Willard Nökkvi Ingason er nýr sérfræðingur í fjármálum og rekstri. Hann hefur frá árinu 2017 starfað á ráðgjafasviði Deloitte, nú síðast sem verkefnastjóri sjálfvirknilausna. Willard er með grunnmenntun í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein og hefur lokið meistaragráðu í fjármálum.
Þóra Kristín Þórsdóttir er nýr sérfræðingur í greiningum og mun meðal annars sjá um ýmis verkefni tengd kjara- og réttindamálum fyrir bandalagið og aðildarfélög. Þóra Kristín er með grunnmenntun í bókmennta- og mannfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í aðferðafræði félagsvísinda frá London School of Economics. Þóra Kristín hefur undanfarin ár starfað sem sérfræðingur í hagskýrslugerð á Hagstofu Íslands.
Ingvar Sverrisson er nýr sérfræðingur í kjara- og réttindamálum. Ingvar er lögfræðingur með meistaragráðu í Evrópurétti með áherslu á félagarétt og stofnanir ESB. Hann hefur starfað hjá Tryggingastofnun ríkisins hvar hann sinnti erlendum málefnum og samskiptum við úrskurðarnefnd velferðarmála. Þar áður starfaði Ingvar fyrir EFTA, ESA og Alþýðusamband Íslands. Ingvar hefur víðtæka reynslu af kjara- og réttindamálum.
Karitas Marý Bjarnadóttir er nýr ráðgjafi í þjónustuveri BHM. Hún hefur undanfarið unnið sem verkefnisstjóri hjá embætti ríkissáttasemjara. Eins hefur hún starfað sem ritari kjaratölfræðinefndar. Samhliða störfum sínum hjá ríkissáttasemjara hefur hún starfað við þýðingar og prófarkalestur hjá Túlka- og þýðingarmiðstöð Íslands en Karitas er með BA gráðu í ensku og klassískum fræðum og lýkur MS námi í mannauðsstjórnun í haust.
„Við erum virkilega ánægð með að fá þetta flotta fagfólk til liðs við BHM. Verkefni bandalagsins eru fjölbreytt og krefjandi, ekki síst á annasömum tíma þegar kjaraviðræður eru á næsta leyti, og við leggjum okkur fram við að veita aðildarfélögum okkar og félagsfólki þeirra okkar bestu mögulegu þjónustu. Willard, Þóra Kristín, Ingvar og Karitas eru frábær liðsauki við okkar góða starfsmannahóp,“ segir Gissur Kolbeinsson, framkvæmdastjóri BHM.