, og krefst þess að ríki setji heildstæða löggjöf og geri aðgerðaáætlun til að fyrirbyggja, greina og bregðast við ofbeldi og áreitni á vinnumarkaði.

Samþykktin tekur ekki aðeins til vinnustaða í hefðbundnum skilningi, heldur einnig til fjarvinnu, samskipta á netinu og ferða til og frá vinnu. Hún tekur sérstaklega til kynbundins ofbeldis, sem hefur dýpri áhrif á konur, kvár og aðra jaðarsetta hópa á vinnumarkaði.

Ísland má ekki dragast aftur úr

Noregur hefur þegar fullgilt samþykktina og Danmörk er á lokametrunum. Ísland, sem um árabil hefur verið í fararbroddi í jafnréttis- og mannréttindamálum, má ekki sitja hjá. Fullgilding samþykktarinnar væri skýr yfirlýsing, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, um að Ísland líði ekki ofbeldi eða áreitni í neinni mynd.

Afleiðingar ofbeldis og mikilvægi aðgerða

Ofbeldi og áreitni í vinnuumhverfi fólks eru ekki einungis siðferðileg eða félagsleg mein. Þau grafa undan heilsu og velferð, minnka framleiðni og veikja sjálfa grunnstoð réttinda á vinnumarkaði. Samfélagið allt ber tjón af því þegar starfsumhverfi einkennist af ótta, mismunun eða vanvirðingu.

BHM minnir á að stjórnvöld hafa boðað að samþykkt nr. 190 yrði fullgilt hér á landi. Þau áform hafa þó dregist á langinn. Það er tímabært að efndir fylgi orðum.

Jákvæð skref – en þau nægja ekki ein og sér

BHM fagnar nýlegu átaki Vinnueftirlitsins, sem unnið var í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og miðar að því að draga úr ofbeldi á vinnustöðum. Slíkar aðgerðir skipta vissulega máli, en breyta ekki mikilvægi þess að Ísland gangi alla leið og fullgildi samþykktina.

Tíminn til aðgerða er núna

BHM hvetur íslensk stjórnvöld eindregið til að hraða fullgildingu samþykktar ILO nr. 190. Slíkt skref myndi styrkja lagalega og siðferðilega afstöðu Íslands til jafnréttis og mannvirðingar í atvinnulífinu og efla alþjóðlega forystu landsins á sviði mannréttinda og félagslegs réttlætis.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt