Samtöl BHM við forystufólk stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga

Um áherslumál sem snerta félagsfólk aðildarfélaga bandalagsins, sem eru kaupmáttarrýrnun háskólamenntaðra, launamunur kynjanna, skortstaða í ákveðnum stéttum og endurgreiðslufyrirkomulag námslána.

Samtöl BHM við forystufólk stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga til Alþingis hófust í dag. Fulltrúar frá Samfylkingu og Vinstri grænum komu til að ræða nokkur af helstu áherslumálum sem snerta félagsfólk aðildarfélaga bandalagsins. Samtölum við forystufólk verður framhaldið alla vikuna og vonast BHM til þess að ná eyrum þeirra stjórnmálaafla sem bjóða fram til Alþingis.

Í aðdraganda samtalsins höfðu sérfræðingar BHM rýnt stefnumál stjórnmálaflokkanna og mótað spurningar er varða áherslumál sem brenna á félagsfólki. Spurningarnar voru sendar flokkunum og eru svörin við þeim óðum að berast. Samtölin, sem fara fram á klukkutímalöngum fundum með hverju framboði fyrir sig, grundvallast svo á þeim álitamálum sem BHM leggur áherslu á og svörum flokkanna við þeim. Fundirnir eru opnir öllum aðildarfélögum bandalagsins og gefst þar tækifæri til að eiga milliliðalaust samtal við forystufólk flokkanna um aðgerðir sem þau hyggjast grípa til komist þau til valda.

Þau málefni sem helst brenna á háskólamenntuðum eru kaupmáttarrýrnun, launamunur kynjanna sem enn er staðreynd þrátt fyrir ýmsar aðgerðir við brúun bilsins, skortur á menntuðu starfsfólki víða í heilbrigðis- velferðar- og menntakerfum okkar m.a. vegna launakjara og stóraukins álags á starfsfólk innan kerfanna ásamt aðkallandi málefnum Menntasjóðs námsmanna og endurgreiðslubyrði námslána.

Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM sýnir dreifirit með áherslumálum bandalagsins sem dreift er í samtali við forystufólk flokkana

Borgartúni 27, 105 Reykjavík
Kt. 630387-2569

595 5100
Opnunartími BHM

Opnunartími þjónustuvers:
mán. til fim. 9:00 - 15:00,
fös. 9:00 - 13:00

Opnunartími skrifstofu:
mán. til fim. 9:00 - 16:00,
fös. 9:00 - 13:00

Hagnýtt