Hærra hlutfall kvenna þýðir lægra tímakaup
Meðaltímakaup fullvinnandi sérfræðinga var á bilinu 3.900–6.000 krónur á árinu 2021, en mismunandi eftir mörkuðum. Þeim mun hærra sem hlutfall kvenna er í sérfræðistörfum því lægra er tímakaupið. Tímakaup sérfræðinga á almennum markaði er t.a.m. um 50% hærra að meðaltali en tímakaup sérfræðinga hjá sveitarfélögunum. Rúmlega 80% sérfræðinga hjá sveitarfélögunum eru konur.
Tekjur mjög mismunandi eftir æviskeiði og þúsaldarkynslóð í kreppu
Háskólamenntaðir karlar á aldrinum 45–64 ára eru með um 40% hærri meðalatvinnutekjur en kvenkyns sérfræðingar á sama aldri. Það gæti meðal annars skýrst af greiðara aðgengi karla en kvenna að stjórnunarstöðum og örari framgangi þeirra innan fyrirtækja á því aldursskeiði. Háskólamenntaðir ungir karlar, á aldrinum 25-34 ára, koma betur út en háskólamenntaðar konur óháð námsgráðu en atvinnutekjur þeirra eru að meðaltali um 20% hærri fyrir BSc og MSc gráðu.
Ef leiðrétt er fyrir áhrifum hjúskaparstöðu, fjölda barna, hagsveiflu og hagvaxtar til lengri tíma á atvinnutekjur kemur í ljós að háskólamenntað ungt fólk af þúsaldarkynslóðinni svökölluðu hefur að meðaltali um 18 prósentustigum lægri tekjur en allar þær kynslóðir háskólamenntaðra sem á undan komu, á sama aldri.
Ávinningur kvenna af háskólanámi neikvæður til aldamóta
Ávinningur fólks af háskólanámi, mældur í mun á atvinnutekjum háskólamenntaðra og framhaldsskólamenntaðra eftir skatt, hefur sveiflast mikið á síðustu áratugum. Nýjustu tölur benda til þess að ávinningur háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára sé nú um 34%, eða svipaður og árið 1997. Atvinnutekjur háskólamenntaðra karla eru nú rúmlega 55% hærri en meðalatvinnutekjur framhaldsskólamenntaðra en sambærileg tala hjá konum er 19%. Vert er að benda á að ávinningur kvenna af háskólamenntun var neikvæður allt til aldamóta.
Arðsemi mun minni að meðaltali og mismunandi eftir atvinnugreinum
Ef kostnaður (fórn í tekjum og bein útgjöld) er veginn upp á móti ávinningi af háskólanámi kemur í ljós að arðsemi háskólamenntunar er mun minni á Íslandi en í öðrum löndum og að meðaltali innan OECD, eða sem nemur 11% raunvöxtum árlega, samanborið við 17% að meðaltali innan OECD. Í tölunum er gert ráð fyrir fjögurra ára námi (meðaltal BSc- og MSc gráðu). Tapaðar atvinnutekjur miðast við meðaltal, ekki tekjur fullvinnandi, svo líklegra er að arðsemi sé ofmetin en vanmetin.
Lítil arðsemi gæti orðið samfélaginu dýrkeypt
Aðsókn ungs fólks í háskólanám er mun minni hér en í öðrum löndum. Aðeins 38% fólks á aldrinum 25–34 ára hefur aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð, svo dæmi séu tekin. Hlutfallið er talsvert lægra en í öðrum norrænum ríkjum og mun lægra en í ýmsum smáríkjum. Kynjamunurinn er sá þriðji mesti innan OECD og um tvöfalt meiri en á hinum Norðurlöndunum, körlum í óhag. Ísland er þá númer 21 af 30 OECD-ríkjum hvað varðar hlutfallslegan fjölda karla og kvenna sem hafa lokið meistaraprófi í háskóla. Þetta gæti meðal annars skýrst af lítilli arðsemi háskólanáms á Íslandi.
Arðsemin er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Til dæmis má nefna að þau sem útskrifuðust árið 2015 og hófu störf í fjármálastarfsemi hafa áunnið sé þrisvar sinnum meiri ávinning á fimm árum en þau sem hófu störf í heilbrigðisþjónustu á þeim tíma.