Fjórar blákaldar staðreyndir
Kjarasamningar eru á næsta leiti, kröfugerðir hafa verið birtar og kunnuglegir frasar heyrast úr herbúðum stríðandi fylkinga. Málflutningur forystufólks virðist oft helst markast af pólitískri sannfæringu og því markmiði að magna drama og spennu fremur en að ná hagfelldum samningum fljótt. Hagtölur eru oft settar fram þannig að þær gagnist málflutningnum en þó ber á því að þær séu mistúlkaðar, teknar úr samhengi eða staðreyndir látnar í léttu rúmi liggja.
BHM birti fyrr í mánuðinum 15 áherslur aðildarfélaga sinna undir nafninu „Jafnréttissamningurinn 2023“, þar sem byggt er á staðreyndum og hófstillingu. Samhliða því var gefin var út viðamikil skýrsla um virði háskólamenntunar í alþjóðlegum samanburði til að undirbyggja megináherslur bandalagsins í komandi kjarasamningum; prósentuhækkanir og leiðréttingu á skökku virðismati starfa. Markmiðið er að endingu að auka kaupmátt og tryggja áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika. Ekki aðeins fyrir háskólamenntaða heldur alla á íslenskum vinnumarkaði.