
Esther Lynch, aðalritari ETUC – Evrópusamtaka verkalýðsfélaga (European Trade Union Confederation) – segir tollana bæði óréttmæta og byggða á útreikningum sem standist ekki skoðun. „Þessar aðgerðir byggja ekki á staðreyndum og hafa ekkert með sanngjarna samkeppni að gera,“ segir Lynch. „Markmiðið virðist vera að valda sem mestum skaða á evrópskri framleiðslu og útflutningi – ekki að bregðast við undirboðum sem byggjast á bágum launakjörum eða félagslegri mismunun.“
Hún varar við því að hækkun tolla muni koma niður á vinnandi fólki beggja vegna Atlantshafsins. Hækkað vöruverð, minni eftirspurn og óvissa í alþjóðlegum viðskiptum geta haft keðjuverkandi áhrif sem leiða til atvinnumissis og verri kjara.
„ESB verður að bregðast við“
Lynch segir brýnt að Evrópusambandið bregðist ákveðið við til að verja hagsmuni launafólks og atvinnulífs í Evrópu. Hún hvetur til mótvægisaðgerða og leggur áherslu á mikilvægi þess að byggja upp viðskiptakerfi sem er réttlátt, opið og sjálfbært.
„Við þurfum framsækin alþjóðaviðskipti sem byggja á jöfnum réttindum og sanngjörnum leikreglum fyrir bæði fyrirtæki og starfsfólk. Reglusetning slíkra viðskipta verður að byggja á félagslegum grunngildum og mannréttindum,“ segir hún og bendir á leiðandi hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í því samhengi.
ETUC leggur áherslu á að samvinna við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og Sameinuðu þjóðirnar verði einnig hluti af þeirri stefnumótun sem taki mið af félagslegum þáttum og réttindum launafólks í hnattrænu samhengi.
Samningsleiðin áfram mikilvæg – en ekki á kostnað launafólks
Framkvæmdastjórn ETUC telur mikilvægt að Evrópusambandið haldi áfram að leita lausna í gegnum samningaviðræður við Bandaríkin og önnur viðskiptaríki. Hins vegar verði ekki vikið frá því grundvallaratriði að verja efnahagslega stöðugleika og réttindi evrópsks launafólks.
BHM tekur undir áhyggjur ETUC og styður þá kröfu að alþjóðaviðskipti byggist á gagnsæi, félagslegum réttindum og sanngjarnri samkeppni – ekki einhliða tollahækkunum eða verndarstefnu sem bitnar á almenningi.
Tengdar færslur
- 3. apríl 2025
Aðgerðir gegn áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu
- 31. mars 2025
Starfsþróunarsetur háskólamanna auglýsir eftir framkvæmdastjóra
- 25. mars 2025
Ísland þarf að staðfesta samþykkt ILO nr. 190 – aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni á vinnustöðum
- 19. mars 2025
Tími til að fjárfesta í framtíðinni – háskólastigið þarf raunverulegan stuðning
- 13. mars 2025
Leikarar og dansarar boða verkföll í Borgarleikhúsinu
- 13. mars 2025
Opið fyrir umsóknir um styrki í Vinnuverndarsjóð