Kaupmáttarstöðnun í meira en áratug

Kjaradeila Félags prófessora við ríkisháskóla (FPR) er komin á borð Ríkissáttasemjara. Samningaviðræður hefjast í næstu viku.

Félagið vísaði kjaradeilu sinni til Ríkissáttasemjara eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum félagsins við ríkið. 

Að sögn Sigrúnar Ólafsdóttur formanns FPR snúast deilurnar aðallega um grunnlaunasetningu prófessora, langvarandi kaupmáttarstöðnun stéttarinnar og túlkun háskólastofnana á ákveðnum kjarasamningsbundnum ákvæðum. Kaupmáttur félagsfólks FPR hefur staðið í stað í 8 ár og hefði félagið gengið að samningstilboði ríkisins hefði kaupmáttarstöðnunin framlengst um fjögur ár í viðbót. Á sama tíma, 2016-2028, er fyrirséð að kaupmáttur landsmanna aukist um tæplega 30% að meðaltali. Slík kaupmáttargliðnun milli akademískra starfsmanna háskólanna og annarra á Íslandi er óásættanleg að mati Félags prófessora.

Löngu tímabært að launasetning taki mið af langskólamenntun

Að mati FPR endurspeglar grunnlaunasetning prófessora og annarra háskólakennara ekki menntun, ábyrgð, vinnuálag og sérhæfingu stéttarinnar. Akademískt starfsfólk háskólanna ber lykilábyrgð á gæðum háskólamenntunar þjóðarinnar og er leiðandi í öflugum rannsóknum sem standast alþjóðlegar kröfur. Grunnrannsóknir, sem akademískir starfsmenn háskólanna bera hita og þunga af, eru forsenda hagvaxtar og framþróunar til framtíðar á Íslandi. Löngu tímabært er að launasetning stéttarinnar taki mið af langskólamenntun hennar. Prófessorar eru almennt með yfir 10 ára háskólamenntun og áratuga starfsferil að baki, sem ekki er tekið tillit til við launasetningu. Þá hafa langskólagengnir hærri námslán, lægri ævitekjur og uppsafnaðan lífeyri. Við nýráðningu getur háskólakennari með doktorsgráðu jafnvel átt von á að fá umtalsvert lægri byrjunarlaun en nemendur hans mega vænta eftir útskrift úr grunnnámi.

Starfsumhverfi í háskólum hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum og álag á starfsfólk aukist mjög. Íslenskir háskólar eru vanfjármagnaðir og undirmannaðir sem veldur gífurlegu álagi á starfsfólk og stjórnendur háskólanna sem kappkosta að tryggja að íslensk háskólamenntun standist samanburð við nágrannalönd. Vinnuvika prófessora er að jafnaði rúmar 50 stundir, samkvæmt nýlegri könnun sem FPR gerði meðal félagsfólks og stór hluti yfirvinnu er ólaunaður. Stjórnvöld bera meginábyrgð á vanfjármögnun opinberu háskólanna, að sögn Sigrúnar.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt