Í Reykjavík mun tilvísun í 1. maí 1970 setja sterkan svip á gönguna. Sá dagur markaði upphaf Rauðsokkahreyfingarinnar þegar konur á rauðum sokkum mættu í kröfugöngu verkalýðsins með risastóra Venusarstyttu og lögðu fram kröfur sínar um kvenfrelsi. Fjölmiðlar sögðu frá því að Rauðsokkahreyfingin hefði borið styttuna í óþökk fulltrúaráðs verkalýðshreyfingarinnar og nokkuð stapp var um hvort þær fengju að taka þátt í göngunni en eftir miklar samningaviðræður fengu þær á endanum að ganga aftast. Líklega grunaði engan þá að Rauðsokkahreyfingin ætti eftir að breyta sögu tuttugustu aldarinnar. Nú, 55 árum síðar, býður fulltrúaráð verkalýðsins í Reykjavík konum á rauðum sokkum að ganga fremst í kröfugöngunni á Kvennaári 2025. Á útifundinum á Ingólfstorgi mun fundarstýra, ræðufólk, tónlistarfólk og táknmálstúlkur vera konur og þá munu Rauðsokkur stíga á svið og segja nokkur orð.
Konur munu einnig kveða sér hljóðs víðar en í Reykjavík. Hringinn í kringum landið taka konur sér stöðu fremst í baráttudagskrám stéttarfélaganna í tilefni dagsins. Þær sjá um hátíðarræður, fundarstjórn, tónlist, skemmtiatriði, fánaburð, sýningahald, veitingar og fjölbreytta skipulagningu. Kvennakórar brýna raust sína víða og konur stilla saman strengi sína í fleiri en einum skilningi og sameinast gegn bakslagi í jafnréttisbaráttunni sem nú á sér stað.
Við hvetjum allt launafólk til að sýna samstöðu í verki og taka þátt í kröfugöngu eða skipulagðri dagskrá samtaka launafólks um allt land.
Gleðilegan baráttudag þann 1. maí.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB