Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.
Með lögunum er foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mælti fyrir lagafrumvarpinu. Lögin öðlast gildi í janúar á næsta ári.
Hámarksgreiðslur í sorgarleyfi vegna barnsmissis verða samkvæmt frumvarpinu 600.000 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt rétt sinn til sorgarleyfis samhliða minnkuðu starfshlutfalli og einnig yfir lengra tímabil enda sýna niðurstöður rannsókna fram á mikilvægi þess að einstaklingar sem verða fyrir áföllum í lífinu haldi sambandi við vinnumarkaðinn eins og þeir treysta sér til hverju sinni.