Í málinu sem um ræðir voru málsatvik þau að á árunum 2010 til 2017 (tilskipun 2000/78/EB) vann sjálfstætt starfandi einstaklingur hljóð- og myndefni fyrir pólska ríkissjónvarpið (TP). Var samstarf aðila byggt á röð samninga sem gerðir voru á umræddu tímabili um veitingu þessarar þjónustu. Í desember 2017 birti umræddur einstaklingur og sambýlismaður hans tónlistarmyndband á YouTube í nafni umburðarlyndis fyrir samkynhneigðum pörum. Skömmu eftir birtingu myndbandsins sleit TP öllum frekari viðskiptum við hann.
Í málinu var tekist á um hvort að reglur Evrópusambandsins frá árinu 2000 um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi (tilskipun 200/78/EB), þar með talið á grundvelli trúar eða kynhneigðar, gildi um samninga um þjónustu við sjálfstætt starfandi einstaklinga. Pólska ríkið leit svo að almennar reglur um frelsi til samningsgerðar hefðu hér forgang. Evrópudómstóllinn féllst ekki á þau rök.
Í fyrsta lagi sagði dómstóllinn að tilskipunin gildi um þau skilyrði sem sett eru fyrir aðgengi fólks að sérhverri atvinnustarfsemi. Samningar um vinnuframlag við sjálfstætt starfandi einstaklinga njóti því verndar samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar ekki síður en samningar við almennt launafólk.
Þá bendir dómurinn á að slit á samningi um veitingu þjónustu geti jafnast á við uppsögn á ráðningarsamningi launamanns í hefðbundnu vinnusambandi. Dómstóllinn komst því að þeirri niðurstöðu að ákvæði í pólskri löggjöf um frelsi til samningsgerðar verði að víkja við þessar aðstæður ef beiting slíkra reglna leiðir til mismununar í andstöðu við ákvæði tilskipunarinnar.