Fjörugt stefnumótunarþing BHM ræddi framtíðarsýn og hlutverk bandalagsins

Vel heppnað stefnumótunarþing BHM var haldið í liðinni viku. Yfir 140 fulltrúar mættu á þingið víðsvegar að úr atvinnulífinu ásamt starfsfólki BHM og aðildarfélaga. Það var sérstaklega ánægjulegt að finna hve mikill samhugur einkenndi störf þingsins. Hér verða dregin saman svör þátttakenda við nokkrum lykilspurningum, um sýn þeirra á framtíðarstöðu BHM, meginverkefni bandalagsins, verkaskiptingu milli þess og aðildarfélaganna og grunnþjónustu BHM við aðildarfélögin.

Í stuttu máli voru skilaboð fulltrúa á stefnumótunarþinginu þau að BHM ætti að vera sterkt og sameinað afl fyrir allt háskólamenntað fólk á íslenskum vinnumarkaði. Bandalaginu beri að gegna lykilhlutverki í kjarabaráttu, opinberri umræðu og hagsmunagæslu fyrir háskólamenntaða jafnt á almennum sem opinberum vinnumarkaði og vera sýnilegt í samfélagsumræðunni.

Unnið var í hópum á borðum þar sem framtíðarsýn fyrir bandalagið var umræðuefnið. Útkoman var með ýmsu móti, einhver sáu fyrir sér að aðildarfélögum myndi fækka en þau jafnframt stækka. Einnig að fleiri félög háskólamenntaðra myndu sjá sér hag í að ganga til liðs við BHM. Í framtíðinni yrði BHM þannig regnhlífasamtök færri og stærri aðildarfélaga, nær því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum.

Að mati þátttakenda á BHM að vera að vera leiðandi í þjóðfélagsumræðunni um mikilvægi menntunar og bætt kjör og starfsumhverfi háskólamenntaðra. Því er ætlað að vera sterk rödd gagnvart stjórnvöldum og í samstarfi við samtök háskólamenntaðra á öðrum Norðurlöndum.

Þá beri BHM að standa vörð um og styrkja sjóði félagfólks, sem veita stuðning til heilsueflingar auk annars konar þjónustu.

Til að ná þessum markmiðum sínum þarf BHM að styrkja rödd sín og auka sýnileika, vera virkur þátttakandi í þeim fjölmörg verkefnum sem tengjast heildarhagsmunum háskólamenntaðra á vinnumarkaði og draga hvergi af sér í baráttunni fyrir bættum kjörum og starfsskilyrðum félagsfólks aðildarfélaga.

Nauðsynlegt er fyrir BHM að laga sig að breyttum vinnumarkaði, meðal annars auknum fjölda háskólamenntaðra sem ekki eru með íslensku að móðurmáli. Áframhaldandi innleiðing stafrænna lausna er mikilvæg fyrir bandalagið og aðildarfélög þess. Margir bentu á að BHM ætti að nýta gervigreind til að greina gögn og þróa þjónustu sína. Auk þess var bent á mikilvægi góðrar upplýsingagjafar til félagsfólks aðildarfélaga.

Starfsfólk BHM vill nota tækifærið og þakka öllum sem tóku þátt í þessum vel heppnaða degi og hlakkar til að efla starf bandalagsins enn frekar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt