Tími til að fjárfesta í framtíðinni – háskólastigið þarf raunverulegan stuðning

Mjög fróðlegt var að hlýða á Rúnar Vilhjálmsson, prófessor og fyrrverandi formann Félags prófessora við ríkisháskóla, ræða málefni háskólastigsins í viðtali á RÚV þann 19. mars. Þar lagði hann áherslu á nauðsyn þess að stjórnmálamenn tækju háskólastigið fastari tökum og benti á að vanfjármögnun háskóla dragi úr líkum þess að íslenskir háskólar og rannsóknir standist samanburð við önnur Norðurlönd.

Ríkisháskólar fjársveltir þrátt fyrir loforð

Eins og Rúnar rakti í viðtalinu, var Ísland að nálgast meðaltal OECD um framlög til ríkisháskóla fram til ársins 2017. Síðan þá hefur þróunin verið neikvæð, þar sem fjárveitingar hafa dregist saman þrátt fyrir endurtekin loforð um hið gagnstæða. Þessir fjármunir hafa einfaldlega ekki skilað sér, þótt stjórnmálamenn hafi lofað að rétta hlut íslenskra háskóla í samanburði við önnur Norðurlönd og alþjóðleg viðmið.

Eðlilega hefur þetta haft alvarleg áhrif á starfsemi háskólanna og kemur niður á öllum sem þar starfa; kennurum, stúdentum og stjórnsýslunni. Fyrstu ár háskólanáms eru oft kennd í stórum árgöngum, kennslustofur yfirfullar og fjöldi fastráðinna kennara ekki í samræmi við nemendafjölda. Allt dregur þetta úr gæðum námsins, minnkar tengsl milli kennara og nemenda og skerðir þjónustu við nýnema, sem margir þurfa á stuðningi að halda ekki síst vegna ákvarðana stjórnmálamanna um styttingu náms til stúdentsprófs á sínum tíma.

Sjálfstæði háskólanna og ábyrgð stjórnenda

BHM tekur undir áherslur Rúnars varðandi mikilvægi sjálfstæðis háskólanna og hvatningu til væntanlegs nýs rektors HÍ um öfluga faglega forystu. Það er óásættanlegt að íslenskir háskólar fái langtum minni fjármuni á hvern nemanda en háskólar á hinum Norðurlöndunum. Eðlilegt er að draga þá ályktun að vöntun upp á 10 milljarða króna í fjárveitingum til háskólastigsins sé helsta orsök þess vanda sem skólarnir standa frammi fyrir. Málflutningur BHM fyrir nefndum Alþingis síðustu ár hefur verið á þessum nótum og bent á að ef ekki verður brugðist við á næstu árum muni það hafa afdrifarík áhrif á gæði háskólamenntunar og um leið samkeppnishæfni íslensks vinnumarkaðar.

Háskólamenntun er lykillinn að framtíðinni

Í stefnu BHM er lögð rík áhersla á að háskólastigið sé fjármagnað í takt við raunverulegar þarfir, aðgengi sé jafnt fyrir alla og að gæði menntunar og rannsóknarstarfs standist alþjóðlegan samanburð. Háskólamenntað fólk er eftirsótt um allan heim og Ísland verður að keppa um sitt besta fólk. Önnur ríki bjóða betri kjör, öflugra rannsóknarumhverfi og meiri virðingu fyrir menntun. Ef Ísland ætlar ekki að dragast aftur úr, þarf að breyta um stefnu strax.

Fjármögnun háskólastigsins er lykilatriði

Fjárframlög á hvern háskólanema á Íslandi eru langt undir meðaltali Norðurlanda. Þetta bitnar bæði á gæðum námsins og á samkeppnishæfni háskólanna okkar í alþjóðlegu samhengi. Samkeppnisforskot byggir á þekkingu. Ef Ísland ætlar að laða til sín og halda í hæfasta fólkið, þarf menntakerfið að vera í fremstu röð og vinnumarkaðurinn að launa þekkingu og ábyrgð með sanngjörnum hætti.

Sveit öflugra einstaklinga hefur boðið sig fram til rektorskjörs við Háskóla Íslands. BHM hvetur þá sem ná kjöri og nýja forystu til að kynna sér áherslur BHM á sviði háskólamenntunar. Öflug háskólamenntun er forsenda framfara, nýsköpunar og samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt