Nýjar Evrópureglur auka launagagnsæi til muna

Evrópusambandið hefur samþykkt tilskipun sem á að tryggja rétt kvenna og karla til að fá greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt störf með skilvirkari hætti en áður

Eitt helsta nýmæli tilskipunarinnar snýr að gagnsæi launa.

Með tilskipuninni öðlast starfsfólk rétt til að fá afhentar upplýsingar frá vinnuveitanda um starfskjör sín samanborið við meðallaun annarra sem vinna sama starf, greint eftir kyni. Umsækjendur um störf sömuleiðis rétt til upplýsinga um launakjör væntanlegra samstarfsfélaga.

Réttindaákvæðum tilskipunarinnar fylgja reglur um skaða- og miskabótaábyrgð vinnuveitanda.

Vinnuveitendum á Íslandi og á öllu EES-svæðinu ber samkvæmt lögum skylda til að greiða konum og körlum sömu laun fyrir sömu vinnu eða jafnverðmæt störf. Sú löggjöf byggir að verulegu leyti á jafnréttislöggjöf Evrópusambandsins. Með þessari nýju tilskipun verður hægara um vik að framfylgja þeirri meginreglu á íslenskum vinnumarkaði. Verði tilskipunin innleidd á Íslandi mun það auðvelda íslensku launafólki verulega að fylgjast með hvort því sé mismunað í kjörum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru konur á Íslandi að meðaltali með 21,9% lægri atvinnutekjur en karlar.

Það er afstaða BHM að tilskipunina ætti að innleiða sem fyrst, enda væri þannig stigið stórt skref í átt að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum sem konur sinna í meirihluta.

Helstu nýmæli sem tilskipunin boðar:

  • Umsækjendur um starf: Umsækjendum er tryggður réttur til upplýsinga um byrjunarlaun eða launabil til að auka gagnsæi í samningaviðræðum. Þeim upplýsingum skal miðla í starfsauglýsingu, áður en atvinnuviðtal fer fram eða á annan hátt áður en ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.
  • Upplýsingaréttur starfsfólks: Starfsfólk öðlast rétt til að kalla eftir upplýsingum frá vinnuveitanda um launakjör sín í samanburði við meðallaun annars starfsfólks, greint eftir kyni, í þeim hópi sem vinnur sömu eða jafn verðmæt störf.
  • Jafnverðmæt störf: Tilskipunin skerpir á þeim þáttum sem horfa skal til við mat á því hvaða störf innan fyrirtækis eða stofnunar skulu teljast jafn verðmæt. Við mat á virði starfa og samanburði skal fylgja hlutlægum viðmiðunum um þær kröfur sem störf gera til starfsfólks, þar á meðal um menntun-, faglega þekkingu, færni, frammistöðu og ábyrgð. Þar sem við á getur samanburður einnig miðast við starfskjör í jafn verðmætum störfum utan viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Sú heimild mun einkum nýtast svonefndum kvennastéttum. Við þann samanburð verður einnig heimilt að styðjast við tölfræðileg gögn sem sýna fram á kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.
  • Upplýsingar um jafnlaunamál: Atvinnurekendur með að minnsta kosti 100 starfsmenn verður skylt að birta opinberlega upplýsingar um ýmsa þætti er snúa að jafnlaunamálum innan sinna fyrirtækja. Þær reglur munu þó ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en að nokkrum árum liðnum. Í fyrsta áfanga verður miðað við fyrirtæki með að minnsta kosti 250 starfsmenn.
  • Úttekt á launakerfi: Ef í ljós kemur að 5% kynbundinn launamunur er til staðar innan fyrirtækis, þar sem starfa a.m.k. 100 manns, og vinnuveitandi getur ekki rökstutt mismuninn út frá hlutlægum kynhlutlausum viðmiðunum skal gerð úttekt og launakerfi endurskoðað í samráði við fulltrúa starfsfólks. Slík endurskoðun ætti innan hæfilegs tíma að hafa í för með sér afnám kynbundins launamunar hjá viðkomandi fyrirtæki.
  • Viðurlög: Starfsfólki skal bætt það tjón það hefur orðið fyrir vegna kynbundins launamunar, þ.m.t. með afturvirkri leiðréttingu. Réttur til miskabóta skal einnig tryggður. Meðal annarra úrræða má nefna kröfu um úrbætur á launakerfum fyrirtækja svo að þau uppfylli ákvæði tilskipunarinnar. Einnig er kveðið á um opinber viðurlög, þ.m.t. sektir vegna brota á jafnlaunareglunni.
  • Sönnunarbyrði: Reglur um sönnunarbyrði verða styrktar. Sönnunarbyrðin flyst yfir á vinnuveitanda ef í ljós kemur að hann hefur ekki uppfyllt skyldur um gagnsæi launa samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Það á m.a. við hafi hann neitað að veita upplýsingar sem starfsfólk hefur kallað eftir eða ekki birt opinberlega upplýsingar um stöðu jafnlaunamála innan síns fyrirtækis.

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt